Þorrablót á Reyðarfirði

þorri2

Þorrablót Reyðfirðinga var haldið í 91. sinn á bóndadaginn, 20. janúar. Við hjónin nutum þess heiðurs að vera formenn nefndarinnar þetta árið, en ný nefnd er kosin árlega af fráfarandi nefnd.

Fjölgað var í nefndinni í fyrra, úr 14 manns í 20 og veitir ekki af, því vinna við undirbúning blótsins jókst mikið við hina miklu íbúafjölgun í þorpinu, eftir að álver Alcoa Fjarðaáls hóf starfsemi sína. Blótið var flutt úr Félagslundi, félagsheimili staðarins sem hafði hýst blótið í um 60 ár, í íþróttahúsið. Sú breyting kostar að setja þarf upp svið, ljósabúnað, hljóðkerfi, dansgólf og teppi, borð og stóla ásamt ýmsu fleiru, á hverju ári og setja svo allt í fyrra horf strax daginn eftir.

Þetta er gríðarleg vinna og einhver úr nefndinni reiknaði að gamni sínu út að miðaverðið hefði þurft að vera um 30 þúsund krónur, ef borga hefði átt laun fyrir vinnuframlag nefndarinnar sem var um 2.500 vinnustundir síðustu tvær vikur fyrir blót, en þá hafði þegar farið fram töluverð forvinna, m.a. við gerð grín-annálsins um þorpsbúana. (Stækka má myndirnar með því að smella þrisvar á þær)

þorri5

Baksviðs, báðu megin, hafði nefdin aðstöðu fyrir sig og leikmunina í annálnum.

þorri6

Jói Deddi veltir vöngum yfir hvernig koma megi gestum sem haganlegast fyrir í salnum, en uppselt var á blótið og aðsóknarmetið var slegið hressilega. Rúmlega 380 manns sátu blótið í ár en gamla metið var ríflega 330 manns, sett árið 2008. Mest varð aðsóknin í Félagslundi um 270 manns, en það var í raun alls ekki boðlegt vegna þrengsla. Hæfilegur fjöldi í því ágæta húsi var ekki nema um 230.

þorri4

Þarna er salurinn að verða nokkurnveginn klár, nokkrum klukkustundum áður en blótið hófst. Síldarnót er hengd í loftið til skrauts.

þorri3

Trogin komin á borðin og Vallý tékkar hvort allt sé ekki örugglega í orden.

þorri

Rétt fyrir opnun hússins, kl. 19.30. Hákarl og brennivín fyrir gesti um leið og þeir ganga inn.

þorri7

Fyrsti bakkinn tilbúinn. Sunna og Óskar glaðbeitt og full af tilhlökkun.

þorri8

Bjarni bíður eftir fyrsta gestinum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Glæsilegt!

Íslendingar kunna að skemmta sér. 

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 25.1.2012 kl. 14:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband