Anderson og Fischer- absúrd raunveruleiki

 Ég er svo heppinn að hafa ekki farið á mis við skáklistina. Ekki það að ég sé neinn listamaður í skák en ég státa þó af einum Íslandsmeistaratitli í netskák (í flokki Elo- stigalausra) Á tímabili tefldi ég mikið við Birgir, einn ágætan vin minn til margra ára, sem reyndar státaði af sama titli og ég 2-3 árum áður, og þá var gjarnan hlustað á Jethro Tull um leið og eldfljótir fingur hreifðu mennina og smelltu á skákklukkuna.

Ian Anderson flautuleikari og  "eigandi" Tull var átrúnaðargoð okkar og það var mikið pælt í textum og tónum goðsins. Robert Fischer var líka í miklu uppáhaldi hjá okkur, enda var hann sennilega kveikjan að skákáhuga okkar beggja, og reyndar hjá fleirum úr vinahópi okkar. Birgir rekur verslun og innflutningsfyrirtæki og þar vorum við oft fram eftir kvöldum og tefldum og hlustuðum á Tull. tull1

Það halda e.t.v. margir að taflmennska sé frekar leiðinleg og að nördar séu þeir einu sem hafi áhuga á slíku, en því fór fjarri að einhver lognmolla hvíldi yfir skákkvöldum okkar.

Einhvern tíma þegar Birgir hafði verið í hörku stuði í skákinni í dálítinn tíma og var farinn að vinna mig leiðinlega oft og var snöggur að því (við tefldum alltaf 5 mín. skákir) þá stráði hann salti í sárin með því að segja við mig reglulega þegar ég átti leik: "Snöggur". Þetta varð að brandara hjá okkur og ég notaði hann auðvitað líka þegar hann lenti í vandræðum og þurfti að hugsa.

Eitt sinn, fyrir mörgum árum síðan, þegar við fengum okkur ölkrús á lagernum hjá honum, vorum við að tala um Fischer, en þá hafði ekkert heyrst af kappanum í mörg ár. Eitthvað fórum við að fabúlera með það að toppurinn á tilverunni hjá okkur væri ef Fischer tefldi við okkur yfir nokkrum krúsum og við gætum sagt við hann "snöggur". Og til að fullkomna órana þá sæti Anderson á kolli á lagernum með okkur með flautuna og tæki nokkur lög, svona í bakgrunninum. Við hlógum mikið að þessu.

Ekki grunaði okkur að hugsanlega hefði þetta getað orðið að raunveruleika ca. 15 árum síðar. Sonur Birgis, Daníel, sem á þessum árum var barn að aldri, gerðist tónleikahaldari fyrir erlendar hljómsveitir fyrir nokkrum árum og hann flutti inn Jethro Tull (hverja aðra Joyful).  Ágætur vinskapur skapaðist með Daníel og Ian Anderson og hefur hann nú komið tvisvar sinnum til landsins til tónleikahalds á vegum hans.

Fyrir nokkrum dögum síðan kom Ian Anderson óvænt til Íslands í sumarfrí.  Daníel bauð Anderson í mat heim til sín og fór með honum í skoðunarferðir í nágrenni Reykjavíkur. Og að sjálfsögðu fór hann með "Goðið" í heimsókn til pabba síns í verslun hans. Ian Anderson í Jethro Tull var kominn inn á lagerinn hjá Bigga og fékk sér kaffibolla!

Ef Fischer hefði verið á lífi þá er aldrei að vita nema hann hefði þegið kaffibolla með Anderson á lagernum. Tekið eina bröndótta við Bigga og Anderson spilað Buré á kolli við hliðina á þeim. En ég er ekki viss um að Biggi hefði fengið tækifæri til að segja "snöggur" við Fischer. Grin 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Já, það verður að bíða betri tíma

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.9.2008 kl. 11:36

2 Smámynd: Jens Guð

  Skemmtileg frásögn.   

Jens Guð, 9.9.2008 kl. 13:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband