Stóreygður og sagði "Katastrofa"

Ég fór laust eftir hádegið til Neskaupsstaðar til þess að sækja Pólverja á Sjúkrahúsið fyrir Bechtel á Reyðarfirði. Þegar ég kom í "Skarðið", eins og heimamenn kalla veginn yfir Oddsskarð, þá voru fólksbílar fastir neðan við göngin í skafrenningnum sem var nýskollinn á. Mér leist ekki á blikuna á mínum eins drifs bíl og hringdi því til þess að athuga hvort ég gæti fengið jeppa lánaðan. Það var auðsótt mál og ég sneri því við og náði í hann inn á Reyðarfjörð.

Þegar ég kom aftur í skarðið hafði vind hert enn meir og voru hviðurnar komnar í 26 metra. Ferðin gekk þó vel yfir og þegar Pólverjinn var kominn inn í bílinn hjá mér þá spurði ég hann á ensku hvort hann hefði nokkuð verið orðinn leiður á því að bíða. Hann svaraði glaðlegur á svipinn "yes, yes". Þá spurði ég hann hve lengi hann væri búinn að vera á spítalanum og aftur svaraði hann glaðlegur sem fyrr " yes,yes". Meira fór nú ekki fyrir samræðum okkar á leiðinni.   

Í skarðinu var kominn svartabylur þegar við komum upp í bakaleiðinni og þurfti ég að stöðva bílinn nokkrum sinnum, því ég sá bókstaflega ekki neitt. Nefið á Pólverjanum var nánast klesst við framrúðuna þegar hann rýndi út í sortann og sagði stóreygður með djúpri áherslu; "Katastrofa".

 

 


mbl.is Búist við stormi fram á nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Pointið var ekki í þjóðerninu

Gunnar Th. Gunnarsson, 18.11.2007 kl. 14:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband