Hugmyndafræðingur VG hefur talað

Hjörleifur Guttormsson, hugmyndafræðingur Vinstri grænna, tekur upp hanskann fyrir Kolbrúnu Halldórsdóttur og vill að Drekasvæðið verði friðlýst. Haninn hefur galað tvisvar og formaðurinn Steingrímur hefur afneitað einu sinni.

kolbrún2


mbl.is Hlýnunin felur í sér tækifæri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Manni verður nú bara óglatt, hugsa sér ef þetta par myndi nú eignast afkvæmi???

Ragnar Örn Eiríksson (IP-tala skráð) 30.4.2009 kl. 03:22

2 Smámynd: Hjörleifur Guttormsson

Norður-Íshafið, olíuvinnsla og Drekasvæðið

 Eftirfarandi grein skrifaði ég og birti í blöðum í janúar 2009. Hún er aðgengileg á heimasíðu minni.

Stærsta ógn sem mannkynið stendur frammi fyrir tengist loftslagsbreytingum í kjölfar sívaxandi framleiðslu af jarðefnaeldsneyti, olíu, jarðgasi og kolum. Hér vegast á andstæð og ósamrýmanleg markmið sem reyna munu á alþjóðasamfélagið meira en flest annað á næstunni, reiknað í árum og áratugum. Alþjóðaorkumálastofnunin (IEA) gerir ráð fyrir allt að 50% aukningu í orkunotkun fram til árins 2030 og að langmestur hluti hennar verði að koma frá kolefnisríkum jarðefnum með tilheyrandi gróðurhúsaáhrifum. Á sama tíma hafa mörg iðnríki, þar á meðal Evrópusambandið, sett sér það markmið að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 20% fram til ársins 2020 og um 50% eða meira um miðja þessa öld. Er það talið forsenda þess að stöðva hlýnun andrúmsloftsins við 2°C hækkun meðalhita.  Fáir hafa trú á að með því sé nóg að gert eins og nú horfir um stigvaxandi hlýnun að mati þorra loftslagsfræðinga. Mjög er nú horft til Norður-Íshafsins í þessu samhengi en olíuvinnsla þar getur skilið á milli feigs og ófeigs.
           
Banvænt samhengi

Hafísbreiður á Norður-Íshafi minnka nú ár frá ári vegna hlýnunar og áætlar Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna að heimsskautsísinn verði með sama áframhaldi horfinn árið 2040. Brotthvarf íssins sem nú endurkastar sólgeislun veldur hraðari hlýnun en ella og aukningin mælist nú meiri á norðurslóðum en sunnar á hnettinum. Við hlýnun losnar metangas (mýragas) úr jarðlögum þar sem áður var sífreri en það er 20 sinnum virkari gróðurhúsalofttegund en koldíoxíð. Af því er gífurlegt magn nú bundið í freðmýrum og hafsbotnslögum. Losun á metangasi fylgir enn aukin hlýnun og þannig stigmögnun sem veldur því að enn meira berst af metan í andrúmsloftið. Með hlýnun hafsins á norðurslóðum tekur metan líka að losna úr jarðlögum undir hafsbotni, eins og sýnt var fram á við rannsóknir norðan Síberíu sl. haust.

Yfir fimmtungur olíuforðans í Norður-Íshafi

Bandaríska jarðvísindastofnunin áætlar að 22% af óþekktum olíu- og gaslindum sé fólgið á norðurskautssvæðinu og með bráðnun íbreiðunnar þar geta þær orðið aðgengilegar til nýtingar. Ríkin sem telja sig eiga rétt á þessu stóra svæði samkvæmt hafréttarsáttmálanum eru öll í startholunum að undirbúa og hefja þar olíuvinnslu. Um er að ræða Bandaríkin, Kanada, Rússland, Noreg og Danmörku, það síðastnefnda með yfirráðum sínum yfir Grænlandi. Þar með er jafnframt Evrópusambandið með í leiknum, en framkvæmdastjórn þess segir sambandið þess fýsandi að hefja olíuvinnslu í Íshafinu. Ísland hefur nú slegist í þennan hóp ef marka má orð Össurar iðnaðarráðherra sem sagði m.a. er hann mælti á Alþingi 21. nóvember sl. fyrir lagafrumvarpi um svonefnda kolvetnastarfsemi: „Það er eðlilegt að menn hafi væntingar til þess [þ.e. vinnslu olíu og gass]. Um töluvert langt skeið hafa vísbendingar gefið til kynna að á þessu svæði, og reyndar á svæði sem teygir sig áfram inn í norsku lögsöguna Jan Mayen megin, að í jarðlögum töluvert djúpt undir hafsbotni kunni að vera að finna verulegt magn af kolvetnisauðlindum, bæði olíu og gasi.“

Stefnir hraðfara í óefni

Hvað sem hugsanlegum olíugróða líður hljótum við að spyrja hvort rétt sé að Íslendingar sláist með í þessa feigðarför. Áframhaldandi aukning í notkun jarðefnaorkugjafa leiðir af sér óbærilega hlýnun á jörðinni með þeirri geigvænlegu röskun sem henni fylgir fyrir lífríki jarðar, veður, hafstrauma og sjávarborð. Viðfangsefnið ætti því að vera að takmarka með öllum tiltækum ráðum vaxandi notkun jarðefnaeldsneytis sem orkugjafa og draga úr henni stig af stigi til að koma böndum á loftslagsbreytingarnar. Alveg sérstaklega á þetta við norðurheimsskautssvæðið sem hefur að mestu sloppið við olíuvinnslu hingað til. Í þessum efnum má engan tíma missa. Ætli heimsskautsríkin
fimm sér í alvöru að minnka losun gróðurhúsalofts um fimmtung fram til 2020 þurfa þau að draga mikið úr notkun á olíu, kolum og gasi. Skilvirkasta einstaka leiðin að því marki er að láta óhreyfðar þær kolvetnalindir sem kann að vera að finna á norðurslóðum.

Ísland og verndun norðurslóða

Ég hef ekki orðið var við neitt frumkvæði undanfarið af Íslands hálfu til að stemma stigu við háskalegri hlýnun á norðurslóðum. Fáir eiga þó jafn mikið undir að ekki hefjist kapphlaupið sem þar stefnir í með olíu- og gasvinnslu. Því ber að setja stórt spurningarmerki við þau áform sem iðnaðarráðherra og Samfylkingin nú boða um olíuvinnslu á Drekasvæðinu ef kolvetnaleit ber þar árangur. Framtíðarhagsmunir okkar sem þjóðar felast í verndun norðurslóða fyrir mengun og að hlýnun fari þar ekki úr böndunum. Því ætti Ísland að beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi að öll áform um olíu- og gasvinnslu í Norður-Íshafi verði stöðvuð og alþjóðlegt samkomulag verði gert um verndun þessa svæðis í líkingu við það sem í gildi er umhverfis suðurheimsskautið.

 

Hjörleifur Guttormsson, 30.4.2009 kl. 06:22

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Það standast fáir Hjörleifi snúning í rökræðunni í hnattfræðilegu samhengi, jafnvel þó menn teygðu hana eitthvað út fyrir sólkerfið. 

En ég spái því að þó haninn gali þrisvar, þá þurfi kosningar til að Steingrímur afneiti tvisvar.

Magnús Sigurðsson, 30.4.2009 kl. 08:31

4 identicon

Eru menn búnir að gleyma því að á þeim tíma sem Hjörleifur Guttormsson var Iðnaðarráherra, þá lét hann virkja Blöndu án þess að hafa kaupanda að orkunni og sökkti heiðalöndum undir lón, ríkið varð að greiða miklar bætur fyrir.

Svo er þessi postuli að koma með siðfræði í orkumálum.

Maður líttu þér nær. 

