Hernámsdagurinn á Reyðarfirði

1. júlí 1940 öslaði 26 þús. tonna breskt herskip inn Reyðarfjörð og varpaði ankerum innst í firðinum við þorpið Búðareyri sem nú heitir Reyðarfjörður. 200 hermenn stigu á land en þeim átti eftir að fjölga verulega og urðu þegar mest var um 3000 og var þá þriðja stærsta herstöð bandamanna á Íslandi, á eftir Reykjavík og Akureyri. Seinna tóku Bandaríkjamenn við af Bretum en einnig voru hér bæði kanadískar og norskar flugsveitir. Árið 1940 bjuggu um 300 manns í plássinu svo það er auðvelt að sjá fyrir sér hve mikil breyting varð á lífsháttum fólks í þessu litla austfirska sjávarplássi við hernámið.

005

Í tilefni dagsins stóð Fjarðabyggð fyrir gönguferð frá Molanum, nýju verslunarmiðstöðinni á Reyðarfirði, upp með Búðarárgili og að Stríðsárasafninu í spítalakampinum sem var sett á laggirnar fyrir um áratug síðan. Í auglýsingu var fólk hvatt til þess að mæta í gönguna "klætt í stíl við tilefnið". Þar sem herklæðnaður er ekki til á hverju heimili þá voru það helst konurnar sem klæddu sig upp og voru auðvitað komnar í "ástandið" um leið Joyful Hörður Þórhallsson, fyrrv. sveitarstjóri á Reyðarfirði var sögumaður á leiðinni uppeftir, dressaður sem officer.

010 (2)

Á leiðinni upp Búðarárgil eru upplýsingaskilti um hernámið. Hér er Hörður að ausa úr sagnabrunni sínum fyrir göngufólk við eitt skiltið. Í bókinni "Sögu Reyðarfjarðar", eftir Guðmund Magnússon, fyrrv. skólastjóra og fræðslustjóra Austurlands, segir um þessa tíma:

"Þrátt fyrir þessa atburði óraði Reyðfirðinga örugglega ekki fyrir því, að í heimabyggð þeirra risi herstöð með mörgum sinnum fleiri hermönnum en íbúarnir voru þá, en annað kom á daginn. Hinn 1. júlí 1940 sigldi 26 þúsund tonna herflutningaskipið Andes inn á Reyðarfjörð og setti þar á land fjölmennt herlið, sennilega hátt í 200 hermenn, en þeim átti eftir að fjölga svo um munaði".

008

Uppi í brekkunni fyrir ofan skiltið sást glitta í breskan hermann í fullum herklæðum við loftvarnabyrgi, hið síðasta sem eftir er en þau voru  á nokkrum stöðum í bænum á þessum árum. Lítil steypt og hálf niðurgrafin og ekki þægilegt að hýrast í þeim. Í október árið 1942 glumdu loftvarnarflautur 9 sinnum og fólkið þyrptist í byrgin.

015

Á vegi okkar urðu nokkrir hermenn og þessi gaf börnunum tyggjó, en það var víst ekki óalgengt á þessum árum að hermennirnir gaukuðu einhverju lítilræði að börnunum og flest ef ekki allt var nýnæmi í þeirra augum.

020

Fleiri hermenn urðu á vegi okkar í gilinu. Öðru hvoru hváðu sprengingar við með tilheyrandi reykjarmekki í grennd við okkur og ég held að björgunarsveitin okkar hafi lagt þær reykbombur til. Mjög skemmtilegt.

016

017

Gönguleiðin upp með gilinu er virkilega falleg. Hér er göngufólk að virða fyrir sér Búðaránna. Á neðri myndinn er Kristinn Briem starfsmaður Vegagerðarinnar á Reyðarfirði að virða fyrir sér hylinn sem hann veiddi lækjarlonturnar úr, þegar hann var ungur drengur. Í miklum leysingum getur áin orðið foráttu gruggug og vatnsmikil eins og jökulfljót.

021

Hópurinn kemur að safninu.

024

Tveir herbílar eru við safnið. Hér er Jökull Geir sonur minn með Dúfu í fanginu, fjögurra mánaða Silki Terrier tíkina okkar.

036

Safnið hefur vaxið jafnt og þétt á þessum 10 árum og er orðið afar athyglisvert og ég hvet alla sem leggja leið sína til Reyðarfjarðar að kíkja á safnið. Spítalakampurinn var einn nokkurra staða í bænum sem setuliðið byggði og í honum er stríðsárasafnið.

Marga undraði og urðu jafnvel uggandi þegar fréttist að verið væri að byggja þennan kamp með fullkomnum skurðstofum þess tíma og rúmum fyrir mörg hundruð manns. Fjöldi lækna og hjúkrunarkvenna voru á staðnum og Reyðfirðingar vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Átti breski herinn von á átökum við þýska herinn á Austfjörðum? Nei, svo var ekki, heldur var þessi spítali hugsaður fyrir særða hermenn úr fyrirhugaðri innrás bandamanna í Noreg. Til þess kom þó aldrei að þessi aðstaða væri notuð fyrir særða hermenn.

025

Margar ljósmyndir eru á safninu frá stríðsárunum á Íslandi. Þessi er ef ég man rétt tekin á Suðurlandsbrautinni í Reykjavík. Algjör snilld þessi mynd, finnst mér.

040

041

Stélbogi og skrúfublöð úr þýsku Heinkel flugvélinni sem fórst á Valahjalla við Reyðarfjörð 22. maí 1941.

042

Sá skal fá að kenna á því! Höskuldur Ólafsson, einn af dátunum í tilefni dagsins.

045

046

059

Margar gerðir vopna má finna á safninu, stórra og smárra. Faðir minn var í lögreglunni í Reykjavík á árunum 1947-1964. Hann eignaðist nákvæmlega svona byssu þegar hann var í víkingasveit þess tíma. Hann gerðist bóndi í Kjósinni í nokkur ár þegar hann hætti í lögreglunni og notaði byssuna við heimaslátrun.

061

060

031

Það er eins gott að þekkja óvininn.

049

Fræg ummæli Churchills.

052

050

Boðið var uppá kaffi, kók og kex. Að sjálfsögðu var daman bak við borðið klædd í samræmi við tilefnið.

047

Óli Gunnars góður í hlutverki bresks hermanns.

058

057

Forsíða dagblaðs mánudaginn 8. desember 1941

063

022

Það fór að rigna hressilega en það spillti ekki gleðinni. Hér er Helga Jónsdóttir, bæjarstjóri Fjarðabyggðar ásamt Eiði Ragnarssyni frá Reyðarfirði og Beu Meijer frá Eskifirði undir gafli í spítalakampinum.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Frábær upprifjun á tímabili sem allt of fáir muna eftir.  Eins og vanalega eru myndirnar frá þér alveg stórkostlegar og textinn er mjög "lifandi" og skemmtilegur.  Kærar þakkir.

Jóhann Elíasson, 2.7.2008 kl. 03:50

2 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Takk fyrir góðan pistil og frábærar myndir.

Ágúst H Bjarnason, 2.7.2008 kl. 06:08

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Takk fyrir það

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.7.2008 kl. 14:25

4 Smámynd: Marinó Már Marinósson

Og ég sem ætlaði að vera á staðnum á þessu degi. 

Marinó Már Marinósson, 2.7.2008 kl. 18:28

5 Smámynd: gudni.is

Frábær færlsa hjá þér Gunnar

Flugkveðja - Guðni

gudni.is, 3.7.2008 kl. 02:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband