Færsluflokkur: Bloggar

Hannes Hólmsteinn Gissurarson

Ég má til með að benda á stórgóða grein H.H.G. en slóðin er: http://hannesgi.blog.is/blog/hannesgi/entry/262953/

Klukkaður

Ég var klukaður og þá þarf ég að segja frá einhverju af mér sem hvergi kemur fram í blogginu. Verst að það er flest sem ekki þolir dagsljósið Blush Jæja, hér er þá eitthvað af hinu.

1. Ég er 189 cm

2. Ég hef búið á mörgum stöðum í Rvk. og einnig í Grindavík, Hveragerði, Stykkishólmi, Húsavík og á Reyðarfirði.

3. Ég hef komið til 20 landa og langar að bæta umtalsvert við þá tölu. S-Ameríka og Asía koma sterkt inn.

4. Ég hef sungið einsöng á tónleikum með kór og leikið stór hlutverk í tveimur leikritum en ég held að það sé leitun að manneskju með meiri sviðsskrekk en ég hef. Ég spáði alvarlega í það á frumsýningarkvöldinu í fyrra leikritinu að láta mig detta í snarbröttum kjallaratröppunum á leiðinni upp á svið og fótbrjóta mig. Í seinna leikritinu, á generalprufunni þá fékk ég svo svakalegt svitakast að það sást á aftasta bekk. Ég var sannfærður um að ég væri kominn með alvarlegan sótthita og það yrði að hætta við sýninguna. Ég nefndi það við leikstjórann en hann sagði mér að hætta þessu rugli.

5. Ég fór á fraktara þegar ég var 21 árs og var í 3 mánuði í siglingum til Noregs að ná í áburð. Fékk sýkingu í sköflungin eftir smá skeinu og var rétt búinn að missa fótinn því sýkingin fór inn í bein.

6. Ég er var hrakfallabálkur (7-9-13) Hljóp í veg fyrir bíl þegar ég var 3gja ára og marðist töluvert en spratt á fætur og hljóp heim með bílstjórann á hælunum og mamma horfði á í losti út um eldhúsglugann. Fékk fullt af dóti frá bílstjóranum nokkrum dögum seinna. Lenti aftur fyrir bíl þegar ég var 6 ára, marðist töluvert. Annar bílstjóri, ekkert dót. Brotnað á flestum útlimum einhverntíma.

7. Tala stundum uppúr svefni, ekkert talað af mér samt (held ég) Blush Mest allt samhengislaust rugl, eins og bloggið mitt Errm

8. Ég ætla í ökukennaranám eftir áramót. Fáránlega dýrt nám sem krefst þess að ég komi til Reykjavíkur ca. 20 sinnum á tveimur árum.

9. Ég er ættaður úr Reykjavík í báðar ættir og einn forfaðir minn var bóndi á bænum Reykjavík 16 hundruð og eitthvað. Annar forfaðir minn var Dannebrogsmaður úr Engey. Einnig kvíslast báðar ættir mínar til Árnessýslu og ég tilheyri m.a. Auðsholtsætt í Ölfusi og Fellskotsætt í Biskupstungum.

 

 

 

 


Veðurfréttir á stöð 2

Sem landsbyggðartútta en fyrrverandi borgarbúi, þá kemst ég ekki hjá því að taka eftir hvernig veðurfréttamenn, sérstaklega á St2 túlka veðrið fyrir okkur, ALLA landsmenn. Það virðist nefnilega oft eins og það búi bara fólk á suð-vesturhorninu, sérstaklega þegar veðrið hefur verið eins gott og undanfarnar vikur, þ.e. á suð-vesturhorninu.

Ég neita því ekki að það pirrar mig svolítið þegar talað er látlaust um hvað veðrið sé gott og ekki útlit fyrir breytingar á því, þegar fólk á norður og austurlandi verður ekkert vart við blíðuna. Það er mjög eðlilegt að fjalla um veðrið oft og mikið þegar það er svona gott, en Ísland er ekki bara Reykjavíkursvæðið og þess vegna á ekki að tala um veðrið í Reykjavík eins og það eigi við um allt landið. Reyndar hef ég einnig oft orðið var við fálæti veðurfréttamanna þegar veðrið er gott annarsstaðar á landinu. Einna verst hefur mér fundist hún Soffía á st2, hvað þetta varðar.

Ég man þegar ég flutti austur 1989, þá tók ég strax eftir þessu, hvað veðurfréttamenn voru suð-vesturhorns-lægir, en að sjálfsögðu tók ég ekkert eftir þessu þegar ég bjó í höfuðborginni.

Annað sem er bagalegt hjá mörgu veðurfréttafólki í sjónvarpi, er hvernig það stendur fyrir Íslandskortinu þannig að austurhelmingur landsins sést ekki nema stöku sinnum. Það getur varla verið mikið mál að laga þetta.

004

Smá sólarglenna gerði vart við sig á Reyðarfirði í gær. Ég flýtti mér að taka mynd af henni svo ég gæti sannað það! Joyful


Gengisfallin hugtök

Mývatn er magnaður staður. Eftir að ég flutti austur á Reyðarfjörð 1989 hafði ég komið þangað einu sinni á ævinni en á hverju ári síðan þá. Oft reyndar bara með því að keyra í gegn en þetta svæði er alltaf jafn heillandi. myvatn

Jarðfræði og líffræðileg sérstaða svæðisins á heimsvísu er óumdeild en setningin; "ómetanleg náttúra á heimsmælikvarða", er fyrir löngu gengisfallin, svo oft hefur sú setning verið misnotuð af svokölluðum náttúruverndarsinnum á undanförnum árum. Finna verður upp nýtt orð eða orðasamband fyrir staði eins og Mývatn og aðra staði sem raunverulega eru einstakir.

Mjög mikilvægt er að fylgjast náið með lífríkinu við Mývatn eftir að kísiliðjan hætti rekstri sínum og gera samanburðarrannsóknir. Silungsstofninn hefur ekki náð sér á strik ennþá en mýfluga og önnur áta í vatninu eru í mikilli framför og varp flestra andategunda er sterkt. Mér finnst samt allt of snemmt að skella skuldinni eingöngu á kísilnýtinguna úr vatninu, um þær sveiflur sem átt hafa sér stað í afkomu fugla, fiska og skordýra undanfarna áratugi, þó ég sé alls ekki að útiloka að hún hafi verið meginorsökin. Þeir vita það, sem eru í náinni snertingu við náttúruna, að það þarf ekki mannskepnuna til þegar sveiflur eru annarsvegar í lífríkinu. Hins vegar er athyglisvert, að "náttúruverndarsinnarnir" eru ekki lengi að kveða upp sinn dóm. Þar er allt á sömu bókina lært, eins og fyrri daginn.

 


mbl.is Lifnar yfir Mývatni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hve mikið er "viljandi" innflutt ?

Ég hef lengi fylgst með þróun lífríkisins í Surtsey í gegnum fjölmiðla og á eftir að láta verða af því einhvern tíma að fara út í eyna. En til þess að fá leyfi til að fara til Surtseyjar, þarf maður skriflegt leyfi Umhverfisstofnunar til þess. Föt og annar búnaður sem fólk hefur meðferðis þarf að sótthreinsast svo ekki berist í eyna fræ jurta eftir öðrum leiðum en þeim náttúrulegu.

Þess vegna fannst mér undarlegt þegar ég las í Lesbók Morgunnblaðsins fyrir nokkrum árum síðan viðtal við mann (sem ég man því miður ekki hvað hét) og sá maður sem þótti a.m.k. nógu merkilegur til þess að fá opnuviðtal við sig, hreykti sér af því að hafa borið í Surtsey nokkrar tegundir plantna sem virtust ætla að pluma sig ágætlega. FjoruarfiÉg hringdi í Sturla Friðriksson á þessum tíma, hneykslaður mjög á framferði mannsins og spurði hann út í þetta, þ.e. hvort þetta væri ekki bannað en Sturla vildi sem minnst með þetta gera og áður en ég vissi af var símtalið gufað upp og mér leið eins og ég hefði hlaupið á mig.

Surtsey var friðuð strax árið 1965. Friðlýsingin byggir meðal annars á því að öll eldstöðin hefur hátt vísinda- og náttúruverndargildi á íslenskan og alþjóðlegan mælikvarða. Í lögum Surtseyjarfélagsins segir svo í 3. gr.: Óheimilt er að flytja í eyna lifandi dýr, plöntur, fræ eða plöntuhluta og aðrar lífverur. Jafnframt er óheimilt að flytja í eyna jarðefni og jarðveg.

db_surtsey_04b

Þess má geta að Steingrímur Hermannson fyrrv. forsætisráðherra er formaður stjórnar Surtseyjarfélagsins.


mbl.is Nýjar jurtir finnast í Surtsey
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lieutenant John E. Bradbury

Lieutenant John E. Bradbury var ekki nema 21 árs gamall. Hann var bráðþroska og harðger og tók ábyrgð sína sem lieutenant í konunglega breska hernum alvarlega. Foreldrar hans heima í Englandi treystu syni sínum fullkomlega og voru í raun fegin að drengurinn þeirra var ekki á vígvelli einhvers staðar, heldur í skjóli austfirskra fjalla norður undir heimsskautsbaug í tiltölulega öruggri fjarlægð frá stríðstólum nasista.

Reyðarfjörður, en þar var J. E. Bradbury staðsettur veturinn 1941-42, var þriðja stærsta herstöð Breta í landinu á stríðsárunum, á eftir Reykjavík og Akureyri. Hátt í 3 þús. hermenn bjuggu í braggahverfum í og við þorpið Búðareyri, sem Reyðarfjörður hét þá. Íbúarnir voru ekki nema um 350.

Það var lítið við að vera fyrir tápmikla erlenda dáta á Reyðarfirði á þessum tíma og voru æfingar tengdar vopnaburði og einnig líkams og agaæfingar taldar til dægrastyttingar frekar en hitt. Þó höfðu margir Bretar persónuleg samskipti við íbúana og mörg heimili drýgðu tekjurnar með þvottum af setuliðsmönnum.

Norðmenn og Kanadamenn höfðu fasta viðveru með flugsveitir sínar á Reyðarfirði lengi vel og einn af flugmönnum norskrar sveitar á Reyðarfirði um tíma átti kærustu í Reykjavík sem hann kynntist þegar flugsveit hans hafði bækistöð í Skerjafirðinum. Þessi ungi og myndarlegi norski flugmaður hét Oswald Heggeseth og kærastan hans varð síðar eiginkona hans, Frú Geirlaug Heggeseth og flutti hún með eiginmanni sínum til Noregs að stríðinu loknu. Geirlaug (Einarsdóttir) Heggeseth er föðursystir undirritaðs og lifir hún mann sinn í hárri elli ásamt stórum ættboga í Noregi. 

 Þegar Ameríkaninn tók við hersetunni síðar þá breyttist samskiptamunstrið milli heimamanna og setuliðsmanna á Reyðarfirði og víðar að vissu marki. Kaninn var meira sjálfum sér nægur, aðbúnaður og aðföng öll voru ríkulegri og fjarlægð þjóðarsálar Íslendinga og Bandaríkjamanna fyrir miðja síðustu öld var e.t.v.  meiri en á milli Íslendinga og Breta. Samskiptin urðu ekki eins persónuleg. E.t.v. hefur ekkert breyst, yfirborðskennt en alúðlegt viðmót Kanans á móti kaldranalegu, tortryggnisviðmóti okkar Evrópumanna.

Örlagadagurinn 20. janúar 1942 rann upp bjartur og fagur miðað við árstíma. Þó voru blikur á lofti og þegar Íslendingur einn heyrði deginum áður að meiningin væri að fara með 60 manna herflokk í göngutúr til Eskifjarðar, upp Svínadal frá Reyðarfirði og um Hrævarskörð, þá varaði hann yfirmann herflokksins við og sagði að allra veðra væri von og hermennirnir ungu væru ekki rétt útbúnir fyrir íslenskar heiðar í vetrarham. Ekki var hlustað á þessi varnaðarorð og lagt af stað í birtingu. Leiðin er um 10 km löng ef farið er um Hrævarskörð, en þau eru brött og reyndist ísing í þeim það mikil að herflokkurinn varð frá að hverfa. En í stað þess að snúa heim á leið og hætta við förina þá var tekin sú örlagaríka ákvörðun að halda áfram upp Svínadal í átt til Héraðs og um Tungudal sem liggur til Eskifjarðar. Þessi leið er um 5 km lengri en upphaflega leiðin og um þunga heiðarmóa að fara.

 "Dagurinn er stuttur á Íslandi í janúar. Þegar búið var að ganga snarbratta urðina upp á Eskifjarðarheiði voru flestir orðnir uppgefnir, skollið á myrkur og foráttuvatnsveður með roki. Þarna hefjast þrautir þessara manna fyrir alvöru, engir vegvísar eða götuslóðar, ótal lækir og sívaxandi ársprænur, en samt komst hópurinn yfir heiðina".(Saga Reyðarfjarðar 1883-2003, bls. 262-63, Guðm. Magnússon.)

Að lokum er svo komið að ár eru orðnar illfærar, orðnar grýttar og straumharðar. Þar fótbrotnar Bradbury hinn ungi lieutenant. Þrátt fyrir meiðsli sín tekst honum þó að skreiðast aðeins lengra, að Ytri Steinsá. Þar er hlúð að honum, en hópurinn heldur áfram og nú verður hver og einn að bjarga sér út  dalinn í átt til Eskifjarðar.

Á bænum næst heiðinni, í Vesturhúsum,  átti engin von á þeim ósköpum sem um það bil voru að dynja yfir. 002Páll Magnússon, bóndi í Vesturhúsum var nýkominn heim, dauðþreyttur eftir viku törn við kolavinnu á Eskifirði, en einhverra hluta vegna vaknaði hann nýsofnaður, sennileg til að gæta útihúsanna í óveðrinu. En hver svo sem ástæðan var að Páll Magnússon reis úr rekkju nýsofnaður, þá varð það til þess að fjölda kornungra hermanna úr konunglega breska hernum var bjargað á síðustu stundu, en því miður barst björgunin of seint fyrir 8 unga menn úr þessum 60 manna flokki. Á myndinni hér til hægri eru bræðurnir frá Vesturhúsum, þeir Páll og Magnús Pálssynir.

 Á heimatúninu fyrir framan bæinn fann Páll fyrsta hermanninn skríðandi og ósjálfbjarga. Í framhaldi þeirrar gæfu hermannsins að Páll fann hann, hófst nótt, sem enn er martröð í endurminningunni. Alla nóttina dröslaðist heimafólkið með uppgefna, klæðalitla og ruglaða menn í húsaskjól í litla kotið í Vesturhúsum. Olíuluktir voru settar í glugga til að vísa mönnum veginn og þegar Páll labaði út í regnið og myrkrið með ljóstýruna sína, þá fannst honum hann heyra hróp og angistarköll úr öllum áttum. Ljósin í gluggunum vísuðu mörgum veginn í átt að húsinu, en sumir komust aðeins í túnfótinn, þá var þrekið búið.

Þegar birta tók af degi kom lið utan af Eskifirði til leitar. Þá fannst John E. Bradbury sitjandi uppi við, örendur við sakleysislegan læk, aðeins nokkur hundruð metrum frá öruggu skjóli í Vesturhúsum. Félagar hans báru vitni um að hann hefði kvatt félaga sína til dáða fram á síðustu stundu.

043

Ég var að skoða kirkjugarðinn á melnum í blíðviðrinu í fyrrardag og þegar ég horfði yfir 9 leiði þeirra bresku pilta sem þar hvíla í snyrtilegri röð, fór ég að velta fyrir mér örlögum þeirra.

056

Leiðin eru alls 9 en 8 Englendingar dóu á Eskifjarðarheiði aðfararnótt 21. janúar 1942. 9. leiðið er Kanadamaður sem varð fyrir voðaskoti á Reyðarfirði. Yngsta fórnarlamb þessa hörmulega atburðar var John E. Bradbury, Lieutenantinn ungi sem getið er í upphafi en hann er talinn hafa bjargað lífi einhverra félaga sinna með dugnaði og kjarki, en reyndist svo í blálokin þrotinn að kröftum. Félagar John Bradbury voru flestir ungir að árum, 22ja - 23ja ára, sá elsti 32 ára.

054

Foreldrar John E. Bradbury hafa látið letra eftirmæli á legstein hans. Þau einu sem það hafa gert.


Sir Paul

sirPaulSir Paul McCartney vill að allir verði grænmetisætur svo hlýnun jarðar stöðvist. Gaur með patentlausnir á hreinu.

Mér finnst það voða krúttlegt þegar fólk tekur upp á allskonar sérvisku, fyrir sjálft sig. Ég á það meira að segja til sjálfur, en hef ekki fengið þessa knýjandi þörf að þurfa að breiða út fagnaðarerindið. Sumir á þeirri braut enda oft sem fagnaðarerindið sjálfir.

En það er þessi vissa sumra í hjarta sínu að VITA hvað öðrum er fyrir bestu og um leið að það sé best fyrir heildina, sem ég get ekki annað en haft efasemdir um. Það er hrokafull afstaða til lífsins og tillitsleysi gagnvart náunganum að ætla sér að segja honum hvað hann á að hugsa og gera. Sjálfskipaður Besser visser sem finnur eitthvað sem smell passar honum ætlar ekki að linna látum fyrr en hann fær meirihluta fólks með sér, til að gera eins og hann vill sjálfur. Ein birtingamynd forræðishyggjunnar.


mbl.is Bítill leysir gróðurhúsavandann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjarðabyggð tapaði í bikarnum

Ég sá ásamt Jökli, tæplega 12 ára gömlum syni mínum, síðasta hálftíma leiks Fjarðabyggðar og Fjölnis á Eskifjarðarvelli í 16 liða úrslitum bikarkeppninnar. Leikurinn tapaðist hjá okkar mönnum 3-4.

kff

 Þegar við feðgar komum til leiks var staðan nýlega orðin 2-3 eftir að Fjarðabyggð hafði minnkað forskot Fjölnismanna úr stöðunni 1-3. Heimamenn virtust sprækir en fengu svo á sig klaufamark sem skrifast á markvörðinn að mínu mati. Eftir fyrirgjöf frá hægri kanti Fjölnismanna, reyndi markvörður Fjarðabyggðar að slá boltan út úr teignum en farnaðist það verk afar illa úr hendi og boltinn datt fyrir fætur sóknarmanns Fjölnis sem þakkaði pent fyrir sig og skoraði í markvarðarlaust markið og staðan orðin 2-4. Þessi annars ágæti markvörður sem að mér skilst er serbneskur, gerir fullmikið af því að reyna að kýla boltann frá marki og mætti þess í stað grípa knöttinn oftar. Hins vegar hef ég líka séð hann gera vel í því að kýla frá og tel þetta fyrirtaks markmann, nema að þetta væri þá e.t.v. veikleiki hans, þ.e. fyrirgjafir.

Fjarðabyggð lét þó ekki markið alveg slá sig út af laginu og tókst að minnka muninn að nýju eftir laglega sókn. Jöfnunarmark virtist liggja í loftinu en Fjölnismenn voru þó hættulegir í skyndisóknum sínum og úr einni slíkri áttu þeir hörkuskot í slá. Að lokum rann leiktíminn út og Fjölnismenn fögnuðu naumum sigri.

 


mbl.is Valur vann KR í vítaspyrnukeppni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norðfjarðargöngum flýtt

Fagnaðarefni fyrir Fjarðabyggðabúa því þetta þýðir að Norðfjarðargöng komast nokkrum mánuðum fyrr í gagnið. Fyrirhugað var að hefja framkvæmdir haustið 2009. Vonandi að vegurinn yfir Hólmaháls verði þó lagaður fyrst. kr-möll
mbl.is Samgönguráðherra: fjármagn flutt til sem var þegar á samgönguáætlun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhverfis-Ayatollar

Ef efasemdarmennirnir hafa rétt fyrir sér í því að mannskepnan beri ekki ábyrgð á nema 5% hinnar hnattrænu hlýnunar, hitt séu eðlilegar sveiflur m.a. vegna "solar activity", þá erum við að tala um að bröltið okkar mannanna skapi hlýnun upp á 1/20 úr gráðu. Náttúrulegar hitasveiflur á jörðinni hafa verið upp á heilar 15 gráður eins og nýlegur ískjarni frá Suðurskautinu hefur sannað. ( SJÁ HÉR ) Svo eru það veðuröfgarnar í hina áttina, kuldaköstin, hverjum eru þau um að kenna? Gróðurhúsaáhrifunum líka? E.t.v. allt sem miður fer í hinum hnattræna heimi?

Það er svolítið athyglisvert hvernig vinstri menn og konur hafa flykkst utan um umhverfismálstaðinn eftir að járntjaldið féll og hanga svo á því náðarstrái "No matter What!". "Öreigar allra landa sameinumst í að klæða andúð okkar á kapítalismanum, grænum búningi!".  En svo eru auðvitað undantekningin sem sannar regluna; Ómar Ragnarsson, sem ekki vill láta kalla sig vinstri mann.

En svo maður horfi jákvætt á sviðið, þá hefur stöðugt aðhald og eftirlit, heilbrigðisstaðlar o.þ.u.l., tryggt okkur sæmilega öruggt umhverfi. Það þarf að gæta þess að sem flest sjónarmið fái notið sín en jafnframt að gæta þess að bull og staðreyndavitleysur yfirgnæfi ekki skynsemisraddir.

Hugmyndina að titli bloggfærslunnar fékk ég hjá Jóhanni Elíassyni,  ....." gott nafnið sem Jón Sveinssson æðarbóndi á Miðhúsum við Breiðafjörð gaf bókstafs-umhverfissinnum, en hann kallaði þá "Umhverfis-Ayatolla".

Grin


mbl.is Fimbulkuldi í Suður-Ameríku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband