Færsluflokkur: Bloggar

Er Ómar að "floppa"?

Framboð Ómars Ragnarssonar og félaga í Íslandshreyfingunni ætlar að verða íslensku þjóðinni nokkuð kostnaðarsamt ef fram heldur sem horfir, þrátt fyrir tal þeirra um að þeir hafi ekki aðgang að opinberum sjóðum fyrir framboð sitt. Í fyrstu umræðum formanna flokkanna á omardögunum lofaði Ómar því að hækka skattleysismörk í 150 þúsund krónur á mánuði og afnema tekjutengingar. Það eru breytingar upp á um hundrað milljarða króna.

Ómar er þó ekki hættur. Síðast bar hann niður í umræðum RÚV á Ísafirði og talaði um að byggja ætti alþjóðaflugvöll á Vestfjörðum sem yrði opinn allan sólarhringinn. Þegar hann var inntur eftir tölum um kostnaðinn af slíkri framkvæmd, kvaðst Ómar að vísu ekki hafa tekið það saman.

Ýmsar aðrar stórskemmtilegar hugmyndir Ómars hafa skotið upp kollinum, eins og Alþjóðlegt Maraþon "hlaup" eftir aðrenslisgöngum Kárahjúkavirkjunar ef hætt hefði verið við að klára virkjunina á síðustu stundu, selja nafnspjöld á veggi stíflanna o.m.fl. Þetta hljómar einhvernveginn öðruvísi þegar skemmtikraftur segir þetta en alvöru stjórnmálamaður. En ég sem hægrimaður ætti kannski bara að fagna þessu framboði. Það virðist taka mest frá vinstri kantinum.

 

 


Gleðilegt sumar!

Blogg2 001

Vetur og sumar frusu saman í nótt á Reyðarfirði sem víða annarsstaðar á landinu. Það boðar víst gott sumar. Þessa mynd tók ég út um svefnherbergisglugga í morgunn á Melgerði 7 og horft er yfir til 9-11 og 13. Einungis 1. hæð af 7 er risin í Melgerði 11. Fallegt gluggaveður, en skelfilega svalt Sick

Kosningaskrifstofur Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð opna á þremur stöðum í dag, á Norðfirði kl. 15.00 að Hafnarbraut 17, á Eskifirði kl.17.00 að Strandgötu 14b og á Reyðarfirði kl. 20.30 í gamla Lykilshúsinu á 2. hæð. Á morgunn opnar skrifstofa á Fáskrúðsfirði kl. 18.00 að Hafnargötu 38 í húsi Byggt&flutt.


Evrópumet í launamun kynja?

 

Lilja Mósesdóttir hélt erindi á fundi kvennasamtaka 17. apríl sl. sem RÚV greindi frá undir yfirskriftinni "Evrópumet í launamun". Lilja, sem er fyrrverandi hagfræðingur ASÍ, heldur því framLiljaM að launamunur kynjanna hér á landi sé 28% en að meðaltali 15% í löndum ESB. Þetta telur Lilja m.a. stafa af auknum ójöfnuði í samfélaginu, þó sýnt hafi verið fram á með rannsóknum Hagstofunnar að ójöfnuður sé minnstur hér á landi af öllum löndum Evrópu. Samkvæmt könnun félagsmálaráðuneytisins síðan í vetur er óútskýrður launamunur kynjanna 16%, ekki 28% eins og haldið er fram. Sá munur er vissulega of mikill en hvers vegna að draga upp falska mynd af ástandinu? Hvaða hagsmunum þjónar það?

Mér finnst afar fróðlegt að lesa pistla Hannesar Hómsteins Gissurarsonar (HÉR) Hann hefur átt í ritdeilum við Stefán Ólafsson prófessors um aukin ójöfnuð í þjóðfélaginu og ég hvet alla til að lesa pistla Hannesar.

medallifeyristekjur
Þetta graf tók ég tröllataki af bloggsíðu Hannesar. "...samkvæmt nýrri skýrslu tölfræðinefndar Norðurlanda, Nososco, Social tryghed i de nordiske lande 2004, reyndust lífeyristekjur íslenskra lífeyrisþega að meðaltali hæstar á Norðurlöndum árið 2004. Þetta sést á 1. mynd".
lagtekjumorkaldradra
"Margir aldraðir Íslendingar eru vissulega ekki ofsælir af sínum kjörum. En kjör þeirra eru betri og hafa batnað hraðar en í flestum eða öllum löndum heims. Samkvæmt nýrri skýrslu  Evrópusambandsins um fátækt, Poverty and Social Exclusion, var hlutfall aldraðra, 65 ára og eldri, við eða undir fátæktarmörkum (risk of poverty) næstlægst á Íslandi allra Evrópuríkja, 10%, og aðeins lægra í Lúxemborg. Þetta hlutfall var hærra annars staðar á Norðurlöndum, 11% í Svíþjóð, 18% í Finnlandi og Danmörku og 19% í Noregi, eins og sést á 2. mynd. Því má ekki gleyma, að þetta eru tölur frá 2004. Aldraðir hafa fengið miklar kjarabætur síðan, jafnt frá einstökum lífeyrissjóðum og Tryggingastofnun". (tivitnun í pistil Hannesar Nýjar talnabrellur Stefáns Ólafssonar)

 


Land hinna hugrökku

Hvar nema í Bandaríkjum Norður Ameríku viðgengst svona vitleysa? Annars líkar mér vel við Bandaríkjamenn og þeirra bjartsýni og hressileika sem getur verið hressandi svona á köflum. Ég get hins vegar vel skilið skotvopnaáhugamenn, en það er annar handleggur.

haglabyssa
Beretta, yfir undir tvíhleypa. Hún kostar á netinu 122.000 kr.
byssa
 
Brasilísk Taurus .500 Magnum. Kostar rúml. 60.000 kr.

Sá sem ekki kann að meta fegurð fallegrar byssu er að fara á mis við mjög sérstaka tegund listar. Stórkostlegt land Bandaríkin, sem dauðarefsingar og lítt heft skotvopnaeign settur ljótan blett á.

 


mbl.is Lög um skotvopnaeign í Virginíu ein þau vægustu í Bandaríkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitthvað neyðarlegt

Allir eiga sín "moment" í neyðarlegum atvikum. Einn kunningi minn sagði mér frá fyrir mörgum árum að skyndilegt Te-æði hefði gripið um sig á vinnustað hans. Honum fannst það fínt en þó fylgdi böggull skammrifi. Honum þótti nefnilega sóðaskapurinn í kring um tepokana hvimleiður, þar til einn kunningja hans benti honum á einfalda lausn á því vandamáli. Hún var sú að taka tepokann í teskeiðina og vefja spottanum úr teinu utan um pokan og vinda þannig úr honum í bollann. Að því búnu gæti tepokinn legið snyrtilega á undirskálinni, úrvinda. Næst þegar vinurinn mætti í te á kaffistofunni, gat hann varla beðið eftir að sýna nýja trikkið sitt. Þegar heita vatnið hafði lokið sér af við að gera teið klárt, tók hann tepokann í skeiðina og vatt hann með spottanum.... beint ofan í undirskálina!! Þegar hann hafði lokið því, leit hann hróðugur í kringum sig. Þegar hann sá engin sérstök viðbrögð við nýja trikkinu sínu, þá leit hann yfir afrek sitt og sá undirskálina útbíjaða með tepokann liggjandi í miðjum subbuskapnum. Hann reyndi í felmtri sínu þegar hann sá hvað hann hafði gert, að hylja verk sitt en hann sá á svipbrigðum vinnufélagana að sú tilraun var tilgangslaus með öllu.

Ég hef átt nokkur móment. Þegar gsm- símarnir voru að ryðja sér til rúms, var ég, tækjaóði kallinn að sjálfsögðu einn af þeim fyrstu til að fá mér einn slíkan. Fljótlega eftir að ég fékk símann, var ég staddur í Reykjavík og hafði íbúð móður minnar til afnota. Ég hafði eitthvað verið að útrétta og það var komið föstudagskvöld og ég var búinn að láta nokkra kunningja vita af nýja "hreyfanlega" númerinu. Ég fer í langa heita sturtu þegar ég kem heim og þegar henni er lokið þá ætla ég að athuga hvort ég sjái einhver "missed calls", en þá finn ég ekki símann. Þá dettur mér það snjallræði í hug að ef einhver hringdi í símann þá yrði ég nú fljótur að finna hann. Svo hróðugur tek ég upp heimilissímann og hringi í hann Birgi vin minn og bið hann að hringja í símanúmerið sem ég hafði gefið honum upp á nýja gsm-símanum mínum, ég væri nefnilega búinn að týna símanum. ...... Smá þögn á hinum enda línunnar... svo segir Birgir "En afhverju hringirðu ekki bara sjálfur í hann?".

Það þarf ekki að taka það fram að ég varð frekar kindarlegur í framan.


Sameiningardraumar

Pétur bloggvinur minn Tyrfingsson skrifar um sameiningardrauma vinstrimanna. Hann var meira að segja kominn með nafn á fyrstu drög að samvinnu; Pönnukökubandalagið. Hægt er að lesa þessa drauma á bloggsíðu Péturs  HÉR

Sameiningartilraun vinstrimanna með stofnun Samfylkingarinnar átti að vera fyrirsjáanleg. Hver höndinn upp á móti annari og hver rétttrúnaðarsilkihúfan af annari að bíða eftir að hin beygði sig og bugtaði fyrir sér. Tilverugrundvöllur vinstrimanna er stöðugt að skreppa saman. Ástæðan er m.a. sú að farið hefur verið eftir tillögum hægrimanna í efnahagsstjórn á Íslandi og nokkrum öðrum löndum og árangurinn hefur ekki getað dulist nokkrum manni. Það íroníska er að tillögur vinstrimanna, hinna sjálfskipuðu verndara hags hinna vinnandi stétta, gengu út á andstæðu tillagna Sjálfstæðismanna, þ.e. að lækka ekki skatta á fyrirtæki og fjármagn og að selja ekki ríkisfyrirtæki. Hvort tveggja sér fólk í dag að er einstaklingum, fyrirtækjum og Ríkissjóði til mikilla hagsbóta. Vissulega verða einhverjir ógeðslega ríkir, en er það svo voðalegt? Það, í sjálfu sér er atvinnuskapandi, slúðurblaðamennirnir hafa eitthvað að skrifa um.


Reyðarfjörður, hvernig hefurðu það?

15. mars árið 2003 var hátíðisdagur á Reyðarfirði og þá var bökuð stærsta kaka Íslandssögunnar. Tilefnið var að Alcoa álfyrirtækið bandaríska skrifaði undir samning um byggingu 340 þús. tonna álvers og raforkukaup frá Kárahnjúkum. Samningarnir voru undirritaðir í íþróttasal Grunnskóla Reyðarfjarðar að viðstöddu fjölmenni. Vonbrigði Austfirðinga höfðu orðið mikil aðeins örfáum mánuðum áður þegar Norsk Hydro hætti við byggingu um fjórðungi stærra álvers á sama stað. Það sýndi okkur að ekki er sjálfgefið að slíkir fjárfestar komi hingað þegar okkur hentar. V-grænir fögnuðu því að Norsk Hydro hætti við en margir hér á Mið-Austurlandi voru í sárum og hugsuðu sér til hreyfings brott af svæðinu.

Þegar ég flutti til Reyðarfjarðar árið 1989 bjuggu þar um 720 manns. 14 árum síðar hafði íbúunum fækkað um 15%, voru komnir niður í um 620. Frá því snemma á áttunda áratugnum höfðu verið áform um einhverskonar stóriðju á Reyðarfirði og í Iðnaðarráðherratíð Hjörleifs Guttormssonar beitti hann sér fyrir því að ráðist yrði í gerð Fljótsdalsvirkjunar með uppistöðulóni á Eyjabökkum til orkuöflunar fyrir slíkan atvinnurekstur og uppbyggingu. Allir vita hvernig hann hefur andskotast gegn öllu slíkum áformum síðan hann hætti að bera pólitíska ábyrgð (ef hann hefur þá nokkurntíma haft slíka byrði að bera). Hjörleifur hefur kært allt sem hægt er að kæra varðandi Kárahnjúkavirkjun og starfsleyfi Alcoa í Reyðarfirði, til að tefja fyrir þessum framkvæmdum.

Eins og alþjóð veit höfðu heyrst (og heyrast enn) háværar raddir, aðallega úr hópi V-grænna um að þetta hafi allt verið tóm vitleysa. Það átti að vera bullandi tap á virkjuninni, framkvæmdin myndi skila litlu í byggðalegu sjónarmiði, fáir Íslendingar fengjust til að vinna á eins einhæfum vinnustað og álver væri og að þetta yrði bara "einhverskonar verksmiðju gettó" eins og einhver þeirra orðaði það svo smekklega, en að vísu færi allt á "full swing" við uppbygginguna, en svo yrði allur vindur úr þessu. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að tímabundin þensla og uppbygging sé af hinu góða fyrir fólk og fyrirtæki á svæðinu og í raun vanmetið hver langtímaáhrif af slíku er. Þeir sem geta nýtt sér slíkt ástand til að styrkja fyrirtæki sín og koma þeim á réttan kjöl eftir áralangan barning njóta góðs af þessu varanlega. Þetta á við um alla, einyrkja jafnt sem stærri fyrirtæki. 

Um daginn var Halldór Halldórson bæjarstjóri Ísfirðinga og formaður Sambands íslenskra Sveitarfélaga í viðtali hjá Ingu Lind í Íslandi í Dag á St2. Halldór sagði m.a. að árið 2003 þegar bylgja mótmæla gekk yfir vegna Kárahnjúka og álvers í Reyðarfirði þá kallaði hann eftir þeim hugmyndum og tækifærum sem virkjunarandstæðingar sögðust sjá í atvinnusköpun á austfjörðum annari en í stóriðju. Náttúruverndarsinnar fullyrtu það að þeir gætu skapað 700 störf ef það yrði hætt við virkjun og álver á Reyðarfirði. ( Störfin eru reyndar um 930 í beinum tengslum við álverið auk fjölmargra afleiddra óbeinna starfa) Viðbrögðin við ákalli Halldórs voru mjög góð. Yfir 50 manns hringdu vestur. Þá spurði Inga Lind " en hefur eitthvað gerst?"...örstutt þögn hjá Halldóri..."neiiii", svo færðist bros yfir andlit hans og hann bætti við...  "það hefur ekkert gerst. Umhverfisverndarsinnar hafa náð ágætum árangri í að mótmæla. En þeir hafa ekki náð neinum árangri í öðru. Þetta fólk sem mótmælti fyrir austan, það kom ekkert vestur með nein úrræði í atvinnusköpun þar".

Stundum heyrir maður að verið sé að einblína á stóriðju, að fólk sjái ekkert annað. Eins og hér hafi ekki verið reynt eitt né neitt og hér hafi fólk bara beðið eftir álveri sitjandi með hendur í skauti. Þetta er auðvitað fjarri lagi og að halda slíku fram er ekkert nema sár móðgun við það fólk sem lagt hefur allt undir í viðleitni sinni til atvinnusköpunar og farið jafnvel illa út úr því. Tækifærin eru ekki þau sömu á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu. Fyrst og fremst veldur því smæð markaðar, bara það takmarkar möguleikana. Vissulega eru alltaf einhver tækifæri fyrir snjalla frumkvöðla, en þegar fólksfækkunarskriðan fer af stað þá hefur oft reynst erfitt að stöðva hana.

Þessi 14 ár sem liðu frá því ég flutti á Reyðarfjörð og þar til skrifað var undir samningana við Alcoa, er hægt að telja þau íbúðarhús sem byggð voru, á fingrum annarar handar. Það sama er hægt að segja um þá staði sem næst liggja Reyðarfirði, Eskifjörð og Fáskrúðsfjörð. Á þessum stöðum hefur orðið gjörbylting hvað þetta varðar og einnig á Egilsstöðum sem þó er í 38 km fjarlægð frá álverinu. Neskaupsstaður er í um 34 km fjarlægð frá álverinu en ekki hefur áhrifanna gætt í eins miklum mæli þar enda er yfir erfiðan fjallveg að fara að vetrarlagi sem Oddsskarð er. En það stendur til bóta með nýrri vegaáætlun og áætlað er að hefja framkvæmdir við Norðfjarðargöng árið 2009. Gerð hinna 6 km löngu Fáskrúðsfjarðarganga sem tengir framkvæmdasvæðið við byggðirnar í suðri var einnig gríðarleg bylting frá byggðarlegu sjónarmiði séð. Sú vegafjárfesting margfaldaðist að verðmæti við byggingu álversins. Reyndar efast ég um að farið hefði verið í þá framkvæmd ef þessar stóriðjuframkvæmdir hefðu verið slegnar út af borðinu. 

Ég læt hér fylgja nokkrar myndir frá Reyðarfirði sem ég tók í dag, sem sýna þá uppbyggingu sem orðið hefur síðan álverssamningarnir voru undirritaðir. Því miður er nú frekar kuldalegt um að litast eftir hitabylgjuna um daginn, en veðrið var samt fínt í dag.   

Blogg 002

Þrjár 7 hæða blokkir byggðar og flutt inn í allar. Flutt var inn í þessa lengst til vinstri í júní 2005, lengst til hægri er blokk fyrir 50 ára og eldri og gefur eldra fólki kærkomið tækifæri að minnka við sig. Ágæt aðstaða er fyrir starfsemi "Eldri borgara" á Reyðarfirði á 2. hæð. Húsið var tilbúið í nóv. 2006. Þessi í miðjunni var tilbúin í jan. 2007. Bygging fjórðu blokkarinnar er hafin og er hún á milli þessara tveggja hægra megin.

Blogg 003

Þarna er starfsmannaþorp Bechtel, bandaríska verktakans sem byggir álverið fyrir Alcoa. Þorpið er um 1 km fyrir utan Reyðarfjörð og þar búa rúmlega 1.500 manns. Um  90% þeirra eru útlendingar, og þar af tæplega 1000 Pólverjar. Samlífið hefur gengið afar vel og engir félagslegir árekstrar orðið enda er agi mikill þarna og brot á reglum er brottrekstrarsök.

Blogg 005

Ný viðbygging við íþróttahús Grunnskólans. Iceland Spa And Fitness er með útibú þarna. Það þarf varla að taka það fram að engin slík þjónusta var á Reyðarfirði fyrir framkvæmdirnar. Fyrirtækið er einnig með útibú í nýju sundlauginni á Eskifirði (sem að sjálfsögðu hefði ekki risið nema vegna framkvæmdanna)

Blogg 006

Nýja álma Grunnskóla Reyðarfjarðar. Rými skólans stækkaði úr 1.150 ferm. í rúml. 3.000 ferm. Í nýju álmunni er glæsilegur fjölnota salur með sviði og hátalarakerfi. Salurinn nýtist einnig sem matsalur fyrir nemendur og starfsfólk skólans og fyrir ýmsa félagslega starfsemi, s.s. hátíðarsamkomur, skólaslit o.fl. Salinn er einnig hægt að fá leigðan fyrir ráðstefnuhald o.þ.h. Bókasafn bæjarins fékk einnig inni í þessari nýju byggingu, eftir áralanga hrakhóla. Nemendafjöldi í skólanum fór niður fyrir 100 "fyrir álver" en er í dag 151. Hér eftir verða ártöl miðuð við fyrir og eftir álver, líkt og í Eyjum, fyrir og eftir gos LoL

Blogg 007

Ný viðbygging Leikskólans Lyngholts, (gula byggingin) þar sem mottóið er "Allir geta eitthvað, enginn getur allt".

Blogg 056

"Hverfi" er eiginlega nýyrði á Reyðarfirði.

Blogg 013

Melahverfi

Blogg 051

Veit ekki hvað þetta hverfi á að heita en það er austast í bænum (Breiðamelshverfi?)

Blogg 015

Séð yfir í Stekkjarholt úr Melahverfi. Allstaðar er verið að byggja, jafnt fjölbýli raðhús og einbýli. Götumyndir sem áður voru eins og hálf tannlausir gómar hafa fengið "brýr" og göturnar brosa hringinn kinnroðalaust

Blogg 023

Iðnaðarhverfi. Allt ný hús nema fremsta til hægri. Áætlanir um byggingar iðnaðarhúsnæðis í Fjarðabyggð hafa farið langt fram úr björtustu vonum. Bjatsýnar áætlanir gerðu ráð fyrir að byggt yrði um 5000 ferm. af þjónustu og iðnaðarhúsnæði en útlit er fyrir að sú tala sé nær 15-20.000 ferm. 

Blogg 021

Nýtt útibú Íslandspósts í smíðum

Blogg 027

Molinn, nýja verslunar og þjónustumiðstöðin

Blogg 058

Ýmis fyrirtæki vilja hasla sér völl á Reyðarfirði. Hér getur að líta fyrirtæki sem sjá tækifæri í hinni nýju Fjarðabyggð

Blogg 022

Rönning

Blogg 054

Reykjafell og Heildverslunin Stjarna

Blogg 060

Hekla

Blogg 057

Byko

Blogg 059

Húsasmiðjan

Blogg 024

Gamli tíminn. Húsasmiðjan er að setja upp verslun þarna

Blogg 053

Húsgagnaverslunin Hólmar hefur lengi verið á Reyðarfirði. Nú hefur hún stækkað þrefalt.

Blogg 052

Og meira að segja björgunarsveitin byggir og stækkar við sig

Blogg 048

Nýja knattspyrnuhúsið, Fjarðabyggðarhöllinn norðan við blokkirnar. Alcoa lagði til 80 milj. kr. í verkið. Áætlaður kostnaður við bygginguna var 490 milj.

Blogg 030

Álver Alcoa, séð til austurs. Álverið er í um 4 km fjarlægð frá Reyðarfirði

Blogg 038

Séð til vesturs

Blogg 039

Þarna streymir útblásturinn upp frá allri verksmiðjunni. Notast er við fullkomnasta þurhreinsibúnað sem völ er á í heiminum í dag. Strompurinn er hærri en Hallgrímskirkjuturn! 78 metra hár.

Blogg 041

Þarna sjáum við menn á gólfinu í gatinu á húsinu. Þetta er engin venjuleg skemma

Blogg 042

Mjóeyrarhöfn er neðan við álverið. Fjórða stærsta höfn landsins með 400 m langan viðlegukant. Mjög aðdjúpt er þarna og staðurinn var eins og skapaður til að gera höfn.

Blogg 032

Eskifjörður, eitt af úthverfum Reyðarfjarðar LoL er í um 10 km fjarlægð frá álverinu.

Blogg 034

Oddsskarð, Austfirsku Alparnir. Skíðaparadís fyrir ofan Eskifjörð en stundum farartálmi að vetrarlagi í samgöngum til Norðfjarðar. Vegurinn liggur hæst í rúmlega 600 m. hæð. Til samanburðar er Hellisheiði hæst um 360 m.y.s.

 

 

 


Stjórnarandstöðusöngurinn tvíraddaður

Gleðilega Páska! 

Prédikun Biskups

 biskup

Þetta er stjórnarandstöðusöngurinn tvíraddaður. Biskup var á gráu svæði fannst mér þegar hann var með yfirlýsingar í fjölmiðlum um Karahnjúkaframkvæmdirnar. Mörgum sárnaði hér fyrir austan þegar hið háæruverðuga trúarsameiningartákn þjóðarinnar lagði sitt á vogarskálarnir í andstöðu við framkvæmdirnar á Austurlandi. Þá var Biskup í opinberri heimsókn á Austurlandi. Ég veit um nokkra sem sögðu sig úr þjóðkirkjunni vegna ummæla Biskups um þau málefni. Maður í þessari stöðu á ekki að misnota aðstöðu sína til að tjá sig um pólitískt dægurþras. Og hvað verður um þessa sýn hans til framfara og hagsældar ef kreppa skellu á? Atvinnuleysi? Er þá hagsæld og velsældr af hinu vonda? Og afhverju taka vinstrimenn helst undir þetta bull? Kyndilberar hagsmuna hina vinnandi stétta, að eigin sögn, því einmitt vegna þess "Að áherslan á endalausar framfarir, sívaxandi auð og velsæld", hefur leitt til þess að aldrei hefur fólk haft úr meiru að spila.

P.s. Ég var mjög ánægður með málsháttinn minn úr Páskaegginu: Sannur umbótamaður er sá sem bætir sjálfansig. (En er þetta ekki frekar spakmæli en málsháttur?)


mbl.is Áherslan á endalausar framfarir er tál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Demantur, Benz, inniskór og vaselín

Ég frétti það í dag að ágætur kunningi minn og starfsmaður Alcoa hefði verið einn þeirra sem flutti ræðu á hátíðisdegi Alcoa um daginn, þegar hleypt var rafmagni á fyrstu kerin. Viðstödd voru fjölmörg fyrirmenni, ráðherrar og þingmenn. Kunninginn sem er þekktur grallari og tónlistarmaður vildi að sjálfsögðu slá á létta strengi og lét einn flakka í lokinn:

Tveir menn tóku tal saman og fóru að spjalla um konudaginn. Annar segir; ég gaf konunni minni demantshring og Benz í í tilefni dagsins.

Benz! segir hinn, Já svarar sá fyrri, ef henni líkar ekki demanshringurinn þá fer hún bara á Benzanum og skilar honum.

Já einmitt, ég gaf minni konu inniskó og vaselín.

Vaselín! Já, ef henni líkar ekki inniskórnir þá getur hún troðið þeim uppí rassgatið á sér.

laughing


Vísindamenn á markaði

 Þeim sem tjáð hafa efasemdir sínar um að hlýnun jarðar sé af mannavöldum virðist vera að vaxa fiskur um hrygg eftir útkomu fræðslumyndarinnar The Great Global Warming Swindle Jörðin

 Þeir sem voga sér að gagnrýna niðurstöður vísindamanna, eru hrópaðir niður og þeir jafnvel sagðir ganga erinda annarlegra hagsmuna. Davíð Oddson opinberaði efasemdir sínar fyrir 2-3 árum síðan og fékk afar bágt fyrir.

Vísindamönnum hefur fjölgað mikið s.l. áratugi með hækkandi menntunarstigi fólks á vesturlöndum og er það að sjálfsögðu vel. Þessir fræði og vísindamenn eru "á markaði" eins og annað fólk. Til þess að sanna tilgátur sínar þarf mikla vinnu og PENINGA. Vísindamenn eru í samkeppni um fjármagn eins og aðrir í markaðsþjóðfélögum. Hlýnun jarðar af mannavöldum er djúpur vasi til að seilast í. Svo er einnig um fleiri mál tengd náttúrunni, s.s. rannsóknir á dýrum í útrýmingarhættu o.fl. Sjaldnast eru niðurstöður úr svona verkefnum einhver stórisannleikur. Tilgáturnar halda áfram að vera tilgátur og niðurstöðurnar búa oft til fleiri spurningar en þær svara.

Vísindamenn eru í stögugri leit að einhverju til að ransaka, í leit að einhverju sem almenningur telur að veita beri fjármagn í úr opinberum sjóðum. Sú viðleitni mun aukast frekar en hitt á komandi árum. Bestu og færustu vísindamennirnir eru oft á grænni grein hjá einkafyrirtækjum í að finna upp og þróa tækni og söluvörur. Allir hinir hafa líka sjálfsbjargarviðleitni þó atvinnutilboð streymi ekki til þeirra á færibandi. Þeir þurfa að auglýsa, ekki bara sjálfa sig, heldur einnig vandamál til að rannsaka. Og því dramatískari sem þeim tekst að gera vandamálið því líklegra er að almenningur réttlæti að peningum sé ausið úr almannasjóðum til verkefnisins.

Nú má ekki skilja mig svo að ég sé á móti því að fé sé varið í rannsóknir á sem flestum sviðum. Ég tel hins vegar að gjalda beri varhug við því að almenningur taki slíku gagnrýnislaust. Og í ljósi þess sem að ofan greinir, vil ég ekki að notuð séu rök eins og"Af því að vísindamenn segja það".

Mig langar að bæta hér við hlekk á síðu Ágústs Bjarnasonar. Afar athyglisvert sem þar kemur fram, einnig í athugasemdunum við færslu hans. Smellið   her


mbl.is Góð og slæm gróðurhúsaáhrif í Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband