Safna upp í minkapels

026

Ég var voðalega þreyttur og illa sofinn þegar ég keyrði austur á Reyðarfjörð eftir sept.-staðlotuna í ökukennaranáminu á sunnudaginn. Svo þreyttur að ég ákvað að leggja mig einhversstaðar í grennd við Djúpavog. Þá hafði ég keyrt í slagveðurs rigningu frá Hvolsvelli og þegar myrkrið bættist við urðu augnlokin óþægilega þung. Ég held að klukkan hafi verið um 22:30 þegar ég lagði mig og þetta átti að verða ca. hálftíma lúr. Ég hrökk upp úr einhverjum draumi örstuttu síðar.... fannst mér, en þá var klukkan orðin 03:30! Ég svaf eins og steinn í bílstjórasætinu í 5 tíma!

Það fyrsta sem kom í hugan var að eiginkonan hlyti að vera orðin áhyggjufull því ég sagði henni að ég yrði sennilega kominn fljótlega eftir miðnætti og ég leit á símann til að athuga hvort það væri samband. Jújú, sem betur fer var fínt samband en hún hafði greinilega engar áhyggjur GetLost. Ég sendi henni sms og sagði að ég yrði kominn upp úr kl. 05:00, hefði sofnað og fékk svar um hæl "ok".

Ég lagði svo af stað en nú hafði veðrið gjörbreytt um svip, komið var stafalogn og úrkomulaust og Berufjörðurinn speglaðist í húminu. Það kallaði fram 30 ára gamla minningu þegar ég var á síldveiðum í botni Berufjarðar 17 ára gamall, alveg upp í harðalandi.

Á einum malarkaflanum í Berufirðinum hljóp minkur fyrir bílinn. Ég var á um 80 km. hraða þegar hann birtist skyndilega og hann varð greinilega sleginn felmtri þegar skær bílljósin blinduðu hann. Hann stoppaði fyrst á miðjum veginum, svo virtist hann ætla að halda áfram yfir en snéri snögglega við og þá keyrði ég yfir hann. Ég heyrði þungt högg lenda á pönnuhlífinni undir bílnum. Ég stöðvaði og bakkaði svo til að sjá hvort ég sæi hann ekki á veginum og þar lá hann í blóði sínu greyið, spriklandi svo kröftuglega að ég þorði ekki að hreyfa við honum strax. Svo fjaraði spriklið út og ég setti líkið í plastpoka.

Á myndinni hér að ofan er hún Dúfa, silki-terrier tíkin okkar að virða fyrir sér minkinn, en þetta er greinilega hvolpur frá sl. vorgoti.

Ég veit að konunni langar í minkapels. Ég er byrjaður að safna!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Ég hef enga samúð með þessum helv. rottum eftir að hafa séð hvernig þeir fóru með kindur og lömb hér í sveitinni forðum daga. Ég á pels - en því miður keyrði ég ekki yfir kvikindin í honum. Ég vona að þú náir að safna uppí einn síðan handa henni sem allra fyrst...

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 23.9.2008 kl. 20:18

2 Smámynd: Steingrímur Helgason

Gratjúlera með neðri hluta hægri ermarinnar.

Drive on, dude...

Steingrímur Helgason, 23.9.2008 kl. 22:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband