Færsluflokkur: Ferðalög
Í desember árið 1976 flaug ég til Chicago, þá 16 ára gamall, á leið minni til Seattle. Í borg vindanna var mikið vetrarríki, 10 stiga frost og skafrenningur. Mikið óveður geysaði í norð-vesturhluta Bamdaríkjanna og ófært yfir Klettafjöllin. Öngþveiti var á Ohara flugvellinum og tugþúsundir farþega voru strandaglópar í borginni. Ég átti tengiflug með North West Airlines að mig minnir en allt flug lá niðri vestur fyrir. Ég var óttalega umkomulaus þarna, einn á ferð á leið í heimsókn til systur minnar og frænku á Kyrrahafsströndina.
Mér tókst að finna bás Loftleiða, (voru þeir ekki annars á þessum tíma?) og íslensk afgreiðslukona þar fór með mig á bás NWA, en þeir báru ábyrgð á mér eftir að Loftleiðir höfðu skilað mér á sinn áfangastað. Vonlaust var að fá hótelherbergi í Chicago en NWA fann hótelherbergi fyrir mig í 1000 km. fjarlægð, í Minneapolis. Eftir stutta bið á flugvellinum var mér því komið um borð í Jumbo-þotu og flogið með mig í hálftómri vélinni til Minneapolis. Þegar þangað var komið eftir um klst. flug, var mér leiðbeint í flugrútu við völlinn sem keyrði mig á Hotel Marriot, fyrsta flokks hótel. Í afgreiðslunni á hótelinu voru mér færðir liklar að svítu að mér fannst, og mér jafnframt tilkynnt að ég ætti umtalsverða upphæð í boði NWA, nefnilega dagpeninga vegna óþægindanna sem röskun á fluginu hafði valdið mér. Þarna var ég svo eins og blóm í eggi þar til morguninn eftir og ég gat haldið ferð minni áfram.
Í desember árið 1990 fór ég ásamt eiginkonu minni í helgarferð til Glasgow, sem þá var nokkuð vinsæll staður til verslunarferða. Þegar halda átti heim, þurftum við að bíða í 10 klt. á vellinum vegna bilunar í þotunni. Farþegarnir fengu litlar upplýsingar um málið og engan viðurgjörning. Að lokum millilenti breiðþota frá Kaupmannahöfn á leið til Íslands og pikkaði okkur upp. Við komum til landsins um miðnætti og nú vorum við strandaglópar í Reykjavík, því öllu innanlandsflugi þann daginn var auðvitað lokið og við búandi á Reyðarfirði. Ég spurði afgreiðslufólkið í lobbíinu á Hótel Loftleiðum hvort við fengjum ekki hótelherbergi í boði Iceland Air. Viðmótið sem við fengum við spurningunni var hreinlega dónalegt og okkur sagt að Iceland Air tæki ekki ábyrgð á okkur, en við gætum fengið hételherbergi á okkar kostnað.
Í fyrra tilfellinu gerðu náttúruöflin mér grikk og ómögulegt að kenna flugfélaginu um töfina, en fékk samt höfðinglega meðhöndlun af flugfélagsins hálfu því að þeirra mati báru þeir ábyrgð á mér þar til ég kæmist á áfangastað. Í seinna tilvikinu bilaði vél flugfélagsins og töfin því á þeirra ábyrgð. Ég fékk dónalegt viðmót fyrir að spyrja hvort flugfélagið gæti ekki gert eitthvað fyrir okkur strandaglópanna, um miðja nótt.
![]() |
Fjöldi farþega Iceland Express bíður í Kaupmannahöfn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | 9.8.2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Við tókum bíleigubíl í 2 daga í Króatíuferðinni og keyrðum um 300 km á Istríaskaganum. Ótal mörg smáþorp urðu á vegi okkar, m.a. Hum, minnsti bær í heimi samkv. heimsmetabók Guinness, með 17 skráða íbúa.
Istríaskaginn er tæplega á stærð við Reykjanesskagann og á honum búa um 160 þús. manns í óteljandi smáþorpum. Stærsti bærinn er Pula með um 60 þús. íbúa.
Við sáum þennan kirkjugarð í einu smáþorpanna og ákváðum að teigja úr okkur aðeins og skoða hann. Leiðin voru ríkuleg að sjá, greinilega hefð þarna að gera vel við þá látnu. Jökull sá nafn uppáhalds pizzunnar sinnar á einum legsteininum, Margherita, og vildi endilega að ég tæki mynd. Við sögðum honum líka að Margarítan yrði jörðuð þegar við kæmum heim. Pizzubann í nokkrar vikur!
Groznan er lítið listamannþorp sem okkur var bent á að gaman væri að heimsækja og sést þarna á myndinni. Mörg þorpanna eru upp á svona hæðum, gjarnan með kastala eða kirkju.
Í Groznan búa nánast eingöngu viðurkenndir listamenn og í þessu litla þorpi voru ótal gallerí. Á veggjum innandyra héngu gjarnan allskyns viðurkenningar og diplómur listamannanna, til vitnis um "gæði" þeirra. Verðlagið á listmununum var líka í samræmi við það. Þarna var mynd, gler og leirlist af öllu tagi, einnig vefnaður og margt fleira. Sum húsanna eru frá 10. og 11. öld.
Þessi bíll, frá Ljublana í Slóveníu var með íslenska fánann á númeraplötunni. Mér skilst að þetta sé skjaldarmerki bæjarins, eða einhvers bæjar í nágreninu.
Þessir Danir brugðu á leik í myndatökunni. Ég stóðst ekki mátið og "stal" mótívinu.
Næsta stopp var í bænum Motovun. Kastali á toppi hæðarinnar.
Við fórum inn á huggulegan veitingastað en þar var fátt um manninn. Við vorum greinilega komin út fyrir hefðbundna ferðamannastaði.
Ég pantaði mér Kebab og fékk grísakjöt á teini. Hin í fjölskyldunni pöntuðu sér grísakótelettur sem brögðuðust nákvæmlega eins. Ágætis matur samt
Við keyrðum fram á þennan "heilsustað" Lítil þyrping af húsum þar sem allt snérist um heilsurækt.
Víða meðfram sveitavegunum sem við fórum um, voru skilti við bóndabæji sem buðu fólki vínsmökkun og að kaupa afurðir bóndans beint. Við keirðum eftir einni slíkri heimreið, þröngan skógarstíg dágóða leið og við enduðum á þessum stað. Ekki sálu að sjá og frekar óhrjálegt og subbulegt um að litast.
"Roadkill" Þessi refur lá dauður í vegkantinum á heimreiðinni.
Hum, minnsti bær í heimi, 17 íbúar.
Önnur tveggja gatna í bænum
Þetta mikla umferðarmannvirki, hraðbrautin um sveitina, er ekki yfir neitt nema á milli tveggja hæða. Miklu til kostað fannst mér. Á Íslandi hefði ekki verið brúað þarna.
Við hliðina á hraðbrautinn var bóndi að slá. Svona landbúnaðartæki þætti sennilega ekki boðlegt á landinu bláa.
Ferðalög | 8.8.2008 (breytt kl. 16:19) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Með þessari glæsilegu snekkju, "Princess of Dubrovnik", fórum við í dagsferð til Feneyja. Um 2 tíma tekur að sigla frá Porec í Króatíu til Feneyja, auk 45 mínútna að sigla innsiglinguna að bryggjunni en þar þarf að sigla mjög hægt.
Þegar inn var komið var ekki eins glæsilegt um að litast. "Snekkjan" var að innan eins og í þröngri flugvél. Farþegarýmið er á tveimur hæðum og báturinn tekur um 300 farþega.
Eyrún á einni göngubrúnni yfir "breiðstræti" í Feneyjum
Einkenni Feneyja, Gondólinn. Okkur var sagt að þessi bátar væru mjög dýrir í smíðum og kostuðu frá 1,5 milj. ISKR til 4 miljónir. Hálftíma ferð með Gondóla hefði kostað okkur fjögur 10 þús. kall. Við slepptum því.
"Götur" og göngubrýr
Markúsartorgið. Okkur var sagt að óvenju fáir ferðamenn væru í Feneyjum miðað við árstíma. Hinni alþjóðlegu fjármálakreppu og háu bensínverði væri um að kenna. Okkur fannst samt alveg nóg af fólki þarna.
Margar magnaðar byggingar eru við torgið. Flestar þær glæsilegustu í tíð Napóleons.
Allt er mjög dýrt í Feneyjum, sérstaklega í kringum Markúsartorgið. Okkur var sagt að þetta væri dýrasti veitingastaðurinn. Ég mátti til með að prófa hann. Frábær hljómsveit spilaði þar fyrir gesti.
Það mun vera vinsælt af efnuðu fólki að halda brúðkaupsveislur á þessum veitingastað. Eitt slíkt var í gangi þegar við settumst.
Þjónninn var afar virðulegur.
Ég pantaði mér lítinn bjór og Ásta og Jökull fengu sér ístertu. Þetta kostaði 4000 kall en hljómsveitin og umhverfið réttlættu það fannst mér. Ég sleppti kaffibollanum í eftirrétt, hann kostaði 1300 kr.
Jökli fannst mikið ævintýri hve dúfurnar voru spakar og ágengar á Markúsartorginu.
Íslendingahópurinn tók nokkra Taxa til baka á bryggjuna sem ferjan okkar var á. Mjög skemmtileg 1/2 tíma ferð en dýr eins og allt annað í Feneyjum.
Um borð í Taxanum.
Silgt fram hjá "strætó" og stoppistöð
Margskonar farartæki sáum við á leið okkar.
Ambulance.
Að sjálfsögðu eru engir bílar í Feneyjum svo byggingaverktakar þurfa að nota báta eins og aðrir. Sumir bátanna voru með stæðilega krana þó litlir væru, þó ekki þessi. Umferðarreglur virðast ekki gilda þarna því allir sigla bara einhvernvegin.... hægri, vinstri, allt í kross og flautan er töluvert notuð.
Í stað bílastæða voru bátastæði og staurar til að binda við. Engir stöðumælar Feneyjar eru merkilegt fyrirbrigði.
Ferðin til Feneyja tók í heildina 13 tíma og þar af 5 1/2 með ferjunni. Full stuttur tími til að skoða, en kannski alveg nóg fyrir okkur miðað við verðlagið þarna.
Ferðalög | 6.8.2008 (breytt kl. 18:57) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ströndin í Porec er klettótt en allstaðar er manngerð aðstaða til sjó og sólbaða. Við fórum alltaf á sama staðinn þegar við fórum á ströndina, í snotra vík með steyptum kanti og sandi allt í kring.
Hitinn var aldrei óþægilega mikill og fór sjaldan yfir 30 stig. Við ströndina var alltaf þægileg gola og fyrsta daginn okkar á ströndinni var töluverður vindur og öldugangur. Það nýtti Jökull sér ásamt fleirum sem sést á næstu myndum.
Jökull er fjærst í röðinni. Sjórinn var vel volgur og mun heitari en vatnið í sundlauginni í hótelgarðinum.
Að vera þarna var rosa fjör en það endaði með því að Jökull hruflaði sig illa á hné.
Stundum gengum við lengri leiðina niður í bæ og fórum ströndina. Mjög falleg leið.
Litlar eyjur eru víða við Istríaskagann. Þessi er með glæsihóteli við Porec.
Stór smábátahöfn er við miðbæinn.
Þessi glæsilega einkasnekkja lá við festar. Vörður passaði að enginn óviðkomandi færi um borð.
Ferðalög | 4.8.2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Á næstu dögum ætla ég að setja hér inn nokkrar myndir frá ferðalagi fjölskyldunnar til Porec í Króatíu dagana 13.-27. júlí.
Við vorum á íbúðarhóteli sem var staðsett rétt við móður-hótelið, Hotel Diamant. Fín 3gja herbergja íbúð með góðri loftkælingu. Hótelin eru 3 þarna; Diamant, Cristal og Rubin og við gátum nýtt okkur þá þjónustu sem þau höfðu upp á að bjóða en við vorum eingöngu á Diamant, enda var það næst okkur og flottast. Góður sundlaugagarður, bæði úti og innilaug og flott "wellness center".
Um 15 mín. gangur er niður í gamla bæinn í Porec sem er 15 þús. manna bær á Istria-skaganum. 700 þús. ferðamenn koma til bæjarins á sumrin svo þar eru væntanlega 100-150 þús manns yfir sumarmánuðina. Þjóðverjar, Austurríkismenn og Ítalir eru fjölmennastir þarna en einnig mátti sjá töluvert af Hollendingum og Dönum. Það vakti athygli mína að þeldökkt fólk og Asíubúar sáust ekki þarna og ekki heldur múslimar sem hægt var að þekkja af klæðaburði.
Skaginn liggur nyrst við Adríahafið og er á stærð við Reykjanes. Ótrúlega mörg þorp eru á skaganum, flest lítil, m.a. minnsti bær í heimi samkvæmt heimsmetabók Guinness en hann heitir Hum, með 17 skráða íbúa. Við heimsóttum bæinn þegar við tókum bílaleigubíl í 2 daga. Um 160 þús. íbúar eru á Istria-skaganum og um 5 miljónir í landinu öllu. Stærsti bærinn er Pula með um 60 þús. íbúa.
Á myndinni hér að ofan er lítill turn sem er hluti af borgarmúr sem byggður var á dögum Rómaveldis, kringum árið 500. Í dag er ekkert eftir af múrnum nema tveir svona turnar og í þeim eru afar sérstakir veitingastaðir.
Úti að borða í gamlabænum í Porec. Eyrún tekur spaugi litla bróðurs, Jökuls, með stóískri ró
Gamli bærinn er frábær í Porec með húsum og þröngum götum sem langflest eru mörg hundruð ára gömul og þau allra elstu yfir þúsund ára gömul. Verðlag er þarna heldur lægra en á Íslandi en hefur þó hækkað mikið hin allra síðustu ár. Króatar hafa óskað eftir inngöngu í Evrópusambandið svo brátt mun gjaldmiðill þeirra, Kuna, líða undir lok og Evran taka við. Þá má búast við að verðlag hækki en frekar.
Ferðalög | 3.8.2008 (breytt kl. 17:46) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Við fjölskyldan förum til Króatíu aðfarnótt sunnudagsins næsta og höldum af stað keyrandi til Reykjavíkur í fyrramálið. Ég kem til með að reyna að blogga eitthvað fræðandi og skemmtilegt um land og þjóð þegar ég kem til baka og vonandi með einhverjum fallegum myndum.
Landið liggur fyrir botni Adríahafsins og við verðum í Porec, rétt fyrir sunnan slóvensku landamærin. Lent er í Trieste á Ítalíu og þaðan er um tveggja tíma rútuferð til Porec. Ég á ekki von á því að blogga neitt fyrr en ég kem til baka í lok júlí. Þangað til, kæru bloggvinir, hafið það gott og verið góð við hvert annað
Ferðalög | 10.7.2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Við útskriftarnemarnir í Garðyrkjuskólanum í Hveragerði fórum til Þýskalands og Ítalíu í apríl 1988. Fyrst vorum við í Freiburg í S-Þýskalandi í nokkra daga og svo tókum við lest til Flórens. Flórens er stórkostlegur staður að koma til og andi menningarinnar frá dögum Medicci ættarinnar svífur þar yfir vötnum. Michel Angelo er auðvitað frægasta nafnið sem kemur upp í hugann enda er hann höfundur frægustu listaverka veraldarinnar. Aldrei hefur höggmynd haft eins mikil áhrif á mig og "Davíð". Ég stóð fyrir framan þessa ca. fjögurra metra háu marmarastyttu orðlaus af undrun. Ljósmynd segir ekki þúsund orð, þegar Davíð er annars vegar. Maður verður að sjá hana "Live".
Við skruppum með lest yfir til Pisa til þess að skoða skakka turninn.
Mig minnir að árið sem við vorum þarna hafi verið síðasta árið sem hann var opinn almenningi, svona skakkur. Aðgangur almennings að honum var bannaður af öryggisástæðum í þó nokkuð mörg ár og ég glennti alltaf upp augun þegar ég sá fréttir af gangi mála við að stöðva hallann.
Mér er mjög minnistætt þegar við skólasystkinin gengum upp spíral-laga steintröppurnar inni í turninum.... helv. mörg þrep og á toppi turnsins fékk maður sterklega á tilfinninguna að turninn væri alveg að falla. Og mig grunaði þegar ég kíkti út af járnhandriðinu, sem manni fannst reyndar vera skelfilega veigalítil, að þungi minn væri einmitt kílóin sem vantaði í viðbót, svo hann félli. Ég hefði ekki viljað missa af honum svona skökkum.
Hvað er varið í "skakka" turninn, standandi beint upp í loftið?
![]() |
Þráðbeini turninn í Písa? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | 29.5.2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Starfsmannafélag Grunnskóla Reyðarfjarðar stóð fyrir óvissuferð fyrir starfsmenn og maka þeirra á föstudagskvöldið. Einu upplýsingarnar sem fólk fékk fyrir ferðina, var að klæða sig eftir veðri, vera í sæmilegum gönguskóm og hafa vasaljós meðferðis
Mæting var við grunnskólann kl. 18.00. Allir höfðu fylgst spenntir með veðurspánni alla vikuna og hún var ekki glæsileg því spáin hljóðaði lengst af upp á 2ja stiga hita og slyddu. En raunin varð 7-8 stiga hiti, hægviðri og bjart með köflum.
Svo var haldið af stað í rútu þegar fólk hafði þegið startvökva og til þess að plata okkur smávegis í byrjuninni þá lá leiðin fyrst í vestur út úr bænum en á hringtorginu (hinu eina á öllu Austurlandi) í útjaðri bæjarins var tekin 180 gráðu stefnubreyting og stefnan tekin í átt til Eskifjarðar.
Við komuna til Eskifjarðar tók á móti okkur við Randulfs sjóhús sem byggt var árið 1890, Sævar Guðjónsson, sonur "Hákarla Guðjóns" á Eskifirði. Sævar rekur ásamt konu sinni rómað ferðaþjónustufyrirtæki Mjóeyri http://mjoeyri.is/ Sævar tók á móti okkur á þjóðlegan hátt með gamlan sjóhatt og sagði okkur frá sögu hússins sem gert hefur verið að frábæru sjómynjasafni.
Hildur og Ásta með Sævari fyrir utan Randulfs sjóhús.
Hópurinn utan við sjóhúsið.
Boðið var upp á hákarl, brennivín og harðfisk þegar inn var komið. Jói Deddi stendur við árabát og ýmis gömul veiðarfæri en gömul saga verbúðarlífs á Íslandi á öndverðri 20. öld, beinlínis lyktar um allt húsið
Ekki veit ég hvort Björgvini Þórarinssyni og Þóroddi Helgasyni hafi orðið eitthvað ómótt við veitingarnar. Nei,... þeir voru bara að máta kojurnar uppi á lofti Þarna fleygðu dagróðramennirnir sér að loknu erfiði dagsins, fyrir um 100 árum síðan. Mjög skemmtileg stemning er inni í húsinu og margt forvitnilegt að skoða.
Frábær götumynd er við sjávarsíðuna á Eskifirði. Þarna var byrjað að halda við og vernda gömul hús, löngu áður en það komst í tísku í Reykjavík. Nú vilja einhverjir menningarvitar halda í ónýta og jafnvel ljóta hjalla við Laugaveg, og kosta til þess hundruðum miljóna króna af skattpeningum Reykvíkinga. "Other peoples money".
Upplýsingaskilti um síðustu aftökuna á Austförðum, á Mjóeyri.
Næst var haldið að Helgustaðanámu, frægustu jarðefnanámu á Íslandi, en þar var silfurberg unnið í stórum stíl um margra áratuga skeið og allt fram undir seinni heimsstyrjöld. Þýskir vísindamenn voru afar áhugasamir um silfurbergið og notuðu hinn hreina kristal í berginu í linsur á smásjám. Þarna er hópurinn á leið inn í námuna. Náman er í 5-10 km. fjarlægð og utan við Eskifjörð.
Gústi, Heiðar og Björn Sumarliði á leið í námuna
Sævar fararstjórinn okkar hafði mokað út munnann fyrr um daginn svo við kæmumst inn. Það var auðséð að töluvert var fyrir okkur haft. Sævar er mjög skemmtilegur leiðsögumaður og ég mæli sterklega með honum og fyrirtæki hans fyrir áhugasama ferðamenn sem vilja kynnast Fjarðabyggð. Endilega skoðið heimasíðu Mjóeyrar, sem ég vísa í hér að ofan. Feiklega fjölbreytt úrval afþreyingar er í boði hjá fyrirtækinu.
Haldið inn í námuna.
Tveir óþekktir rassar framundan.
Hildur og Rannveig Jónína glaðbeittar á svip.
Náman er nokkrir tugir metra á lengd og á um helmingi leiðarinnar þarf að bogra til þess að komast leiðar sinnar. Einar, Alli og Linda
Þura og Inga Lára
Ég og Gústi á leiðinni til baka.
Upplýsingar um Helgustaðanámu.
Að lokinni hellisskoðunarferðinni var slegið upp veislu í gamla Austrahúsinu á Eskifirði. Dýrindis lambasteik með öllu tilheyrandi. Frábær matur og allir orðnir vel lystugir.
Fíflagangur er bráð nauðsynlegur í ferðum sem þessum. Tinna og Siggi KR-ingur bregða á leik eftir matinn.
Óvissuferðinni lauk svo hjá hluta hópsins á Kaffi Kósý, pöbbnum á Reyðarfirði, þegar við komum til baka um miðnætti. Þarna er Ásta skólastjóri ásamt kennurunum Lóló og Bryndísi í góðum fíling.
Ferðalög | 18.5.2008 (breytt kl. 20:58) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Ein af röksemdum náttúruverndarsinna gegn því að raska náttúrunni á hálendinu, er að það eiga að vera svo miklir möguleikar og peningar í henni óraskaðri. Að verið sé að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Margir hafa bent á þversögnina og vitleysuna í þeirri röksemd.
Hálendisferðalangar þurfa góðan búnað og góða ferðaáætlun og eins og segir á skiltinu frá Kanada hér til hliðar; "Að vera viðbúnir því óvænta"
En það er ekki bara átroðningurinn sem slíkur sem gæti orðið vandamál, heldur þarf að byggja aðstöðu fyrir vaxandi fjölda ferðamanna. Auk þess má búast við að björgunarsveitir muni hafa meira að gera. Allt kostar þetta peninga og átroðslu.
![]() |
Þarf að takmarka aðgang að hálendinu? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | 5.5.2008 (breytt kl. 12:28) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þegar ég sá þessa frétt, að 65 ár eru liðin frá gyðingauppreisninni í Varsjá, varð mér strax hugsað til upplifunar minnar í fyrrasumar. Ég ferðaðist um Pólland í júní í fyrrasumar í skemmtilegum hóp kennara Grunnskóla Reyðarfjarðar og maka þeirra. Ég bloggaði ferðasöguna með miklu af myndum, eftir að ég kom heim.
HÉR er bloggið um heimsóknina í gyðingahverfið í Krakow. Um 60 þús. Gyðingar voru í Krakow í upphafi seinna stríðs og voru þeir um fjórðungur íbúa borgarinnar. Aðeins 5% Gyðinganna lifðu stríðið af eða um 3.000 manns.
HÉR er bloggið um heimsóknina í Auschwitz. Ein magnaðasta upplifun sem ég hef átt á ferðalögum erlendis um ævina.
Eins og áður sagði þá setti ég mikið af myndum inn með blogginu. Við fengum afbragðs leiðsögukonu sem sýndi okkur Auschwitz og tilfinningarnar sem brutust fram hjá mér við að sjá þetta allt með berum augum, eru eiginlega ólýsanlegar. Stundum risu á mér hárin, fékk kökk í hálsinn og stundum var eins og maður gleymdi að anda.
Af þeim mörgu áhrifaríku myndum sem ég tók í þessari skoðunarferð og eru í blogfærslunni sem ég vísa í hér að ofan, staldraði ég við þessa þegar ég var að skoða þetta á ný og ákvað að setja hana inn í þetta blogg. Hún er tekin á hinu fræga lestarspori sem flutti gyðingana inn í Auschwitz-Birkenau búðirnar. Margir gesta þarna voru augljóslega gyðingar, sumir háaldraðir sem e.t.v. áttu nána ástvini sem létu þarna lífið. Kannski voru einhverjir þeirra sjálfir þarna, hver veit. Ég sá nokkur ellihrum gamalmenni setja blóm á tiltekna staði. Þegar ég rakst á þennan krans á lestarteinunum, þá varð mér eiginlega öllum lokið eftir þann tilfinningalega rússibana sem ég hafði upplifað þennan morgunn í Auschwitz.
Um 1,1 miljón gyðinga voru myrtir í útrýmingarbúðunum í Auschwitz, sem voru þær afkastamestu í seinni heimsstyrjöldinni. Auk þess voru mörg önnur voðaverk framin á föngum þarna, eins og t.d. hrikalegar læknisfræðilegar tilraunir á fólki.
![]() |
65 ár frá uppreisn gyðinga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | 16.4.2008 (breytt kl. 02:54) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 2
- Sl. sólarhring: 8
- Sl. viku: 32
- Frá upphafi: 946851
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 28
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Sakamál
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Skoðanakannanir
- Spaugilegt
- Stjórnmál og samfélag
- stóriðja og virkjanir
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Tónlistarspilari
Nýjustu færslurnar
- 48% grunar að Covid faraldurinn sé ásetnings gjörningur
- Gleðilega páska á flekamótum
- Bæn dagsins...
- Í tilefni af PÁSKUNUM sem að eru í dag og fjalla um UPPRISUNA: "KRISTUR ER UPPRISINN":
- Ég er upprisan og lífið
- Utanríkisráðherra fórnar framtíðinni
- Efnið, frjáls vilji og guð
- Klögumálin ganga á víxl
- Konur eru enn reiðar þrátt fyrir dóminn
- Dýrt eða ódýrt í Kópavogi?