Arnar Ívar Sigurbjörnsson (IP-tala skráð) 30.4.2009 kl. 08:52

5 Smámynd: Muddur

Við erum 300 þúsund hræður í ballarhafi og heimsbyggðin lítur á okkur sem hrokafulla frekjuhunda, sem fóru á fyllerí á annarra kostnað og viljum á engan hátt borga fyrir það. Hver fer að hlusta á okkur hvort eð er? Sérstaklega í ljósi þess að þessi stóru ríki sem telja sig eiga tilkall til auðlinda í Norður Íshafi munu gera hvað þau geta til að nálgast þær, þá helst Rússar og Bandaríkjamenn. Þetta eru ríki sem hafa ítrekað neitað að framfylgja ýmsum sáttmálum sem eiga að draga úr mengun og hægja þannig á loftslagsbreytingum. Við breytum engu þar um með því að rífa okkur, því miður verðum við að horfast í augu við það að við höfum gjörsamlega engin áhrif á alþjóðavettvangi. Nema jú, við getum náð okkur í neikvæða athygli með því að veiða hvali og fara á hausinn á annarra kostnað.

Þannig að ef að við nýtum ekki þá olíu sem er að finna innan okkar lögsögu þá munu aðrar þjóðir finna leiðir til að ná henni, t.d. með framför í bortækni. Og ef svo fer að þessar olíulindir verða ekki nýttar, þá finnast aðrar olíuauðlindir í staðinn og einhver annar græðir. Á meðan munum við sitja hér heima skjálfandi úr kulda og banhungruð af því að hér má ekkert gera nema prjóna lopapeysur, týna fjallagrös og yrkja ljóð, skv. hugmyndafræði VG manna. Svo er enginn að tala um að þessari olíuvinnslu þurfi að fylgja mikil mengun. Það eru stöðugar tækniframfarir sem gera þessa vinnslu mun skilvirkari og minna mengandi og sömuleiðis er stór hluti olíu notuð í ýmsan iðnað frekar en sem eldsneyti á farartæki.

Muddur, 30.4.2009 kl. 09:15

6 Smámynd: Baldur Hermannsson

Hjörleifur var auðvitað einhver versti ráðherra sem sögur fara af og árum saman stóð hann í vegi fyrir eðlilegum samskiptum við eigendur álversins í Straumsvík. Þegar þjóðin loksins losnaði við Hjörleif var strax samið við álverið um hærra verð fyrir raforkuna. Hjörleifur tafði álframleiðslu á íslandi um áratug, var áætlað á sínum tíma. Hann er dýrasti og versti ráðherra Íslands.

Baldur Hermannsson, 30.4.2009 kl. 10:16

7 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Sú tímabundna hlýnun andrúms Jarðar sem hófst um 1970 stöðvaðist um 2000. Nú stendur yfir tímabil kólnunar, ekki hlýnunar. Þetta eru að minnsta kosti niðurstöður þeirra sem mæla og reikna út meðal-hita andrúms, þar á meðal þeirra sem rannsaka veðurfar sérstaklega fyrir IPCC (Intergovernmental Panel on Climate Change).

Það er einnig fráleitt að halda því fram, að lífsandinn (CO2) hafi valdið hlýnunarskeiðinu. Þeir sem halda slíku fram eru ekki í neinu sambandi við rökhugsun. Hins vegar ef menn telja gróðurmagn Jarðar of mikið og þá matvælauppskeru of mikla, þá skulu þeir endilega berjast gegn brennslu jarðefna og öndun lífvera af öllu tagi.

Ásta Ragnheiður er ekki jafn vitlaus og af er látið, því að hún benti á að þótt olíu verði dælt upp á Drekasvæðinu, verður hún ekki brennd þar. Allt tal um skaðleg áhrif hugsanlegrar olíuvinnslu á Drekanum, er orðum aukið. Jafnframt þrengir olíuvinnslan ekkert að öðrum iðnaði í landinu, þótt farið verði að fráleitum kröfum um minnkun lífsanda í andrúminu.

Loftur Altice Þorsteinsson, 30.4.2009 kl. 11:19

8 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Það er þetta sem Loftur er að segja sem mig grunaði.  Ekki þarf annað en að lesa fornsögur til að átta sig á að til hafa verið hlýrri tímabil en nú gengur yfir.  Hverju brenndu menn þá?

Magnús Sigurðsson, 30.4.2009 kl. 13:26

9 Smámynd: Baldur Hermannsson

Veit ekki alveg hvað þú átt við Anna, en svo mikið er víst að það styttist í að jöklarnir verða alveg horfnir og þá verða árnar okkar ansi vatnslitlar og til lítils að virkja þær. Virkjum því hverja sprænu meðan þær gefa eitthvað af sér og reisum álver í hverri krummaskuð. Svo þegar vatnið er búið reisum við samruna-kjarnorkuver og þá mun oss vel vegna.

Baldur Hermannsson, 30.4.2009 kl. 22:11

10 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Ég verð að játa eins og Baldur, að ég skil ekki hvað þú meinar Anna.

Mig langar samt að segja, að varla er hægt að búast við mikilli breytingu á úrkomu á landinu, á komandi árum. Þetta þýðir að árlegt heildarmagn vatnsrennslis verður svipað.

Hins vegar tekur tíma fyrir jöklana að aðlagast þeirri hlýnun sem orðin er. Þess vegna munu þeir halda áfram að rýrna, nema kólnun veðurfars verði mjög snögg.

Það er mikilvægt að menn skilji þetta með aðlögun jöklanna, að núverandi hitastigi. Minnkun þeirra er EKKI merki um að veðurfar sé að hlýna núna.

Loftur Altice Þorsteinsson, 30.4.2009 kl. 22:40

11 Smámynd: Baldur Hermannsson

Loftur, ertu ekki sammála um að samruna-kjarnorkuverin séu orkulind framtíðarinnar?

Baldur Hermannsson, 30.4.2009 kl. 22:47

12 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég þakka umræður hérna og fyrir grein Hjörleifs sem er fróðleg. Þó eru í henni atriði sem ég er einfaldlega ósammála og finnst mér ályktanir Hjörleifs bera vott um ákveðna einfeldni.

Nokkrir punktar í athugasemd Mudds eru það sem ég vildi sagt hafa varðandi það að nýta ekki þessa möguleika okkar. Ef ekki við, þá ríkin sem Hjörleifur nefnir í grein sinni.

Gunnar Th. Gunnarsson, 30.4.2009 kl. 22:50

13 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Baldur, það eru vissulega margir sem telja að samruna-kjarnorkuverin séu orkulind framtíðarinnar. Beiting samruna til orkuframleiðslu er samt miklum erfiðleikum háð og ég hef ekki kynnt mér stöðuna í árafjöld. Þess vegna get ég ekki sagt að ég hafi skoðun á málinu.

Loftur Altice Þorsteinsson, 1.5.2009 kl. 00:10

14 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Varðandi það sem Baldur skrifaði þá er hér sögð önnur saga af hækkuðu raforkuverði til Alusuisse, tengd við "hækkun í hafi".

Pétur Þorleifsson , 1.5.2009 kl. 10:12

15 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Pétur, ef þú sérð eitthvað bitastætt í þessari gömlu langloku Steingríms, ættir þú að halda þeim bitum til sýnis.

Loftur Altice Þorsteinsson, 1.5.2009 kl. 10:21

16 Smámynd: Baldur Hermannsson

Loftur, hver kynslóð hefur verk að vinna og dáð að drýgja. Afrek þeirrar kynslóðar sem nú er að taka við í vísindunum verður að sigrast á vandamálum samruna-ofnanna. Mér skildist á grein sem ég las fyrir nokkru, að þeir væru komnir á break-even punktinn.

Baldur Hermannsson, 1.5.2009 kl. 10:41

17 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það verður ekki af Steingrími J. Sigfússyni skafið, að hann er stórskemmtilegur ræðumaður. Margt rétt sem hann segir en heildarmyndin sem hann dregur upp er bara röng. Og þar með stendur skemmtigildið eitt eftir í ræðu hans en mér vitanlega eru þingmenn ekki skemmtikraftar né fá laun fyrir það starf. Steingrímur ætti kannski að fara bara í skemmtibransan. Hann myndi örygglega gera það gott á þeim vettvangi.

Gunnar Th. Gunnarsson, 1.5.2009 kl. 11:31

18 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég var að vísa þarna í ræðu Steingríms sem Pétur Þorleifsson vísar í, í sinni athugasemd.

Gunnar Th. Gunnarsson, 1.5.2009 kl. 11:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband