30 ára gömul minning

 

Ég man þegar ég norpaði aftur í nótakassa á síldinni þegar ég var sautján ára og beið eftir að blýið, garnið og flotið kæmi inn. Við vorum skammt suður af Hrollaugseyjum í stinningskalda og 12 stiga frosti og fullt tungl óð í skýjum. Þegar blökkin fyrir ofan okkur byrjaði að æla niður nótinni og við að raða henni snyrtilega í kassann, þá hitnaði manni svo um munaði. Á köflum var maður í svitabað en fann samt hvernig frostið beit í puttana.

En í minningunni er það ákaflega fögur sjón að sjá spriklandi demantssíldina flæða úr troðfullum háfnum og renna eftir gljáandi blikkrennunum ofan í lest. Við vorum einir örfárra sem enn notuðust við háf árið 1977, en flestir voru komnir með dælu. Ljóskastararnir á dekkinu ásamt tungsljósinu ljá þessari minningu ævintýralegum blæ. Svo sigldum við til Grindavíkur með drekkhlaðinn bátinn. Þegar við fengum eitthvað lítið, þá þurfti samt að landa því innann ákveðins tíma. Þá fórum við inn á þær Austfjarðahafnir sem næstar voru og gátu tekið á móti síldinni. 

Eitt sinn vorum við á veiðum inni í Berufirði. Í botni fjarðarins er ótrúlega aðdjúpt og við köstuðum nótinni nánast upp í harða landi þarna. Blankalogn var og þetta var mögnuð stund. Svo var farið inn á Djúpavog með aflan.  Ég hefði ekki viljað missa af þessari lífsreynslu.

Myndin hér að neðan er frá Ólafsfirði og fangar einmitt stemninguna eins og hún var í Berufirði haustið 1977.

 

tungsljós


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Gaman að svona lýsingum úr lífinu.

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 23.2.2008 kl. 00:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband