Færsluflokkur: Bloggar

![]() |
Anelka vonast til að fara til Chelsea |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 2.1.2008 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég lenti í miklum hremmingum í Oddskarði á nýársnótt og aftur á nýársdag. Ég fór með farþega á Norðfjörð frá Reyðarfirði upp úr kl eitt á nýársnótt. Veðrið hafði verið með ágætum á fjörðunum fram eftir kvöldi, allsstaðar áramótabrennur og fínt flugeldaveður þó svolítið hafi rignt öðru hvoru. Þegar ég kom í Oddsskarðið, þá var hálka efst, sérstaklega Norðfjarðarmegin og töluverðar vindhviður, sló í 20 m. sek. en allt gekk vel.
Ég sneri við um leið og ég hafði skilað farþegunum af mér. Þegar ég kem í efstu beygjuna fyrir ofan gamla skíðaskálann í bakaleiðinni, hafði vind hert til muna og komið glærasvell og ég komst ekki lengra en í miðja beygjuna. Ég sé í baksýnisspeglinum að bíll er að nálgast og það reynist vera sjúkrabíll sem hafði verið í útkalli vegna brunans á Eskifirði um miðnættið og hafði farið með einhvern á Sjúkrahúsið á Norðfirði til öryggis, vegna hugsanlegrar reykeitrunar. Ég spurði sjúkraflutningsmennina hvort möguleiki væri þeir settu spotta í mig til að hjálpa mér þarna upp, en þeir sögðu að þeim væri það bannað, auk þess sem þeir hefðu engan spotta.
Sjúkrabíllinn hélt sína leið og ég snéri mér við í átt að bílnum mínu sem ég hafði skilið eftir í handbremsu rétt fyrir neðan. Í sama mund skellur á sterk vindhviða og ég horfi á eftir bílnum mínum fjúka afturábak út af veginum í ca. 45 gráðu stefnu út á hlið og fram af brattri vegbrúninni. Sem betur fer hafnaði bíllinn á réttum kili en hann hallaði þó töluvert. Nú voru góð ráð dýr því ég átti ekki von á því að margir yrðu þarna á ferli við þessar aðstæður og ekkert gsm samband.
Þarna stóð ég einn í myrkrinu í slagveðursroki á veginum sem varla var stætt á vegna flughálku, í nýársjakkafötunum og blankskónum. Ég fikraði mig með erfiðismunum að bílnum og klöngraðist svo fram af vegbrúninni og óð blautan snjókrapann upp að hnjám til þess að komast í skjól inn í bílnum.
Eftir örfáar mínútur birtist bíll á niðurleið. Hann keyrði löturhægt niður svellið og þegar hann var alveg að koma á móts við mig, fór ég út úr bílnum til þess að fá far með honum til Norðfjarðar. En bíllin gat ekki stöðvað hjá mér þó hann væri á vart meiri en 5 km. hraða. Hann stöðvaðist þó loks um 50 metrum neðar og ég var töluverða stund að staulast að honum í rokinu og hálkunni.
Þegar ég komst í gsm samband rúmlega kílómeter neðar, í Skuggahlíðarbrekkunni, þá hringdi ég í lögregluna á Norðfirði. Þegar ég hafði sagt þeim hvað gerst hafði spurði ég þá hvort björgunarsveitin væri nokkuð á ferðinni. Svo var ekki en lögreglumaðurinn vildu þó hringja í þá og kanna hvort möguleiki væri að bjarga bílnum af staðnum. Bjargvættur minn sem ég fékk far með skuttlaði mér á lögreglustöðina og kann ég honum bestu þakkir fyrir. Þegar ég kom þangað var björgunarsveitin að gera sig klára til þess að reyna að ná bílnum upp og þeir voru mættir um 20 mín. síðar á gríðarlega öflugum fjallabíl með spili. Með í för voru fjórir björgunarmenn, vel búnir og ég fylltist stolti af að vera Íslendingur, að eiga svona frábært fólk að, til aðstoðar fólki í nauðum. Töluverð átök voru að draga bílinn upp á spilinu en það gekk þó hratt og snuðrulaust fyrir sig. Ég spurði björgunarsveitarmennina hvort fært væri að draga bílinn upp að Oddsskarðsgöngum en þeim leist ekki á það því spottinn yrði til lítils gagns á niðurleiðinni hinumegin í hálkunni og rokinu, en vinhviðurnar voru komnar í rúmlega 30 m. á sekúndu.
Það var því ljóst að ég yrði veðurtepptur á Norðfirði þessa nótt, og brjálað að gera á Reyðarfirði og Eskifirði í leigubílabransanum. Það var því ekki um annað að ræða en að reyna að "fiska" eitthvað að gera við Egilsbúð en þar var dansleikur líkt og á Eskifirði. Norðfirðingar tóku því afar vel að fá þjónustu mína í slagveðrsrokinu og það var þó sárabót eftir hremmingarnar. Öll vinna var þó búin um fimmleitið um morguninn, þó síminn hringdi stöðugt hjá mér til kl. 7 frá Reyðarfirði. Um 7 leitið sá ég rútu Alcoa með drifi á öllum hjólum bíða eftir farþegum sínum við Nesbakka og ég ákvað að snýkja mér far með þeim yfir, í stað þess að þurfa að sofa í bílnum fram að a.mk. til hádegis, því ekki var spáð að hann lægði að ráði fyrr en þá. Þegar bílstjóri rútunnar hafði keðjað að framan, þá gekk ferðin vel yfir skarðið, en þó fann ég að rútan "slætaði" aðeins og spólaði á köflum.
Fljótlega eftir hádegi á nýársdag fékk ég Gústa svila minn til þess að fara með mér yfir á nýja jeppanum sínum til þess að ná í bílinn. Þegar við komum í skarðið sáum við að ekkert hafði verið sandað og ástandið ekki glæsilegt, flughálka, sérstaklega Norðfjarðarmegin í Blóðbrekkunni. Ég hringdi í gamlann vinnufélaga minn hjá Vegagerðinni og sagði honum hvernig ástandið væri í skarðinu og hann sagðist ætla að athuga málið. Við ákváðum þó að láta reyna á nýja jeppann og settum spotta í Passatinn. Við höfðum svolitlar áhyggjur af fólksbílum sem voru stopp í Blóðbrekkunni, því ef við misstum stjórn á bílum okkar þar, þá var ansi bratt og langt niður vinstramegin. Við spóluðum okkur upp og þetta var alveg að hafast en þegar við áttum ca. 150 m. eftir í göngin, þá komumst við ekki lengra. Oh!, þvílíkt svekkelsi, munaði svooo litlu!
Ekki var fýsilegt að skilja bílinn eftir þarna svo við ákváðum að reyna að snúa honum og koma honum niður aftur. Þegar ég bakkaði og lagði á í botn með rassgatið upp í fjall, þá byrjaði bíllinn að renna þversum niðureftir, en ég náði að snúa framendanum niður á síðustu stundu. Ég verð að viðurkenna að ég var skíthræddur á niðurleiðinni, enda var ég töluverða stund á leiðinni, þennan kílómeter eða svo.
Þegar ég var kominn í öryggið fyrir neðan Blóðbrekkubeygjuna, þá var verktaki á vegum Vegagerðarinnar mættur og var að setja undir keðjur. Ég stoppaði já honum og spurði hann hvers vegna í ósköpunum brekkurnar væru ekki svartar af sandi við aðstæður sem þessar. Þá sagði hann að ég yrði að spyrja Vegagerðina að því, þeim hefði verið tilkynnt á gamlársdag að dreifarinn á bílnum væri bilaður, en ekkert hefði verið gert í því vegna þess að ekki fékkst mannskapur til viðgerðar. Hann var mættur á staðinn til þess að skrapa yfir svellið með millitönninni en bíll frá Fáskrúðsfirði væri á leiðinni með sand. Ég sagði þá við hann að þessar brekkur væru ekki vandamál ef dreift hefði verið á þær hreinu salti í upphafi hlákunnar fyrir áramót, þá væru þær auðar en ekki með tommuþykku svelli.
Ég vann hjá Vegagerðinni frá árinu 2001, í 4 ár og sá um Oddskarð og Fagradal, og það var alltaf sama stríðið við yfirmenn mína um saltnotkunina. Salt virtist eitur í þeirra beinum og sandurinn sem við dreifðum var 10% salt. Það skal tekið fram að yfirleitt var það alveg nóg, en við vissar aðstæður og sérstaklega þegar útlit var fyrir hláku, þá vildi ég dreifa hreinu salti á verstu kaflana til þess að losna hreinlega alveg við svellið, en afar sjaldan fékk ég mínu framgengt. Frekar vildu þeir djöflast með veghefli á klakanum.
Jæja, svo ég haldi nú áfram með þessa löngu sögu, þá ákváðum við Gústi að leggja í hann aftur á eftir bílnum með millitönnina, en við það að skrapa á klakanum með henni skapast mun betra grip, þó það dugi stutt í rigningu og hláku. Í þetta sinn gekk þetta eins og í sögu, og mikið var ég feginn þegar við komumst upp í göng og gátum húkkað spottanum úr.
Fyrsta last ársins í mínum huga er minn gamli vinnuveitandi, Vegagerðin, fyrir slælega þjónustu í Oddsskarðinu, en fyrsta hrósið er klárlega björgunarsveitin á Norðfirði. Frábært fólk sem á allan stuðning þjóðarinnar skilið.
![]() |
Hálka en fært um flesta vegi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 2.1.2008 (breytt kl. 11:36) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Ég hef búið á Reyðarifrði í 18 ár og hef aldrei upplifað annað eins austanrok hér í þorpinu, eins og var í gær.
Hið árlega jólabridgemót var haldið í sal eldri borgara og þar var ég frá hádegi og fram til kl. 20. 19 pör tóku þátt í mótinu og mörg þeirra frá nærliggjandi fjörðum og ofan af Héraði. Sumir ákváðu að hinkra við að mótinu loknu, því ekkert ferðaveður var.
Nú er bara að krossleggja fingur og vona að veðrið verði skaplegt í kvöld. Sonur minn 12 ára bíður spenntur eftir að skjóta upp flugeldunum, ég held hann sé haldinn .... flugeldafíkn
Ég óska öllum nær og fjær gleðilegs árs og þakka fyrir liðið!
![]() |
Munum varla eftir öðru eins" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 31.12.2007 (breytt kl. 18:05) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Eldri maður á Reyðarfirði hringdi í son sinn í Reykjavík í dag og sagði að honum þætti leitt að eyðileggja fyrir honum áramótin, en hann vildi bara láta hann vita að hann og móðir hans hefðu ákveðið að skilja. "Fjörtíu ára eymd er nóg", sagði sá gamli.
Það þyrmir yfir soninn og hann verður alveg miður sín.
"Við þolum ekki hvort annað og ég þoli ekki einu sinni að tala um þetta. Hringdu í hana systur þína og segðu henni frá þessu svo ég þurfi þess ekki", segir faðirinn.
Sonurinn hringdi felmtri sleginn í systur sína sem einnig býr í Reykjavík og segir henni tíðindin. Systirin varð öskureið og sagði " Þau fara sko ekki að skilja á gamals aldri! Ég skal sko tala yfir hausamótunum á þeim!", og hringir með það sama í gömlu hjónin. Hún nánast öskrar í símanum og segir "Þið skiljið sko ekki neitt!. Þið gerið ekki nokkurn skapaðan hlut þar til ég kem til ykkar! Heyriði það!? Ég hringi aftur í bróa og við verðum þarna bæði á morgunn!".
Gamli maðurinn lagði símann á og snýr sér að konu sinni. "Ok, þau verða hérna bæði á morgunn og verða þá með okkur yfir áramótin..hehe...og borga farið sjálf.
Bloggar | 30.12.2007 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
"Þeir hætta ekki fyrr en þeir drepa einhvern", sagði eldri kona í Reykjavík í upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar þegar fréttir bárust af innrás Þjóðverja í Pólland.
![]() |
Bin Laden boðar nýtt heilagt stríð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 29.12.2007 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fólk á Kúbu spaugar stundum í hálfum hljóðum um Fidel Castro og segir "Ef Castro deyr einhverntíma..." Kallinn veit auðvitað að það styttist óðum í að kallið komi og hann er eitthvað að reyna að undirbúa sitt fólk undir það. En um hvað er kosið þann 20. jan. næstkomandi? Hugsið ykkur ef sama stjórnarfyrirkomulag væri á Íslandi. VG býður til kosninga og við getum valið um Kolbrúnu Halldórs, Ögmundar, Atla Gísla...... og svo stjórnar Steingrímur J. kórnum að kosningum loknum.
Og svo er til fólk á Íslandi sem mærir Castro og stjórnarfyrirkomulagið á Kúbu!
![]() |
Castro segist hafa breyst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 29.12.2007 (breytt kl. 15:16) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Við mættum í kvöld, nokkrir félagar úr kirkjukór Reyðarfjarðar á æfingu hjá kollegum okkar í suðri - Fáskrúðsfjarðarkirkjukórnum. Þar sem ekki verður messa á gamlársdag á Reyðarfirði þá datt okkur í hug að gaman væri að renna saman við Fáskrúðsfjarðarkórinn af þessu tilefni, enda stutt að fara eftir að gatið kom í gegnum fjallið sem á milli okkar er. Vegalengdin á milli staðanna styttist úr um 50 km. í um 20 km. með tilkomu gangnanna.
Kirkjan er mjög falleg að utan sem innan.
En kirkjuloftið er frekar lítið og þetta risaorgel frá árinu 1989 tekur um helming plássins. Orgelið er helmingi stærra en sést á myndinni. Daníel Arason organisti frá Eskifirði er að fara yfir prógrammið. Takið eftir baksýnisspeglinum hægramegin, sennilega af rútu eða vörubíl, fyrir organistann til þess að fylgjast með framvindu mála við altarið
Sr. Hildur Inga Rúnarsdóttir er settur prestur í Kolfreyjustaðarprestakalli frá því í október á þessu ári í veikindaleyfi Sr. Þóreyjar Guðmundsdóttur. Þarna er hún á milli tveggja sópran söngkvenna úr báðum kirkjukórunum. Messan verður á gamlársdag kl. 17.
P.s. Sr. Hildur tónar eins og engill
Bloggar | 29.12.2007 (breytt kl. 08:42) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ég sá frétt á Visir.is þess efnis að:
"Þrjár af hverjum fjórum kærum um nauðganir sem berast til dönsku lögreglunnar eru beinlínis vafasamar. Og ein af hverjum fimm er hrein lygi. Bent Isager-Nielsen lögregluforingi í Kaupmannahöfn segir í samtali við Berlingske Tidende að lögreglan hefði haft á tilfinningunni að falskar ákærur væru yfir 10 prósent, en að það hefði komið þeim mjög á óvart að þær væru yfir 20 prósent. Í tölum lögreglunnar kemur einnig fram að í 54 prósentum tilfella hafi ekki verið um að ræða nauðganir í samræmi við þær kærur sem lagðar voru fram. Louise Skriver Rasmussen, sálfræðingur, segir að falskar nauðgunarkærur eigi sér margar orsakir. Í sumum tilfellum séu þær hróp eftir hjálp frá konum sem reyni að vekja athygli á neyðarástandi sem þær búa við. Í öðrum tilfellum geti verið um að ræða hefnd. Og í sumum tilfellum geti þetta verið skelfingarviðbrögð eftir framhjáhald eða vegna þess að ungar stúlkur koma of seint heim til sín".
Þetta kemur mér reyndar ekkert á óvart, hef haft þetta á tilfinningunni lengi. En ef maður dirfist að nefna þetta við femínista...guð hjálpi manni þá! Feministar margir hverjir vilja stinga mönnum í steininn og fleygja lyklinum bara fyrir það eitt að vera kærður.
Bloggar | 28.12.2007 (breytt kl. 15:33) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hinn sænski tenór Jussi Björling flytur þetta lag best allra að mínum dómi. Björling er mjög lýrískur tenór og takið eftir hve víbratóið er létt og "natural".
Bloggar | 28.12.2007 (breytt kl. 10:51) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Það er einkennilegt hve langan tíma hefur tekið að koma þesu máli í þann farveg sem það átti strax að fara í. Það er líka einkennilegt að ekki hafi verið til samræmdar reglur á landinu fyrir lögreglu að fara eftir. Það verður spennandi að sjá niðurstöðuna úr þessu máli og í raun bráðnauðsynlegt fyrir lækna og lögreglu að vita hvernig á að bera sig að í tilvikum sem þessum.
Ekki vissi ég að fólk sem er í haldi lögreglu vegna afbrota, verður sjálfkrafa að sjúklingum um leið og læknir mætir á staðinn. Það vekur einnig athygli mína að konan virðist vera sjúklingur margra lækna samkvæmt fréttinni.
Heiftin og bræðin í fólki sem vildi krossfesta lækninn, hjúkrunarfræðinginn og lögregluna fyrir framgöngu sína í þessu máli fannst mér frekar óhugnanleg og minnti mig á æstan múg sem vill taka lögin í sínar hendur og framkvæma refsinguna strax, án frekari rannsóknar. Og merkilegt nokk, þar hafa femínistar verið háværastir.
![]() |
Kærð fyrir þvagsýnatöku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 28.12.2007 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (26.9.): 2
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 34
- Frá upphafi: 947677
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 31
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Sakamál
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Skoðanakannanir
- Spaugilegt
- Stjórnmál og samfélag
- stóriðja og virkjanir
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Tónlistarspilari
Nýjustu færslurnar
- Það borgar sig að drepa gyðinga!
- Dauður fiskur og vondur sendiboði
- Danskar í stríði
- Ný karlmannatíska : STEFAN COOKE vor og sumar 2026
- Ólíkindatólið
- Þung gagnrýni á RÚV
- Abbas forseti Palestínu fordæmir gyðinghatur.
- Mikilvægur fundur um útlendingamál á Íslandi með Helga Magnúsi o.fl.
- Forsætisráðherra misnotaði tækifærið
- Einhverfa þríbura klukkustundum eftir bólusetningu