Er álit Skipulagsstofnunar trúverðugt?

Svæðið þar sem til stóð að reisa Bitruvirkjun. Ég vil byrja á því að óska þeim sem hafa verið á móti þessum framkvæmdum til hamingju með álitið. Ég hafði hugsað mér að samþykkja álitið möglunarlaust, en eftir því sem ég kynni mér álit fleiri faglegra aðila um málið, því meira efins verð ég.  Ég bjóst nefnilega við að álitið snérist fyrst og fremst um þann hræðsluáróður sem virkjunarandstæðingarnir hömruðu mest á, þ.e. að eiturgufurnar frá borholunum væru hættulegar heilsu Hvergerðinga og raunar fólki á höfuðborgarsvæðinu líka og að svæðið fyrir neðan virkjunina í Reykjadal og giljunum þar ofan við, myndu eyðileggjast og þar með væri ferðamennska á svæðinu varpað fyrir róða. 

Um ferðamennsku á svæðinu segir í umsögn Ferðamálastofu:  "Ómögulegt er að leggja mat á hvort ferðafólki kemur til með að fækka á svæðinu",

En mótmælendur fullyrtu það nú samt. Einnig hef ég séð þá mótmæla raski á fornleifum á svæðinu. Fornleifavernd ríkisins leggst ekki gegn framkvæmdinni, einfaldlega vegna þess að fornleifar eru lítilfjörlegar á svæðinu.

Iðnaðarráðuneytinu barst bréf Skipulagsstofnunar til umsagnar 24. sept. sl.  Niðurlag umsagnar ráðuneytisins 19. okt sl. er:

"Hengilssvæðið er ekki meðal þeirra svæða sem tilgreind eru sem sérstaklega mikilvæg út frá verndunarsjónarmiðum í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Ráðuneytið gerir ekki frekari athugasemdir við frummatsskýrslu um fyrirhugaða  135 MW jarðhitavirkjun, Bitruvirkjun".

Virkjunarandstæðingar hömruðu á að háspennulínur eyðilegðu ásýnd svæðisins. Áætlun um raflínur var breytt og fyrirhugað var að leggja þær í jörð.

Í bréfi Orkustofnunar til Skipulagsstofnunar 9. nóv. s.l. um mat á umhverfisáhrifum Bitruvirkjunar og Hverahlíðarvirkjunar segir m.a.

"Orkustofnun telur þá stefnumörkun um umhverfis og ásýndarmál fyrir hönun jarðvarmavirkjana á Bitru og við Hverahlíð sem lýst er í matsskýrslunum vera til fyrirmyndar".

Umhverfisstofnun segir í bréfi til Skipulagsstofnunar 2. nóv. sl.

"Það er mat Umhverfisstofnunar, að teknu tilliti til ofangreindra atriða og að við þeim verði brugðist með fullnægjandi mótvægisaðgerðum, sé ekki líklegt að heildaráhrif vegna framkvæmdanna verði umtalsverð".

Margir aðrir aðilar eru með jákvæða umsagnir um Bitru og Hverahlíðarvirkjun með fyrirvörum um frekari rannsóknir á óvissuþáttum, s.s. brennisteinsvetnismengun, hljóðmengun, nýtingu á "jarðhitageyminum" undir svæðinu o.þ.h.

Fjöldi athugasemda einstaklinga sem margar hverjar voru "Copy/paste" eftir uppskrift forystsauða mótmælendanna er ómerkilegt innlegg í faglega umræðu um þessi mál. Þær ættu því einfaldlega að reiknast sem undirskriftalisti um mótmæli við Bitruvirkjun og ekkert annað.

Getur verið að Skipulagsstofnun láti ýkjuáróður umhverfisverndarsinna hafa áhrif á sig?

Maður spyr sig.


mbl.is Bitruvirkjun út af borðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er nú alveg óþarfi Árni, sjálfur hafði ég pínulitlar efasemdir um þessa framkvæmd. En mér finnst nú samt æskilegt að álit Skipulagsstofnunar sé faglegt í hvívetna og hún taki tillit til álitsgjafanna.

Gunnar Th. Gunnarsson, 19.5.2008 kl. 19:02

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég gleymdi nú að minnast á það í pistlinum að Skipulagsstofnun lepur upp vitleysuna í virkjunarandstæðingunum um að framkvæmdin sé ekki afturkræf, því það er hún þó hægt verði að sjá með herkjum að eitthvert rask hafi orðið akkúrat þar sem mannvirkin hefðu staðið.

Gunnar Th. Gunnarsson, 19.5.2008 kl. 21:18

3 Smámynd: Pétur Kristinsson

Og þar með er hún ekki afturkræf, ekki satt? Spurningin var hvort eitthvert rask yrði eða ekki og auðvitað verður rask á svæðinu.

Annars eru helstu rök mín á móti svona framkvæmdum að við verðum líka að hugsa um komandi kynslóðir en ekki bara akkúrat okkar. Við verðum líka að hugsa um framtíðina og vera aðeins víðsýnni í því hvernig við búum til atvinnu og náum í fjármagn til landsins.

Pétur Kristinsson, 19.5.2008 kl. 23:51

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ef það á að horfa í það að mögulega sé hægt að sjá ummerki eftir framkvæmdir og þar með sé ekki hægt að tala um að framkvæmdin sé afturkræf, þá getum við alveg eins hætt algjörlega að tala um að afturkræfar framkvæmdir séu yfir höfuð til.

Við erum að hugsa um komandi kynslóðir með því að búa þannig í haginn fyrir þær að hér séu lífskjör góð á sem flestum sviðum og framkvæmdir af þessu tagi stuðla að því. Það er ekki þar með sagt að við eigum að einblína eingöngu á virkjanir og stóriðju, enda er það ekki gert.

Veistu Árni, Bitruvirkjun er mér ekki hjartans mál, en Kárahnjúkavirkjun var það, það viðurkenni ég fúslega. Og að nýta náttúruauðlindir á skynsamlegan hátt fyrir þá íbúa sem að þeim búa er auðvitað hið besta mál. En ég held að Bitruvirkjun skipti engum sköpum, hvort hún verði eða ekki. Hins vegar finnst mér að Skipulagsstofnun hafi hugsanlega lagt einhverja línu um hvernig þetta verður í framtíðinni með jarðvarmavirkjanir. Ef það á að nýta jarðvarmaorkuna á háhitasvæðunum, þá verður alltaf um einhverja náttúruspillingu að ræða og á háhitasvæðum eru gjarnan hverir o.þ.h.

Náttúruverndarsinnarnir segja nú, að orrusta hafi unnist, en stríðið sé hvergi nærri búið. Er það ekki vísbending um það sem koma skal hjá Skipulagsstofnun?

Gunnar Th. Gunnarsson, 20.5.2008 kl. 01:28

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það sem mér finnst standa uppúr varðandi neikvæð áhrif svona virkjunar á umhverfið er hávaðinn. En þó er ekki sýnt fram á hversu mikill hann verður í dölunum sunnan við, sem eru virkilega skemmtileg svæði. Ég hefði mestar áhyggjur af þeim. Að öðru leyti er ég að mestu ósmmála áliti Skipulagsstofnunnar.

Já allar þessar rannsóknir á svæðinu koma e.t.v. að gagni síðar, ef ekki við Bitru, þá vonandi annarsstaðar. Það liggur mikil fjárfesting í allri þessari rannsókarvinnu.

Gunnar Th. Gunnarsson, 20.5.2008 kl. 04:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband