Erpur

erpur2

Æ... er ég orðinn svona helv gamall að láta þennan krakkabjána fara í taugarnar á mér?

Ég hef heyrt því fleygt að drengurinn sé hinn ljúfasti dags daglega í allri umgengni og þá er atferli hans í sjónvarpi væntanlega einhverskonar markaðshugmynd, svipað og Silvía Nótt. Silvía virkaði ágætlega á mig og Ágústa Eva lagði líka töluvert í þann karakter en Erpur gerir út á heimsku, dónaskap, fordóma og ósmekklegt háð í garð þeirra sem hann telur sig yfirhafinn. Reyndar svipuð formúla og hjá Ágústu Evu en samt er himinn og haf á milli þeirra. Erpur leikur þetta kannski bara svona vel að honum hefur tekist að blekkja mig í mörg ár. Erpur virðist hafa ívið meira sjálfstraust til þess að hæðast að og lítillækka kvenfólk og samkynhneigða karlmenn. Einhver kallaði það væntanlega hommafóbíu.

Ég hef slysast til að sjá brot úr þætti hans á Zirkus og efnið væri áhugavert ef þáttastjórnandinn þroskaðist um, þó ekki væri nema svona 5-10 ár. Í kvöld sá ég Erp taka þrjú viðtöl við tónlistarfólk: Bjartmar Guðlaugsson, Birgittu Haukdal og hljómsveitina Rökkurró. Einhverjir muna sjálfsagt eftir eineltinu sem Birgitta varð fyrir af hálfu Erps og félaga hans í hljómsveitinni Hælbítunum (Rottweilerhundunum) en þeir félagar fengu útrás fyrir listsköpun sína með textum og takti. Birgitta stóð sig eins og hetja í þessari pínlegu uppákomu og ef Erpur þroskast einhverntíma þá mun hann eflaust skammast sín fyrir frammistöðu sína í viðtalinu. Í viðtalinu við fólkið í Rökkurró var Erpi hugleikið hversu ung þau væru og gerði bílprófsmál þeirra síendurtekið að einhverju aðalatriði. Viðmót hans við Bjartmar var á öðrum nótum og greinilegt að svallkennd ævi og sukkaralegt útlit Bjartmars gerði gamla trúbadorinn að mikilmenni í augum spyrjandans.

Hvorki hef ég séð né heyrt flæða úr Erpi neina sérstaka listræna hæfileika og er mér því með öllu óskiljanleg sú athygli sem drengurinn fær á öldum ljósvakans. Og ekki hefur hann útlitið með sér. Nærvera hans í þáttunum "Laugardagslögin" gerir þáttinn lakari fyrir bragðið og mátti hann nú varla við því. Vandséð er hvaða hlutverki Erpur á að gegna í þættinum. Er það kannski það að haga sér eins og leiðinlegur og þreytandi 16 ára unglingur sem mótþróinn og gelgjan er alveg að drepa? 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband