Veiðitúr

Ég fer í laxveiði einu sinni á ári. Ég reyni að velja mér á við hæfi þykktar veskis míns og þess vegna fer ég sjaldan í dýrar ár. Enda þarf alls ekki að vera samhengi á milli verðs og ánægju við veiðarnar. Þetta árið fer ég í Hólsá, neðsta hluta Rangár. Ég var þar í fyrra og varð ekki fyrir vonbrigðum. Að vísu tók leigusali Hólsár, LAX-Á, út besta veiðistaðinn (við Borg) og færði hann yfir í dýrara svæðið. Þeir urðu eitthvað svekktir kóngarnir í "efra" þegar þeir sáu veiðitölurnar úr neðri hlutanum, þrisvar til fimm sinnum ódýrara svæði. 

Ég kem til baka, vonandi með krassandi veiðisögur og fallegar myndir um næstu helgi.

Þangað til, veriði góð hvert við annað. Bless.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jæja félagi austmann - laxveiðitúr í Rangá - ég væri ekki sá sem ég er ef ég óskaði þér ekki skemmtunar. En þar sem við deilum ekki endilega sömu sæng þegar að kemur að náttúruvernd þá langar mig til að segja þér litla sögu af sléttunum. Rangárnar þetta víðfeðma vatnakerfi var á sínum tíma án þess að á nokkuð annað sé hallað, eitt besta sjóbirtingssvæði í heimi. Gos í Heklu gerðu óskunda eins og við var að búast en sjóbirtingurinn er harður nagli eins og dæmin sanna og þegar ég veiddi í Rangánum síðast þ.e. árið fyrir tíma laxasleppingar þá var ekki leiðinlegt ástand á hinum náttúrulega íbúa svæðisins, enda búinn að hafa nokkurn tíma til að ná sér aftur á strik og án aðstoðar hinna vitibornu. Heimildir frá miðri síðustu öld segja okkur frá ótrúlegir veiði á stórum sjóbirtingum og til eru myndir frá dagsveiði á stöng sem fær mann til að fölna. Eitt svæsnasta náttúruhryðjuverk sem framið hefur verið í íslensku vatnakerfi á seinni tíma er það þegar menn ákváðu að gera Rangárnar að laxveiðiám, sem þær eru ekki og verða aldrei í þeim skilningi orðsins. Rangárnar eru afkvæmi græðginnar, þar sem öll eðlileg samskipti við náttúruna voru fyrir borð borin.  Í dag eru Rangárnar hafbeitarár, fallegar á að líta sem fyrr, en sem veiðiár, ekki verðar athygli.  

Pálmi Gunnarsson (IP-tala skráð) 23.7.2007 kl. 09:33

2 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Einn af kostunum við að búa hér í Svíþjóð er að hér er oftast hægt að veiða lax án þess að borga túkall. Það er bara að fara með stöngina útí náttúruna og njóta. Þetta kalla sænski "allmenningsrétt". Í versta falli ertu krafinn um "svæðiskort" sem kostar skít á priki (miðað við íslensk veiðileyfi) og gefa þér rétt til að veiða eins og þig lystir á stóru (ég meina STÓRU) svæði.

Ásgeir Rúnar Helgason, 24.7.2007 kl. 22:13

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Takk fyrir góðar óskir Pálmi. Og ég skemmti mér vel takk. Skrifa um það færslu á morgunn. Þetta er athyglisverð hugleiðing hjá þér Pálmi og ég væri algjörlega sammála þér ef ég hefði ekki efasemdir um að þetta sé allskostar rétt hjá þér sem þú segir um sjóbirtinginn þarna. Þarna fást ennþá sjóbirtingar og sá ég einn veiðimann þarna með 3-4 pundara og veiðivörður á svæðinu sagði mér að þarna veiðist alltaf töluvert af sjóbirting. Ekki er ég nógu vel að mér í samlífi laxfisktegunda en það eru jú til ár sem skreyta sig fleiri en einni tegund, samanber Laxá í Aðaldal o.fl. En það er alltaf sama sagan með þig og þína líka Pálmi, að ef einhverjum dettur í hug að hreifa við einhverju í náttúrunni, þá stendur ekki á stóryrðunum.

"Eitt svæsnasta náttúruhryðjuverk sem framið hefur verið í íslensku vatnakerfi"

"Rangárnar eru afkvæmi græðginnar"

Ég veit ekki betur en þú sjálfur sért að "maka krókinn" sem leigutaki og sali í veiðiám og ekki eru þau veiðileifi gefin. En það gildir kannski annað um þig af því þú ert grænn. Hvernig gengur annars með Litlu-á? Er hún ekki kjaftfull af risaurriða ? ..því ekki hefur mátt hirða úr henni aflann. Ég hef veitt í henni nokkrum sinnum, síðast fyrir 2 árum og það var frekar óskemmtileg lífsreynsla. Þarna vorum við 3 félagarnir í þvílíku dýrðarinnar veðri en veiðin var reyndar í öfugu hlutfalli við það eins og stundum vill verða. En það sem var óskemmtilegt við veru okkar þarna var að einhver hús-haldari á staðnum og sennilega veiðivörður leit okkur vægast sagt tortryggnu auga þegar hann spurði okkur um aflabrögð um kvöldið. Þegar við sögðum honum að við hefðum bara fengið einn, og orðið að hirða hann þar sem hann laskaðist of mikið við tökuna, þá mátti auðveldlega lesa úr látbragði hans öllu að hann trúði okkur ekki. Svo þegar við vorum að pakka saman í bílinn þá var hann eins og grár köttur í kringum okkur, sennilega til að gá hvort hann sæi ekki einhverja "stolna" fiska. Okkur fannst þetta mjög óþægilegt og ákváðum á staðnum og stundinni að þarna kæmum við ekki aftur.

Ég er ekki viss um Ásgeir að ég vildi fara "sænsku" leiðina. A.m.k. ekki hvað varðar laxveiðiárnar. Væri frekar í lagi með vötnin.

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.7.2007 kl. 22:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband