Ferðasaga - lagt af stað

Ég ætla að stikla á stóru í næstu færslum um ferðalag okkar 29 Reyðfirðinga til Póllands og Kaupmannahafnar dagana 8.-19. júní. Hópurinn samanstóð af kennurum Grunnsk. Rreyðarfjarðar og mökum þeirra.

8.-9. júní 

Flogið var beint til Köben frá Egilsstöðum og tekin ferja þaðan um kvöldið og til lítils hafnarbæjar í Póllandi, Swinoujscie (Swinemunde) við landamæri Þýskalands. Þægilegur ferðamáti þegar hægt er að nota hann að hluta til svefns. Fríhafnarverslanir og veitingastaðir,  næturklúbbur og spilavíti og ekki spillti fyrir spegilsléttur sjór alla leið. Við lögðum í hann frá Köben kl. 9 um kvöldið og komum á áfangastað kl. 8 morguninn eftir. Í Swinoujscie tók á móti okkur hann Slawek (borið fram Swavek) sem við höfðum kynnst á Reyðarfirði, því hann sá um almannatengsl þeirra Pólverja sem vinna hjá bandaríska verktakanum Bechtel, sem byggir álver Alcoa. Alveg hreint yndislegur maður sem við hefðum ekki viljað vera án í ferðalaginu. Hann talar ágæta ensku en Pólverjar eru ekki þekktir fyrir að tala annað en móðurmálið og e.t.v. hrafl í þýsku og rússnesku. 

Þegar í land var komið beið okkar rúta sem við höfðum fyrir okkur þessa 3 daga í NV-Póllandi og haldið var af stað til heimabæjar Swavek, Szczecin (Stettin) við Oder. Þessi N-vesturhluti Póllands var fyrir seinni heimsstyrjöldina hluti Þýskalands (Prússlands)og hafði verið það í 200 ár og þess vegna eiga flestar borgir og kennileiti sér einnig þýsk nöfn. Eftir fyrri heimsstyrjöldina var borgin gerð að höfuðborg þýska fylkisins Pommern. Þetta hefur þó ætið verið pólskt menningarsvæði og móðurmál fólksins pólska. Skipaskurður liggur frá borginni alla leið til Berlínar sem er í rúml. 100km fjarlægð í beinni loftlínu.

015-1

Siglt áleiðis til Póllands. Brúin milli Danmerkur og Svíþjóðar í baksýn

023

Glatt á hjalla á einum pöbbnum um borð. Þóroddur, Viðar, Erna, Rúna, Hildur og Siggi.

Í Stettin er mikill skipasmíðaiðnaður og því varð borgin illa úti í loftárásum bandamanna í seinni heimsstyrjöldinni. Mörg íslensk fiskiskip eru smíðuð í Stettin. Við komuna til borgarinnar sem telur um 450 þús. manns var fljótlega farið á röltið og við Íslendingarnir eltum Swavek sem var eins og gæsamamma með ungana sína í halarófu á eftir sér.

002

Hluti hópsins með Swavek, sá hávaxni fyrir miðju.

005

Ansi gróðursæl bygging. Skyldi skorkvikindi ekki slæðast innum gluggana?008009

 

 

 

 

Um 30 stiga hiti var í borginni þegar við komum og því ljúft að stoppa og fá sér einn kaldann á röltinu. Svo fórum við í útsýnissiglingu um sýkin og skurðina sem liggja þarna um allt en borgin er í um 60 km fjarlægð frá Eystrasaltinu. Þegar við vorum á siglingunni kom skyndilega gríðarleg úrhellisdemba sem breyttist svo í haglél, í 30 stiga hita!! Höglin voru sum hver á stærð við stór bláber og á myndinni hér til hægri má greina þau á rauðu gólfinu. Myndin verður stærri ef þið smellið á hana.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband