Lieutenant John E. Bradbury

Lieutenant John E. Bradbury var ekki nema 21 árs gamall. Hann var bráðþroska og harðger og tók ábyrgð sína sem lieutenant í konunglega breska hernum alvarlega. Foreldrar hans heima í Englandi treystu syni sínum fullkomlega og voru í raun fegin að drengurinn þeirra var ekki á vígvelli einhvers staðar, heldur í skjóli austfirskra fjalla norður undir heimsskautsbaug í tiltölulega öruggri fjarlægð frá stríðstólum nasista.

Reyðarfjörður, en þar var J. E. Bradbury staðsettur veturinn 1941-42, var þriðja stærsta herstöð Breta í landinu á stríðsárunum, á eftir Reykjavík og Akureyri. Hátt í 3 þús. hermenn bjuggu í braggahverfum í og við þorpið Búðareyri, sem Reyðarfjörður hét þá. Íbúarnir voru ekki nema um 350.

Það var lítið við að vera fyrir tápmikla erlenda dáta á Reyðarfirði á þessum tíma og voru æfingar tengdar vopnaburði og einnig líkams og agaæfingar taldar til dægrastyttingar frekar en hitt. Þó höfðu margir Bretar persónuleg samskipti við íbúana og mörg heimili drýgðu tekjurnar með þvottum af setuliðsmönnum.

Norðmenn og Kanadamenn höfðu fasta viðveru með flugsveitir sínar á Reyðarfirði lengi vel og einn af flugmönnum norskrar sveitar á Reyðarfirði um tíma átti kærustu í Reykjavík sem hann kynntist þegar flugsveit hans hafði bækistöð í Skerjafirðinum. Þessi ungi og myndarlegi norski flugmaður hét Oswald Heggeseth og kærastan hans varð síðar eiginkona hans, Frú Geirlaug Heggeseth og flutti hún með eiginmanni sínum til Noregs að stríðinu loknu. Geirlaug (Einarsdóttir) Heggeseth er föðursystir undirritaðs og lifir hún mann sinn í hárri elli ásamt stórum ættboga í Noregi. 

 Þegar Ameríkaninn tók við hersetunni síðar þá breyttist samskiptamunstrið milli heimamanna og setuliðsmanna á Reyðarfirði og víðar að vissu marki. Kaninn var meira sjálfum sér nægur, aðbúnaður og aðföng öll voru ríkulegri og fjarlægð þjóðarsálar Íslendinga og Bandaríkjamanna fyrir miðja síðustu öld var e.t.v.  meiri en á milli Íslendinga og Breta. Samskiptin urðu ekki eins persónuleg. E.t.v. hefur ekkert breyst, yfirborðskennt en alúðlegt viðmót Kanans á móti kaldranalegu, tortryggnisviðmóti okkar Evrópumanna.

Örlagadagurinn 20. janúar 1942 rann upp bjartur og fagur miðað við árstíma. Þó voru blikur á lofti og þegar Íslendingur einn heyrði deginum áður að meiningin væri að fara með 60 manna herflokk í göngutúr til Eskifjarðar, upp Svínadal frá Reyðarfirði og um Hrævarskörð, þá varaði hann yfirmann herflokksins við og sagði að allra veðra væri von og hermennirnir ungu væru ekki rétt útbúnir fyrir íslenskar heiðar í vetrarham. Ekki var hlustað á þessi varnaðarorð og lagt af stað í birtingu. Leiðin er um 10 km löng ef farið er um Hrævarskörð, en þau eru brött og reyndist ísing í þeim það mikil að herflokkurinn varð frá að hverfa. En í stað þess að snúa heim á leið og hætta við förina þá var tekin sú örlagaríka ákvörðun að halda áfram upp Svínadal í átt til Héraðs og um Tungudal sem liggur til Eskifjarðar. Þessi leið er um 5 km lengri en upphaflega leiðin og um þunga heiðarmóa að fara.

 "Dagurinn er stuttur á Íslandi í janúar. Þegar búið var að ganga snarbratta urðina upp á Eskifjarðarheiði voru flestir orðnir uppgefnir, skollið á myrkur og foráttuvatnsveður með roki. Þarna hefjast þrautir þessara manna fyrir alvöru, engir vegvísar eða götuslóðar, ótal lækir og sívaxandi ársprænur, en samt komst hópurinn yfir heiðina".(Saga Reyðarfjarðar 1883-2003, bls. 262-63, Guðm. Magnússon.)

Að lokum er svo komið að ár eru orðnar illfærar, orðnar grýttar og straumharðar. Þar fótbrotnar Bradbury hinn ungi lieutenant. Þrátt fyrir meiðsli sín tekst honum þó að skreiðast aðeins lengra, að Ytri Steinsá. Þar er hlúð að honum, en hópurinn heldur áfram og nú verður hver og einn að bjarga sér út  dalinn í átt til Eskifjarðar.

Á bænum næst heiðinni, í Vesturhúsum,  átti engin von á þeim ósköpum sem um það bil voru að dynja yfir. 002Páll Magnússon, bóndi í Vesturhúsum var nýkominn heim, dauðþreyttur eftir viku törn við kolavinnu á Eskifirði, en einhverra hluta vegna vaknaði hann nýsofnaður, sennileg til að gæta útihúsanna í óveðrinu. En hver svo sem ástæðan var að Páll Magnússon reis úr rekkju nýsofnaður, þá varð það til þess að fjölda kornungra hermanna úr konunglega breska hernum var bjargað á síðustu stundu, en því miður barst björgunin of seint fyrir 8 unga menn úr þessum 60 manna flokki. Á myndinni hér til hægri eru bræðurnir frá Vesturhúsum, þeir Páll og Magnús Pálssynir.

 Á heimatúninu fyrir framan bæinn fann Páll fyrsta hermanninn skríðandi og ósjálfbjarga. Í framhaldi þeirrar gæfu hermannsins að Páll fann hann, hófst nótt, sem enn er martröð í endurminningunni. Alla nóttina dröslaðist heimafólkið með uppgefna, klæðalitla og ruglaða menn í húsaskjól í litla kotið í Vesturhúsum. Olíuluktir voru settar í glugga til að vísa mönnum veginn og þegar Páll labaði út í regnið og myrkrið með ljóstýruna sína, þá fannst honum hann heyra hróp og angistarköll úr öllum áttum. Ljósin í gluggunum vísuðu mörgum veginn í átt að húsinu, en sumir komust aðeins í túnfótinn, þá var þrekið búið.

Þegar birta tók af degi kom lið utan af Eskifirði til leitar. Þá fannst John E. Bradbury sitjandi uppi við, örendur við sakleysislegan læk, aðeins nokkur hundruð metrum frá öruggu skjóli í Vesturhúsum. Félagar hans báru vitni um að hann hefði kvatt félaga sína til dáða fram á síðustu stundu.

043

Ég var að skoða kirkjugarðinn á melnum í blíðviðrinu í fyrrardag og þegar ég horfði yfir 9 leiði þeirra bresku pilta sem þar hvíla í snyrtilegri röð, fór ég að velta fyrir mér örlögum þeirra.

056

Leiðin eru alls 9 en 8 Englendingar dóu á Eskifjarðarheiði aðfararnótt 21. janúar 1942. 9. leiðið er Kanadamaður sem varð fyrir voðaskoti á Reyðarfirði. Yngsta fórnarlamb þessa hörmulega atburðar var John E. Bradbury, Lieutenantinn ungi sem getið er í upphafi en hann er talinn hafa bjargað lífi einhverra félaga sinna með dugnaði og kjarki, en reyndist svo í blálokin þrotinn að kröftum. Félagar John Bradbury voru flestir ungir að árum, 22ja - 23ja ára, sá elsti 32 ára.

054

Foreldrar John E. Bradbury hafa látið letra eftirmæli á legstein hans. Þau einu sem það hafa gert.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnfinnur Bragason

Nú klukka ég þig kallinn

Arnfinnur Bragason, 12.7.2007 kl. 20:36

2 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Takk fyrir þennan frábæra fróðleik og vel unna færslu.

Ég er nú svo fattlaus að ég veit ekki hvað þetta "klukk" er - ég hef fengið svona fenómen en ekki vitað hvernig bregðast á við "klukki" eða hvað þetta "klukk" er - er þetta einhversonar vægt "keðjubréf"? = Ef þú sendir þetta ekki áfram muntu aldrei aftur .....osf......?

Ásgeir Rúnar Helgason, 12.7.2007 kl. 20:51

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þetta var meiriháttar fróðleikur og hafðu bestu þakkir fyrir.

Jóhann Elíasson, 12.7.2007 kl. 22:05

4 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Skemmtileg lesning. 

Fyrrverandi tengdafaðir minn, heitinn, sagði mér margar sögur af hersetu Breta í Borgarnesi.  Hann varð mikill vinur þeirra og gerði fyrir þá ýmis viðvik sem hann fékk svo greitt fyrir í tóbaki og tyggjói sem hann síðan seldi aftur....... mikill bisnessmaður, þá aðeins strákpolli.  Hann gekk m.a. svo langt að leigja þeim litla bróður sinn sem honum hafði verið falið að passa.  Bretarnir voru fjarri heimkynnum sínum og styttu sér stundir við að leika við þann litla.   

Anna Einarsdóttir, 12.7.2007 kl. 23:03

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Er ekki þetta "klukk" þannig að nú verð ég að segja frá einhverjum 10 atriðum í mínu lífi sem ekki eru á allra vitorði?

Gunnar Th. Gunnarsson, 13.7.2007 kl. 14:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband