Starfsfræðsla í Alcoa

Að kynnast störfum í ólíkum greinum er upplýsandi og þroskandi fyrir unga sem aldna. Í Grunnskóla Reyðarfjarðar er valgrein í 9. og 10. bekk sem heitir starfsfræðsla. 14 krakkar völdu það fag og um 15 fyrirtæki í bænum samþykktu að taka á móti þeim í vetur, einu í senn. Síðasta mánuðinn höfum við svo fengið þrjá aðila sem komið hafa í skólann og haldið fræðsluerindi fyrir allan hópinn.

na.erna.indridadFyrst kom prestur og kynnti prestsstarfið, svo kom lögreglan og að lokum varaslökkviliðsstjórinn. Síðasta starfskynningin var á miðvikudaginn og þá fórum við í álver Alcoa. Erna Indriðadóttir, fyrrv. fréttamaður á Sjónvarpinu og núverandi upplýsingafulltrúi Alcoa, tók á móti okkur og heimsóknin var bæði fræðandi og skemmtileg.

002

Hér er hópurinn í móttökuherbergi þar sem spilað var myndband um öryggisreglur í álverinu en þær eru mjög strangar.

012

Litlu andarungarnir....  Sér merktar gönguleiðir eru í álverinu og stranglega bannað að fara út fyrir þær. Allir eiga að fara eftir reglunum, án undantekninga. Brot á öryggisreglum er oftast brottrekstrarsök.

019

Allir fengu viðeigandi hlífðarfatnað; hjálma, sloppa, þykka vinnuhanska, öryggisskó með stáltá, hlífðargleraugu og eyrnatappa. Hópnum var skipt í tvennt og hér er annar hópurinn með Eiði Ragnarssyni, starfsmanni í mannauðsteymi Alcoa, en hann var leiðsögumaður okkar hóps. Dóttir Eiðs var í hinum hópnum. Í fjarska má sjá gula slá yfir bræðslukerjunum, en það er krani sem notaður er við að tæma úr kerjunum. Einn svona krani kostar um 500 miljónir króna og fjórir slíkir eru í álverinu.

017

Hér er horft í hina áttina, en hópurinn kom inn í skálann fyrir miðju. Skálinn virkaði næstum mannlaus því þetta er gríðarlegt mannvirki, hvor skáli um sig er um 1.100 metrar á lengd og lofthæðin er um 20 m. Annar krani sést í fjarska.

011

Hér er "lítil" álma úr öðrum kerskálanum en hún er kranaverkstæði. Þessi rándýru tæki eru undir stöðugu eftirliti. Starfsmennirnir sem vinna á krönunum eru þjálfaðir í "kranahermi" og fengum við að setjast í hann og prófa. Kranahermirinn kostar litlar 50 miljónir en betra er að gera mistök í honum en í alvöru krananum. Mistök í honum geta verið mjög dýrkeypt.

007

Mynd af kranaherminum. Í honum er leystar þrautir eins og í raunveruleikanum væri. Hermirinn gefur einkunn á skalanum 1-10 fyrir marga ólíka þætti, s.s. hraða, nákvæmni og mýkt í stjórnun. Þeir sem útskrifast sem kranamenn gera tilteknar æfingar 10 sinnum og mega aldrei fá lægri einkunn en 7. Allir fengu að prófa einu sinni og þrír nemendur náðu yfir 7, allt stelpur.

020

Mikið lofthreinsivirki liggur á milli kerskálanna en ýmsar óheilnæmar lofttegundir eru sogaðar upp úr bræðslukerjunum og þær hreinsaðar, aðallega brennisteinn. Svo er sjóðheitu loftinu dælt upp um þennan reykháf sem er 3 metrum hærri en Hallgrímskirkjuturn, eða 78 m.

039

Þúsund tonn á færibandinu þokast nær. Öryggisgrindverk er þarna utanum færibandið sem flyrur 900 gráðu heitt álið til frekari vinnslu.

036

Rauðgóandi ofn hafður opinn til kælingar

034

Fata full af  brennheitu áli flutt til í vinnsluferlinu

042

Þarna er búið að gera vírrúllur úr álinu sem m.a. eru notaðar í háspennustrengi í Austur-Evrópu. Fyrirhuguð er gríðarleg endurnýjun á raforkukerfi gömlu kommúnistaríkjanna, en kerfi þeirra hafði verið illa haldið við frá því það var byggt snemma á síðustu öld. Ein rúlla er um 3,5 tonn að þyngd.

049

Eiður að fræða krakkana.

045

Nokkrar rannsóknar og gæðaeftirlitsstofur eru í álverinu. Þarna er togþol álsins prófað

046

Álstangir í skúffum merktum framleiðsludeginum

048

Stöðvunarskylda

047

Betra er vit en strit. Mikil áhersla er lögð á vinnuvernd og öryggi

 

025

Hér er súrálstankurinn. Hann tekur 90 þús. tonn sem er um mánaðarskamtur fyrir álverið. Um tvö tonn af súráli þarf til að búa til eitt tonn af áli.

024

Súrálinu er dælt beint úr skipinu upp í þetta færiband sem flytur það í tankinn.

 Mjóeyrarhöfn er orðinn önnur stærsta höfn landsins, en Eimskip er einnig með aðstöðu við höfnina. Aðstæður til hafnargerðar voru eins og best verður á kosið, því mjög aðdjúpt er þarna og ekki er þörf á neinum sjóvarnargörðum því ölduhæð er engin í þröngum firðinum. Alls vinna um 750 manns innan girðingar álversins, 450 í álverinu sjálfu og um 300 manns við höfnina og í þjónustufyrirtækjum sem staðsett eru á lóðinni. Auk þess er fjöldi starfa tengd álverinu víða um land, m.a. í Reykjavík.

Að heimsókninni lokinni var öllum boðið í rjómavöfflur, kaffi og ávaxtasafa. Flestir voru dauðfegnir að losna við öryggisskóna vegna hælsæris og ein stelpan sagðist sko ekki ætla að vinna þarna í framtíðinni, því skórnir væru svo óþægilegir. Allir fóru þó sáttir á braut og ýmislegs vísari um álver Alcoa á Reyðarfirði.

 


mbl.is Fengu að kynnast slökkvistarfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband