Árið 1988 kom út bók sem hét íslenskir nasistar. Höfundar bókarinnar eru bræðurnir Hrafn og Illugi Jökulssynir. Eftir seinni heimsstyrjöldina týndust þessir sem aðhyllst höfðu nasistahugsjónina og flögguðu að sjálfsögðu ekki fortíð sinni, sérstaklega eftir að voðaverk nasista í Þýskalandi urðu öllum kunn. Þjóðernishreyfing Íslendinga (ÞHÍ) var stofnuð árið 1933. ÞHÍ var sett saman úr tveimur andstæðum öflum: annars vegar óánægðum sjálfstæðis- og framsóknarmönnum og hins vegar ungum mönnum, sem smitast höfðu af þýska nasismanum. Eftir að margt hafði gengið á, klofnaði hreyfingin og eftir stóð Flokkur þjóðernissinna sem ekki varð langra lífdaga auðið.
Fróðlegt væri að sjá samantekt um sögu íslenskra kommúnista. Þar er um mun auðugri garð að gresja en um sögu nasista. Hér hafa starfað fjölmargar fylkingar kommúnista og saga þeirra er merkileg. Skrifuð hafa verið ótal sagnfræðirit og greinar af ýmsum fræðimönnum um kommúnistahreyfingar á Íslandi, en ekki svo mér sé kunnugt um, heilstætt verk, ekki sagan öll.
Hugsanlegt er að margir sem störfuðu innan hinna ýmsu flokksbrota sem kenndu sig við kommúnisma/sósíalisma séu tregir til að upplýsa náið um fortíð sína og þvi yrði þetta eflaust krefjandi og tímafrekt verkefni. Þó eru einnig til margir sem standa keikir og iðrast einskis og ekki að sjá að þeir hafi skipt um skoðun enn þann dag í dag, en hvort söguskýring þeirra á liðnum atburðum sé trúverðug er annað mál, en fróðleg engu að síður.
Nokkur gróska var í kommúnistaflokkum á Íslandi um og upp úr 1970. Gefin voru út blöð og man ég í svipinn eftir tveimur, Neistinn (Fylkingin) og Stéttarbaráttan (KSML). Nokkrum árum síðar eða í kringum 1980 voru stofnuð Baráttusamtök fyrir stofnun kommúnistaflokks, BSK, sem einnig gaf út blað og var Þorvaldur Þorvaldsson, fyrv. form. Trésmiðaf. Rvk. og síðar félagi í Alþýðubandalaginu sáluga og nú VG, potturinn og pannan í þeim félagsskap. Bsk var þó örugglega fámennasta kommúnistahreyfingin á þessum árum. Sjálfur var ég félagi í þeim samtökum um tíma og upplifði það aprílnótt eina að vera handtekinn af lögreglunni og færður á lögreglustöðina í Tryggvagötu fyrir að líma upp áróðursplagöt í miðbænum, en glæpurinn var nú bara sá að við vorum að auglýsa 1. maí fundinn okkar á Hótel Borg. Forystumenn Bsk vildu endilega gera þetta í skjóli nætur og það held ég að hafi verið aðalástæða þess að lögreglan handtók okkur og tók af okkur skýrslu. Ég man að okkur þótti þetta voðalega spennandi, unglingunum að laumast um með pensil og límdollu og hengja þetta upp sen víðast.
Árið 1974 tóku Fylkingin og Kommúnistasamtökin KSML (Kommúnistasamtök Marxista-Lenínista) þátt í kosningum til Alþingis en fylgið var lítið sem ekkert. Fylkingin fékk 200 atkvæði og 121 kjósandi studdi Kommúnistasamtökin. Félagar innan þessara samtaka tóku hlutverk sín mis-alvarlega en í Mánudagsblaðinu sagði eftir kosningarnar 1974, þegar KSML hafði lýst markmiðum sínum og stefnu í fjölmiðlum; "Nú er orðið altalað að svokallaðir marx-lenínistar hafi viðað að sér ýmsum skotvopnum í von um þá blóðugu byltingu sem þeir hótuðu að yrði innan skamms". Einnig bættust við á þessum árum Einingasatök kommúnista (marx-lenínista), en þar var fremstur í flokki Ari Trausti Guðmundsson sem áður hafði verið í Fylkingunni." Eikarar" eins og þeir voru kallaðir, litu gjarnan til Mao, hins kínverska leiðtoga alþýðulýðveldisins í austri, eða a.m.k. gerði Ari Trausti það.
Saga þessara hreyfinga á Íslandi á þessum árum (og reyndar frá upphafi kommúnistasamtaka á Íslandi á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar) er stráð óeiningu og átökum um túlkun fræðikenninga og tortryggni í garðs hvers anars. Þegar KSML klofnaði í tvær hreyfingar 1974, þá var það altalað meðal félaga í þessum hreyfingum yst á vinstri væng stjórnmálanna, að lögreglan hleraði síma forystumannanna þegar einhver mótmæli stóðu fyrir dyrum, sérstaklega þegar erlendir þjóðhöfðingjar voru væntanlegir hingað til lands. En þegar nýjir félagar gengu til liðs við einhverja fylkinguna, grunaði forystumenn hópanna frekar að hinir nýju félagar væru útsendarar andstæðingsins á vetfangi stéttarbaráttunnar heldur en þeir væru flugumenn á vegum lögreglunar. Það hafði þó gerst hjá Fylkingunni einhverntíma að upp komst um slíkan njósnara, sem lak í lögregluna ýmsum upplýsingum. Í gögnum Fylkingarinnar er að finna tvö skjöl varðandi einhverskonar "réttarhöld" yfir njósnaranum. Engin eftirmál urðu út af þessari uppljóstrun og félaginn fékk að vera áfram í samtökunum!
Flestir þessara róttæku kommúnista enduðu í Alþýðubandalginu og síðar í V-grænum, og hafa ber í huga þegar vinstrimenn tala um sameiningu jafnaðarmanna, að þá eru þeir jafnframt að tala um fólk sem er sprottið úr þessum jarðvegi. Fólk sem ekki sér ástæðu til að gera upp þessa tíma, hvorki fyrir sjáfum sér né öðrum. Svo virðist sem nokkuð stór hluti þeirra eigi enga samleið með jafnaðarmannaflokki á skandinavíska vísu, til þess eru þeir of fastir fræðikenningunum. Sovéttengsl íslenskra sósíalista eru þekkt og einhver fjárstuðningur rann til Alþýðubandalagsins á fyrstu árum þess en fjaraði fljótlega út. Á seinni hluta sjöunda áratugar síðustu aldar dró mjög úr fjarstuðningnum frá Moskvu og þær upphæðir sem vitað er um með vissu runnu ekki til Alþýðubandalagsins, heldur til Máls og menningar (tvær greiðslur) og Kristins E. Andréssonar sem eftirlaunagreiðsla vegna starfa í þágu hinnar alþjóðlegu hreyfingar kommúnista. Eftir hrun Sovétríkjanna fundust gögn í Moskvu um fégjafir til norrænna sósíalista og kommúnistaflokka árin 1968-1990 en Íslands var þar hvergi getið. En róttæk kommúnistasamtök á áttunda áratugnum afneituðu með öllu tengslum við Sovétríkin og fordæmdu flest sem þaðan kom eftir að Stalin tók þar við völdum, en þó ekki allir. Bsk menn dýrkuðu og dáðu fjöldamorðingjan og sögðu að þessar sögusagnir um Stalín væru ýkjur. Vissulega viðurkenndu þeir að einhverjar hreinsanir hefðu átt sér stað, en þær voru réttlætanlegar vegna þess að tilvist Ráðstjórnarríkjanna lá undir og ásælni heims og auðvaldssinnanna í vestri var lævís og lúmsk. Einnig er athyglisvert að forystumenn Bsk litu til Albaníu, pólitískt einangraðasta lands Evrópu og þó víðar væri leitað, sem fyrirmyndarríkis og einræðisherrann Enver Hoxa var nánast í guðatölu. Þegar járntjaldið féll kom auðvitað í ljós, sem reyndar flestir vissu, að Hoxa var ekkert annað en ótíndur glæpamaður sem lifði í vellystingum pragtuglega á meðan þegnar hans liðu sáran skort.
En þetta var nú svo sem útúrdúr og upphaflega hugmyndin með þessum pistli var að vekja máls á því og kvetja einhvern sagnfræðing til þess að gera einhverskonar heildarúttekt á íslenskum kommúnistum. Um tæmandi úttekt verður auðvitað aldrei að ræða. Ég hef verið að prófa að slá inn stikkorð í leitarvélar á netinu um þessi mál en ekki haft mikið upp úr krafsinu. Ég veit að bloggvinur minn Pétur Tyrfingsson er hafsjór af fróðleik um þessi mál enda félagi í Fylkingunni til margra ára. En þó hann sé beittur og skemmtilegur penni, er ég ekki viss um að hann sé rétti maðurinn til að bera ábyrgð á sagnfræðilegri úttekt á þessum málum, en holt væri hverjum sem er að leita til hans.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 3
- Sl. sólarhring: 11
- Sl. viku: 56
- Frá upphafi: 946008
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 51
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Sakamál
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Skoðanakannanir
- Spaugilegt
- Stjórnmál og samfélag
- stóriðja og virkjanir
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Tónlistarspilari
Nýjustu færslurnar
- Nú tekur alvaran við.
- Ranghugmynd dagsins - 20241222
- Vantraust á eigin þingflokk?
- Og illþýði allskonar á flökti um mannheima
- Snjólag í Reykjavík um jól og áramót frá 1921
- Nokkur hundruð milljarðar út um gluggann
- Áfram haukur í utanríkisráðuneytinu
- Níundi áratugurinn leysti vandamál, þeir fyrstu á 21. öldinni bjuggu þau til
- Karlar sem brjóstfæða & pólitískar ofsóknir ...
- Pólitískar vendingar með hækkandi sól
Athugasemdir
Heill og sæll, Gunnar Th. !
Þrátt fyrir útkomu bóka, um hinar ágætu stjórnmálastefnur; nazisma og kommúnisma, sárvantar enn, í bókaflóruna gott uppsláttarrit; um hið illa afl, kapítalismann, hver gengur út á allsherjar sóðaskapinn, í veröldinni, nú um stundir, ekki hvað sízt hérlendis, enda þjóðleg gildi og hefðir fótum troðin, til dýrðar og undirlægjuskapar alþjóðasinnanna; Gunnar minn.
Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi /
Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 00:45
Jahá Óskar og takk fyrir innlitið. Hver ætti nú að skrifa þá biblíu?
Gunnar Th. Gunnarsson, 16.5.2007 kl. 00:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.