Til hamingju Helgi!

helgiseljanHelgi Georg Seljan Jóhannsson er sennilega frægasti Reyðfirðingurinn á Íslandi í dag. Hann flutti austur með foreldrum sínum á unga aldri úr Kópavoginum en móðir hans, Ingunn Karitas er þaðan. Faðir Helga, Jóhann Sæberg er sonur Helga Seljan eldri, fyrrv. alþingismanns fyrir Alþýðubandalagið, frá Seljateigi. Seljateigur er innsti bærinn í Reyðarfirði norðanverðum og þaðan er Seljan nafnið komið.

Leiðir okkar Helga yngri hafa legið saman í gegnum vinnu og áhugamál. Við vorum vaktfélagar hjá SR-mjöli, loðnubræðslunni sem nú er hætt og enginn saknar bræðslufniksins en verksmiðjan hafði verið á undanþágu í mörg ár vegna ófullnægjandi hreinsibúnaðar. Og svo vorum við í Leikfélagi Reyðarfjarðar og lékum saman í "Hart í bak" eftir Jökul Jakobsson í leikstjórn Jóns Júlíussonar. Helgi lék strákinn og ég lék Finnbjörn. Jóni fannst ég vera full unglegur fyrir hlutverkið og lét því setja á mig ógurlegt gerfinef til þess að "þroska" mig aðeins upp.

Helgi tók þátt í bæjarpólitíkinni í Fjarðabyggð og stofnaði sinn eigin lista, Biðlistann árið 2002 og komst inn með einn mann, þ.e. sjálfan sig. Hann gekk til samstarfs og myndaði meirihluta með Framsóknarmönnum og Fjarðalistanum (lista félagshyggjufólks). Helgi gerðist kosningastjóri Samfylkingarinnar í Fjarðabyggð í alþingiskosningunum 2003 og leiddi forystumenn flokksins um kjördæmið í kynningarferðum þeirra um austurland. Helgi flutti til Reykjavíkur á miðju kjörtímabili og annar maður á Biðlistanum tók sæti hans í bæjarstjórn. Til Biðlistans var stofnað í léttu gríni í upphafi, eins og nafn listans bendir til, en með nafninu var vísað til þeirrar biðar sem íbúar Fjarðabyggðar máttu þola vegna óvissu um stóriðjuframkvæmdir. Helgi var þá harður stuðningsmaður framkvæmdanna og stóð m.a. fyrir rokktónleikum í Félagslundi á Reyðarfirði á sínum tíma sem báru yfirskriftina "Sökkvum Eyjabökkum". Afstaða Helga átti eftir að breytast síðar þó varla hafi hann talist harður andstæðingur framkvæmdanna. Biðlistinn bauð sig aftur fram til kosninga 2006 og þá með heldur alvarlegra yfirbragði en náði ekki inn manni og er framboðið því væntanlega liðið undir lok.

Þegar Helgi flutti til Reykjavíkur hóf hann störf sem blaðamaður á DV en áður hafði hann þreytt frumraun sína á þeim vettfangi hjá Austurglugganum, eina "local" fréttablaði Austfirðinga. Frá DV lá leið hans í Útvarp Sögu og þaðan í Ísland í dag á St. 2. og er nú eins og alþjóð veit í Kastljósi ríkissjónvarpsins. Frami hans á öldum ljósvakans hefur verið undraskjótur og virðist hann hafa fundið hilluna sína í lífinu sem kemur mér reyndar ekki á óvart. Hann hefur alltaf haft "nef" fyrir því sem er að gerast í kringum hann.

Til hamingju Helgi með prinsessuna og nafnið stóra, sem er of stórt fyrir fyrir tölvukerfi Hagstofunnar. Þú lætur ekkert deigan síga með það, ef ég þekki þig rétt Joyful


mbl.is Nennir ekki laga sig að tölvu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Karl Ólafsson

Það skondnasta í þessu er að það hefði verið hægt að breyta þessari takmörkun á nafnalengd fyrir 10-15 árum síðan með tiltölulega litlum tilkostnaði. Það er reyndar enn hægt sé vilji fyrir hendi. Sjá hér smá 'deja vu' upprifjun mína.

Karl Ólafsson, 12.1.2008 kl. 15:48

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Já er þetta ekki bara dæmigert fyrir tregðu hjá opinberum stofnunum? Friðrik Skúlason (púkinn) bloggar um þetta líka og segir að breytingaferlið ætti ekki að taka nema nokkra mánuði, ekki nokkur ár.

Gunnar Th. Gunnarsson, 12.1.2008 kl. 17:41

3 Smámynd: Guðmundur Rafnkell Gíslason

Helgi er flottur og góður drengur með öll stjörnuelementin:)

Smá athugasemd, Helgi og Biðlistinn myndaði ekki meirihluta með okkur í Fjarðalista og Framsókn. Meirihlutinn var bara Fjarðalisti og Framsókn. Meirihlutinn tryggði hins vegar Biðlistanum fólk í nefndir sem annars hefði þurft að kasta upp á, á milli Sjálfstæðisflokks og Biðlista. Þetta fór í taugarnar á Sjálfstæðisflokknum, skiljanlega. Mæting Biðlistafólks á nefndarfundi var hins vegar til skammar allt kjörtímabilið. Þegar fólk fer í framboð eða gefur kost á sér í nefndir þá er fólk að lofa sér í 4 ár, sumir gleyma því, þar á meðal Helgi sem fór suður á miðju kjörtímabili.

Guðmundur Rafnkell Gíslason, 13.1.2008 kl. 13:52

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Takk fyrir þessa leiðréttingu Guðmundur,  já svona geta þessi grín framboð verið ábyrgðarlaus

Gunnar Th. Gunnarsson, 13.1.2008 kl. 14:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband