Rannsóknarnefnd umferðarslysa

a1Á vef Rannsóknarnefndar umferðarslysa, rnu.is,  eru skýrslur um umferðarslys, m.a. banaslys í umferðinni undanfarin ár og þau má sjá HÉR . Ljósmyndir fylgja sumum þessara skýrslna af slysavettvangi og af ökutækjunum. Ég held að allir, sérstaklega ungir ökumenn, hefðu gott af því að skoða þessar skýrslur því þær hljóta að vekja fólk til umhugsunar um umferðaröryggismál.

Ég er verkefnisstjóri fyrir umferðarfræðslu í grunnskólum á Austurlandi og mitt hlutverk er að glæða lífi í umferðarfræðslu í skólunum með því t.d. að kynna fyrir kennurum aðgengilegt kennsluefni og verkefni fyrir skólakrakka á netinu. Í aðalnámskrá grunnskóla er kveðið á um að umferðarfræðsla skuli kennd í grunnskólum, en sá rammi sem ætlaður er til kennslunnar er knappur, því einungis er getið um að fræðslan skuli rúmast innan "lífsleikni" í námskránni. Möguleikarnir eru þó heilmiklir að útvíkka þennan ramma með því að samþætta umferðarfræðsluna við aðrar námsgreinar. Mjög góð síða í umferðarfræðslu er: http://umferd.is/

Hræðsluáróður hefur gjarnan á sér neikvæðan blæ en hann getur samt verið réttlætanlegur, sérstaklega þegar um líf eða dauða er að tefla. Slysin verða ekki aftur tekin og að benda ökumönnum á og lýsa alvarlegum umferðarslysum, þ.e. orsökum, afleiðingum og að benda á leiðir til úrbóta eins og gert er í þessum skýrslum, hlýtur að vekja fólk til umhugsunar og þá er hálfur sigur unninn.

Ég birti hér eina skýrsluna frá árinu 2005:

Banaslys 5.5.2005

Breiðholtsbraut við Víðidal

Útafakstur

Látin 19 ára kona

Tími dags: Morgunn

Lýsing á slysi

Ökumaður var á leið norð-austur Breiðholtsbraut en missti stjórn á bifreið í vinstri beygju. Skriðför eftir bifreiðina voru 16 metrar í malarkanti þar til bifreiðin fór upp vegrið við götuna og valt yfir það. Á þessum stað liggur reiðgata í undirgöngum frá hesthúsahverfi. Bifreiðin valt niður brekku en 5 metra hæðarmismunur er á Breiðholtsbraut og plani reiðstígsins við undirgöngin þar sem bifreiðin hafnaði. Ökumaður kastaðist út úr bifreiðinni við veltuna. Þar sem slysið varð er Breiðholtsbraut tveggja akreina gata með bundnu slitlagi og hámarkshraði 70 km/klst. Aðstæður til aksturs voru góðar þegar slysið varð, logn, sól, gott skyggni og auður vegur.

Ökutækið var fólksbifreið af gerðinni Nissan Primera. Bíltæknirannsókn á ökutækinu sem framkvæmd var af Fræðslumiðstöð bílgreina leiddi í ljós að orsök var ekki að rekja til ástands ökutækisins fyrir slysið. Engin merki voru um að sprungið hefði á hjólbarða eða bilun orðið í stýrisbúnaði. Bílbelti voru í ökutækinu en ökumaður notaði ekki bílbelti.

Orsakagreining

Ökumaður var undir áhrifum áfengis og lyfja umrætt sinn og telur
 Rannsóknarnefndin það meginorsök þess að ökumaður missti stjórn á ökutækinu.

Ökumaður hafði ekki réttindi til að aka bifreið.

Ökumaður notaði ekki bílbelti og kastaðist þess vegna út úr bifreiðinni.

Leiðari sem á að varna því að bílar fari útaf við reiðstíginn var of stuttur að mati Rannsóknarnefndarinnar auk þess sem nefndin gerir athugasemd við endafrágang eiðarans. Meginorsakir slyssins verða þó ekki raktar til vegar eða umhverfis hans.

 

Tillögur í öryggisátt.

1. Rannsóknarnefndin ítrekar mikilvægi þess að ökumenn og farþegar noti bílbelti. Telur Rannsóknarnefndin líklegt að ökumaður hefði lifað slysið af hefði hann notað bílbelti. Eru mjög mörg dæmi um slíkt á liðnum árum.

2. Lengd vegriðs og frágangur enda þess er ekki fullnægjandi. Vegriðið er of stutt og varnaði því ekki að ökutækið færi útaf. Þá er endi vegriðsins beygður niður í jörð í akstursstefnu ökutækja og er hættan sú að ökutæki fari upp vegriðið og hvolfi yfir það. Í umfjöllun um annað banaslys sem varð 20.11.2005 er nánar sagt frá tillögu nefndarinnar í öryggisátt vegna þessa og bréfi til Vegagerðarinnar um það efni.

Ég hvet fólk til þess að skoða þessar skýrslur.


mbl.is Fjórir af 11 ekki í bílbeltum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakkir til þín -

þessar skýrslur og reyndar fleiri eru nokkuð sem þyrfti með einhverjum hætti að kynna vel. Sem Varaformaður Snigla hef ég ásamt félögum mínum reynt að fá fjölmiðla til þess að vinna með okkur að jákvæðum áróðri en vægast sagt lítið orðið ágengt.

Viðbrögð þeirra eru gjarnan - slys er frétt -

Gott og vel - er það ekki frétt þegar 1200 bifhjól (særsta hópkeyrsla sem átt hefur sér stað hérlendis eftir því sem ég best veit) taka þátt í hópkeyrslu með um 1500 þátttakendum?

Ólafur I Hrólfsson

Ólafur I Hrólfsson (IP-tala skráð) 30.12.2008 kl. 11:41

2 identicon

Gleðileg jól Gunnar :) ég var að lesa þessa skýrslu og finnst alveg ótrúlegt að þú notir akkurat þessa skýrslu þar sem þessi stúlka var vinkona dóttur minnar!!  Hræðilegt slys sorglegt og ömurlegt í alla staði

 Bestu kveðjur og gleðilegt ár

Harpa (IP-tala skráð) 30.12.2008 kl. 17:42

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Takk fyrir Ólafur, öll umræða um umferðarmál er af hinu góða.

Harpa, ég samhryggist ykkur mæðgum. Það er aldrei auðvelt fyrir aðstandendur fórnarlamba umferðarslysa að sjá þau rifjuð upp. Ein fyrirhafnarlaus og nokkurra sekúndna aðgerð, að spenna beltið, getur skipt öllu máli.

Gunnar Th. Gunnarsson, 30.12.2008 kl. 18:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband