Ég kom til A-Þýskalands árið 1980

Árið 1980 fór ég í Interrail-ferðalag með Gussa, vini mínum. Fyrir þá sem ekki vita hvað  Interrail er, þá er það ódýr ferðamáti með lestum um Evrópu. Við Gussi keyptum mánaðar passa fyrir 26 ára og yngri og við ferðuðumst um stóran hluta V-Evrópu, frá Uppsölum í Svíþjóð, til N-Ítalíu, á þremur vikum.

Á leið okkar frá Svíþjóð ákváðum við að taka ferju yfir til A-Þýskalands á leiðinni suður á bóginn. Það var tiltölulega lítið mál að fá vegabréfsáritun til kommúnistaríkisins á bryggjunni í Trelleborg á Eystrasaltsströnd Svíþjóðar.

Þessi u.þ.b. hálfs sólarhrings dvöl í A-Þýskalandi var ógleymanleg. Engu var líkara en við hefðum stokkið til baka í tíma aftur til stríðsára Seinni heimsstyrjaldarinnar.

kort

Við fórum með ferjunni frá Trelleborg til Saschnitz (þar sem rauða blaðaran er). Við komum þangað skömmu eftir miðnætti og enga lest að hafa. Við löbbuðum með troðfulla bakpoka okkar á bakinu til lestarstöðvar bæjarins sem var lítil og gamaldags. Við komum okkur fyrir á gólfi stöðvarinnar því við þurftum að bíða eftir fyrstu lestinni í um 5 klt. og meiningin var að ná dálitlum svefni þarna á gólfinu. Stöðin var mannlaus og þegar við höfðum komið dóti okkar fyrir, ákváðum við að kanna nánasta umhverfið. Vopnaðir verðir með Sjeffer-hunda gættu lestarstöðvarinnar og þegar ég mundaði myndavélina til að smella einna mynd af þeim, þá lyftu þeir höndum og hristu höfuðið og sögðu "Nicht fotografe"... eða eitthvað í þá áttina.

Við þurftum að skipta um lest í Rostock og við spókuðum okkur í miðbænum í 2-3 tíma. Skelfilegt var þar um að litast. Allt virtist grátt og byggingar í niðurníðslu og meira að segja fólkið var grátt og guggið að sjá. Við fengum okkur næringu á veitingastað og fundum að gjóað var á okkur rannskandi augum. Maturinn var vondur og umhverfið subbulegt. Klæðaburður fólksins var gamaldags og efnið í fötunum virtist úr grófu strigaefni.

Á lestarstöðinni, þegar við vorum að yfirgefa Rostock, sáum við ungan mann, sennilega um tvítugt (á okkar aldri) sem greinilega var vinsæll því hópur af ungum hlæjandi stúlkum var í kringum hann. Ungi maðurinn skar sig áberandi úr í klæðaburði miðað við annað fólk; hann var í fagurbláum gallabuxum og gallajakka! Hvílíkur töffari! James Dean Austur Þýskalands.

Á leið okkar út úr landinu, til frelsins í vestri, var stoppað á einhverri landamærastöð. Ekkert merkilegt var að sjá út um lestargluggann, annað en gaddavírsgirðingar. Gussi stakk höfðinu út um lestargluggann með myndavélina á lofti. Þá heyrðust hróp og köll og við sáum hermann í þykkum hnjásíðum frakka með riffil á öxlinni, koma hlaupandi inn í lestina. Við sáum hann olnboga sig í flýti í áttina til okkar í gegnum þvögu af fólki á lestarganginum. Svo stóð hann fyrir framan okkur og skipaði okkur í höstugum tón að fylgja sér út úr lestinni.

Við fylgdum honum út skjálfandi og skíthræddir. Farið var með okkur inn á einhvern kontór og þar beið okkar borðum skreyttur officer. Hann hélt yfir okkur þrumandi ræðu á þýsku sem við skildum ekki, nema síðustu tvö orðin sem við höfðum heyrt áður í Saschnitz: "Nicht fotografe!!"

Þetta var ótrúlega súrealískt, okkur fannst við vera í einhverri bíómynd um Seinni heimstyrjöldina og nasistaforingi væri að yfirheyra okkur. Svo flautaði lestin til merkis um að hún væri að fara Crying

Officerinn hrifsaði myndavélina af Gussa, opnaði hana og dró filmuna út í dagsljósið, henti henni í ruslafötu, lokaði myndavélinni og rétti hana til baka mjög alvarlegur á svip. Bandaði svo hendinni til merkis um að við mættum fara. Vopnaði vörðurinn fylgdi okkur um borð í lestina, sem virtist bíða eftir okkur. Um leið og við vorum komnir inn þá hélt lestin af stað.

Við vorum í hálfgerðu sjokki því við héldum á tímabili að við myndum verða innlyksa í landinu fyrir þá hræðilegu yfirsjón að taka mynd af gaddavír.

Það var ekki síður súrealískt að komast yfir landamærin til V-Þýskalands. Breytingin var ótrúleg á byggingum og öllu umhverfi. Meira að segja veðrið breyttist úr skýjuðu og grámyglu yfir í glampandi sól. Ég er ekki einus inni viss um að ÞAÐ hafi verið tilviljun Errm

Um borð í lestinni var fólk sem hafði leyfi til þess að fara í heimsókn til vesturs. Aðallega var um miðaldra og eldra fólk að ræða. Ég spjallaði við miðaldra mann sem sagðist vera að heimsækja ættingja sína sem hann hafði ekki séð lengi.

Og svo segir Vladimir Putin, í viðtali við NTV-sjónvarpsstöðina að hann saknaði Austur-Þýskalands!

 Putin var útsendari KGB í Dresden meðan kommúnistar réðu Austur-Þýskalandi. Hann hefur sjálfsagt haft það ágætt þarna en öreigarnir sem kommúnistar segjast bera hag fyrir brjósti, eru varla sama sinnis.


mbl.is Putin saknar Austur-Þýskalands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband