Færsluflokkur: Bloggar

Metnaðarfull vinnubrögð

Rúnar Kárason, leikmaður Fram, leikur væntanlega sínu... Fagleg og metnaðarfull vinnubrögð einkenna landsliðsþjálfarann í handbolta. Sendum KSÍ í "læri" hjá HSÍ.
mbl.is Val á Noregshópnum liggur fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tómt bull

Afborgun:      Vextir:     Verðbætur:  Kostnaður:   Afborgun:           

13.427           24.627        2.923          195           40.542  

  

Hér að ofan er ein lína úr einu Glitnislána sem ég tók vegna íbúðarkaupa. Vextirnir eru 4,15% og auðvitað er maður þokkalega ánægður með að greiðslubyrðin er ekki mjög mikil, en eignamyndunin er engin. Lánið hækkar. Auk þess var vaxtasamningurinn gerður til fimm ára, svo ég á ekki von á góðu eftir rúm tvö ár Crying

En það sem hefur vakið athygli mína er liðurinn "kostnaður". Á sínum tíma afþakkaði ég alla greiðsluseðla af þeim lánum sem ég borga, vegna þess að allar greiðslur fóru sjálfkrafa leið í gegnum þjónustufulltrúa minn hjá bankanum og greiðsluseðlarnir höfðu aukakostnað í för með sér. Samt er þessi kostnaður á öllum lánum hjá Glitni. Hvaða kostnað hefur það í för með sér að innheimta lánið, þegar mannshöndin kemur hvergi nærri og enginn greiðsluseðill? Allt sjálfkrafa í gegnum tölvukerfi! Húsnæðislán mín já Glitni eru þrjú (af hverju fékk ég ekki að taka bara eitt?) og borga ég 7.020 kr. í "kostnað" af þeim á ári.

 

Ég er einnig með gamalt skammtímalán hjá landsbankanum á 12.3% vöxtum. Þar eru vextir og verðbætur hærri en afborgunarupphæðin. Einhverra hluta vegna hef ég gleymt að afþakka greiðsluseðilinn frá Landsbankanum, því greiðslurnar til þeirra renna sjálfkrafa út af launareikningnum í gegnum Glitni. En viti menn, tilkynningar og greiðslugjaldið vegna lánsins er 195 kr. á mánuði! Sama gjald og ég greiði til Glitnis í pappírslausum viðskiptum.

 

Sjálfur sendi ég út rukkanir í gegnum banka til viðskiptavina minna sem eru í reikning hjá mér og hafði ég ekki rukkað sérstaklega fyrir seðilgjald. Þegar ég hóf að keyra fyrir Bechtel, bandaríska verktakafyrirtækið sem byggði álver Alcoa hér á Reyðarfirði, ákvað ég að bæta við seðilgjaldinu, því mér fannst ég gefa þeim nógu mikinn afslátt með samningi mínum við þá. Þeir virðast hafa þá reglu að borga u.þ.b mánuði eftir eindaga reiknings. Í upphafi hugsaði ég með mér að það væri skrítið að fyrirtækið væri að standa í því að borga dráttarvexti af tiltölulega litlum upphæðum. ítrekunargjald o.s.f.v. en skýringin á þessu kom auðvitað von bráðar í ljós. Þeir bara borguðu ekki seðilinn heldur millifærðu upphaflegu upphæðina beint inn á reikninginn hjá mér og spöruðu sér þannig bæði seðilgjaldið, ítrekunargjaldið og dráttarvextina! En haldið þið að þar með séu þessi gjöld ekkert borguð? Ó, jú, ÉG borga þau, bankinn dregur þessi gjöld af reikningi MÍNUM, fyrir utan dráttarvextina auðvitað (væru vísir til að reyna innheimta þá af mér líka) GetLost  Þeir eru með allt sitt á þurru.

 

Það eru tvennskonar fyrirtæki sem fara í taugarnar á mér, en það eru bankar og tryggingafélög. Olíufélögin eru eins og góðgerðastofnanir í samanburði við þau.

 

 


mbl.is Seðilgjöld heyri sögunni til
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kisa í uppskurð

Síamskötturinn okkar, hann Dúmbó fór í uppskurð í morgunn. Dúmbó er stór og stæðilegur og afskaplega hugaður þriggja ára köttur. Allir kettir í hverfinu hafa verið skíthræddir við hann fram að þessu en rétt fyrir jól byrtist nýr köttur í hverfinu og hann þurfti auðvitað eitthvað að sanna sig fyrir Dúmbó. Hann gerðist meira að segja svo frakkur að koma alveg upp að dyrum í stofuútganginum út í garð, nokkuð sem aðrir kettir hafa ekki þorað. Útkoman úr viðskiptum þeirra var að Dúmbó fékk í fyrsta skipti skrámur á sig. Hann var meira að segja haltur á vinstri framlöppinni í nokkra daga. Ekkert sá þó á honum þar og svo lagaðist hann en byrjaði svo að bólgna upp og varð aftur haltur. Við sáum þá örlítið sár á fætinum og settum á það sótthreinsandi smyrsl. Bólgan hjaðnaði og allt virtist í lagi en svo bólgnaði hann aftur...hjaðnaði...aftur. Um helgina var okkur ekkert farið að lítast á þetta og í morgunn var pantaður tími hjá dýralækninum á Egilsstöðum.

Dúmbó hefur aldrei verið hrifinn af því að fara í bíltúr og í morgunn var engin undantekning á því. Þvílíkt væl í kettinum alla leið upp á Egilsstaði. Og þetta var ekkert venjulegt mjálm! Miklu líkara gráti í hvítvoðungi, stanslaust alla leið. Og svo fór hann hrikalega úr hárum af stressi. Uppfrá var hann svo svæfður til þess að skera í sárið og hreinsa það, heljarinnar skurður og svo var saumað fyrir.. Það gekk vel en næstu 10 daga þarf hann að hafa hálskraga svo sárið fái frið til að gróa. Við kvíðum svolítið fyrir því vegna þess að hingað til hefur hann losað sig við allar hálsólar sem við höfum reynt að setja á hann. Við vonum það besta.

002

Dúmbó kominn heim og ennþá steinsofandi eftir svæfinguna. Blái liturinn er eftir sótthreinsandi vökva.

 


Mark á lokasekúndunum, "vandamálið"!

Guðjón Valur Sigurðsson er á meðal markahæstu manna Íslands. Danir skoruðu beint úr aukakasti, langt utan af velli þegar leiktíminn var útrunninn. Skotið fór yfir einn minnsta manninn á vellinum, Snorra Stein og furða ég mig á því að hann skyldi hafa verið notaður í vegginn. Var enginn stærri en hann á bekknum? Danir skoruðu einnig á lokasekúndum fyrri hálfleiks og minnkuðu forskot Íslendinga í eitt mark. Þar var að verki stórskyttan Madsen. Mörgum er einnig í fersku minni þegar sá hinn sami skoraði sigurmark Dana í tvíframlengdum leik á síðasta HM.

Þessi Madsen skoraði nokkur auðveld mörk í fyrri hálfleik leiksins í dag og þegar sett var fyrir þann leka, þá galopnaðist línan og það nýtti danska tröllið sér. Annars fannst mér þetta ágætur leikur af hálfu okkar manna í dag og ég er bara nokkuð bjartsýnn fyrir EM í Noregi. Það er augljóst að Alfreð Gísla er hárrétti maðurinn í stöðu landsliðsþjálfara. Það heyrist þegar hann les yfir sínum mönnum í leikhléunum sem tekin eru. Ólafur Stefánsson var frekar slappur í leiknum og við eigum hann bara inni í leikjum sem skipta máli.

Stundum er sagt að svona æfingaleikir skipti ekki máli, hvort við töpum eða vinnum. Ég er ósammála því, við þurfum að æfa okkur í því að vinna "alla" leiki, líkt og hið leiðinlega góða gullaldarlið Svía gerði gjarnan á sínum tíma. Þannig byggist upp sjálfstraust, sem er gulls í gildi í jöfnum leikjum. 

Áfram Ísland!


mbl.is Íslendingar töpuðu fyrir Dönum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný og fallegri götumynd

Sumir virðst ganga út frá því vísu að nýtt hús þarna spilli götumyndinni. Eins og þessir kofar geri eitthvað fyrir götumyndina! Mér sýnist það helst fara fyrir brjóstið á kommunum sem eru á móti þessu, að peningamenn muni byggja á reitnum. Margrét er reyndar ekki kommi en það veit heldur enginn neitt um það, fyrir hverju hún stendur. En hana langar að vera rekstrarráðgjafi og segja hvaða atvinnustarfsemi henti á hverjum stað.

Svandís skreytir mál sitt með myndlíkingu um perluband. Sumar perlurnar í því bandi eru snjáðar og ónýtar og sumar hafa aldrei verið smekklegar. Hún hefur ákveðið að nýju perlurnar í bandinu verði ljótir kassar. Vonandi fær hún engu um það ráðið. Svo virðist Svandís eitthvað vera ókunnug á þessu svæði því Laugavegsperlubandið hennar nær ekki að Veghúsastíg. Síðast þegar ég vissi var Veghúsastígur í Skuggahverfinu fyrir neðan Hverfisgötu, milli Klapparstígs og Vatnsstígs.


mbl.is Margrét og Svandís ósáttar við flutning húsanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáránleg vitleysa

Húsin við Laugaveg 4-6 verða tekin niður og varðveitt. Tjarnarkvartettinn lætur teyma sig á asnaeyrum í þessu máli. Það hefur löngum loðað við Samfylkinguna, að hafa ekki bein í nefinu, tekur ekki ákvarðanir fyrr en búið er að kanna hvaða áhrif það kunni að hafa á stundarvinsældir. Samfylkingin er skjálfandi og skíthrædd við háværa minnihlutahópa en það er kannski skiljanlegt í ljósi þess að tilverugrundvöllur vinstrimennskunnar í dag stendur á brauðfótum. Sjálfsöryggi hugsjónafólksins er bara ekki meira en þetta.

Ég man nú ekki hvað stendur orðrétt í lögum um húsafriðun en einhversstaðar sá ég rök fyrir friðun væru eftirtalin í fjórum liðum:  1. Aldur. 2.  Fagurfræðilegt gildi. 3. Menningarsögulegt gildi. 4 Notagildi.

Mér sýnist þessir litlu óhrjálegu kofar hafi rétt sloppið í fyrsta liðinn.


mbl.is Laugavegshúsunum bjargað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tíminn sjálfur að hægja á sér?

supernova

Scientists: Time Itself May Be Slowing Down er yfirskrift greinar á Blog.Wired.com. Þó ég sé þokkalegur í ensku, þá er nú full mikið torf og tæknimál í greininni svo ég skilji hana til fulls. Athyglisvert engu að síður og er ég viss um að Ágúst H. Bjarnason bloggvinur minn hefði gaman af að skoða þetta. Best að ég hendi þessum link inn til hans.

Myndin að ofan er mögnuð en ekki veit ég hvort hún er tölvugerð eða raunveruleg ljósmynd. (Image: Supernova 1994D, on the outskirts of galaxy NGC 4526. Credit: High-Z Supernova Search Team, HST, NASA)


Ný kolaorkuver í Bretlandi

Ég sá á Sky News í dag að Bretar eru að taka í notkunn ný kolaorkuver, þau fyrstu í yfir 20 ár. Um er að ræða nýja byltingarkennda og hátæknilega útfærslu á hreinsibúnaði sem gera kolaorkuver næstum "umhverfisvæn" og þess vegna telur Gordon Brown forsætisráðherra að þau samræmist alveg yfirlýsingu Breta í Balí, þar sem Brown sjálfur talaði í föðurlegum tón til heimsbyggðarinnar um ábyrgð stærstu iðnríkja heims í loftslagsmálum.

Í fréttakoti Sky News var viðtal við formælanda Greenpeace (auðvitað) sem fordæmdi þessi kolaorkuver (hvað annað). Ég hef ekki séð neina umfjöllun í íslenskum fjölmiðlum um málið, sem mér finnst afar merkilegt, því orka og orkuöflun hefur verið mál málanna hérlendis undanfarin misseri.


Ritstjórnarleg ábyrgð?

Sóley Tómasdóttir Ábyrgð þeirra sem blogga er engin á því sem aðrir kjósa að setja inn í athugasemdakerfið. Þeir aðilar eru blogghöfundi óviðkomandi. Hins vegar er ömurlegt að sjá ærumeiðandi athugasemdir, en þær koma yfirleitt frá nafnlausum hugleysingjum og auðvelt er fyrir eiganda blogsíðunnar að útiloka IP-tölur þessara aðila frá því að gera athugasemdir. Þeir sem eru dónalegir og skrifa undir nafni, sjá sjálfir um sína refsingu, en að sjálfsögðuá að útiloka þá frá athugasemdum ef þeir fara yfir strikið. Verst hvað það strik er á einkennilegum stöðum hjá sumum en það er þeirra mál svosem og segir oft meira um "ritskoðarann" en annað.
mbl.is Blog.is lokar hermibloggsíðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skaupið á Skjá-bíó

Áramótaskaupið er hægt að sjá á Skjá-bíó fyrir þá sem ekki tóku það upp og er ókeypis. Þegar ég horfði á það í annað sinn þá fannst mér það vinna á, svei mér þá. Alls ekki svo slæmt skaup!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband