Skemmtiferðaskip

Eins og margir vita sem lesa bloggið mitt, þá er ég leigubílstjóri að atvinnu á Reyðarfirði. Um daginn var hringt í mig frá Seyðisfirði og ég spurður hvort ég hefði ekki áhuga á að koma þangað á taxanum þriðjudaginn 31. júlí, því þá kæmi stórt skemmtiferðaskip með 1250 Hollendinga innanborðs, og margir hefðu hug á að taka leigubíl um Mið-Austurland í skoðunarferð um svæðið. Einnig hafði verið hringt í leigubílstjóra á Egilsstöðum og Eskifirði.

 Að sjálfsögðu brást ég vel við þessari bón og brunaði þessa 56 km. með viðkomu á upplýsingamiðstöð ferðamanna á Egilsstöðum til þess að viða að mér túristabæklingum um Austurland handa tilvonandi farþegum mínum úr skipinu. Í upplýsingamiðstöðinni var tekið afar vel á móti mér og þaðan fór ég hlaðinn allskyns sneplum og meira að segja fékk ég 4 dvd diska, East Iceland, en á honum er video kynning, ljósmyndagallerí, kort af merkum stöðum og "online service finder".

Eins og þeir vita sem fylgjast með veðurfréttum, þá gekk yfir í nótt og morgunn, austan slagviðri á Austurlandi eftir mjög svo hlýtt og notalegt veður undanfarna dag. Það er vissulega gott að fá vætuna, því gróður er víða farinn að láta á sjá eftir eitt þurrasta sumar sem ég man eftir, en rokið mátti alveg missa sín.

Þegar á Seyðisfjörð var komið laust eftir hádegið í dag, en skipið átti að leggjast að bryggju um eitt leitið, var ekkert skip að sjá í firðinum. Ég fór inn í upplýsingamiðstöð ferðamanna sem er við bryggjuna og var mér tjáð að skipið hefði hætt við heimsóknina á Seyðisfjörð vegna veðurs og það siglt út úr firðinum nokkrum mínútum áður en mig bar að garði og var stefna þess sett á Akureyri.

Mér datt þá í hug að nú vantaði Austfirðinga mann eins og Ómar Ragnarsson, en hann fullyrti í bloggi sínu um daginn að hægt væri að selja ferðamönnum rokið á Íslandi.

En þar sem við eigum engan Ómar hér eystra, þá sneru 4 leigubílar tómir heim á leið.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband