Súrir súrálsmenn

Fyrst farmurinn af súráli kom hingað til Reyðarfjarðar í fyrradag. Skipið kemur alla leið frá Ástralíu og var um 40 daga á leiðinni. Einn vélstjóranna um borð og þrír hásetar vildu lyfta sér upp strax fyrsta kvöldið sitt hér. Vélstjórinn og annar hásetanna voru Króatar en hinir tveir frá Indónesíu. Ég fór og náði í þá niður á Mjóeyrarhöfn. Þegar þeir komu inn í bílinn til mín sögðu þeir mér strax að þeir væru ekki búnir að sjá kvenmann í 40 daga nema í pornómyndum og báðu mig að fara með sig á einhvern stað þar sem þeir gætu hitt kvenfólk. Ég sagði þeim eins og var að á miðvikudagskvöldi væri það borin von. Í fyrsta lagi væri búið að loka eina pöbbnum á Reyðarfirði (sem er náttúrulega skandall) og í öðru lagi þá væri fátt um fólk á þeim tveimur stöðum sem hægt var að fá sér í glas, þ.e. á Tærgesen gistiheimilinu og á Fjarðahótelinu. Að vísu væru gistirýmin full en gestirnir gengu snemma til náða. Hér ynnu flestir 6 daga vikunnar og a.m.k 12 tíma á dag vegna hinnar gífurlega hröðu uppbyggingar sem hér ætti sér stað.

Það leið ekki nema um hálftími eftir að ég skildi þá eftir á hótelinu þar til þeir hringdu aftur. Ekki sála á barnum en afgreiðslustelpan sagði þeim frá næsta þorpi, Eskifirði. Þar gætu hugsanlega einhverjir verið. Þeir vildu þangað og ég hringdi í Valhöll til að athuga hvort það væri ekki örugglega opið. Það var opið og einhverjir voru að horfa á landsleik Íslendinga og Spánverja svo ég brunaði með þá þessa 15 km leið. 

Þegar ég náði í þá aftur tveimur tímum seinna var frekar lágt á þeim risið. Ég spurði vélstjórann hvort þeir hefðu horft á leikinn. Jú það gerðu þeir.....markmaðurinn var góður, sagði vélstjórinn sem sat alltaf frammí. En bætti svo við " Íslendingar eru góðir í handbolta".

Þegar ég renndi upp að landganginum á heimili þeirra, fóru aftursætisfarþegarnir strax út, vélstjórinn tók upp veskið og sagði hálf dapurlega, I allways pay. Nú sagði ég, ert þú ríki maðurinn í hópnum? Já, í þeirra augum svaraði hann. Þá spurði ég hann hvað hann hefði í mánaðarlaun. Um tvö þúsund dollara og bætti svo við, bjórinn hérna er dýr. Fyrir andvirði eins bjórglass hér get ég keyp heilan kassa af bjór heima. Mig setti hljóðan, hann hafði sennilega eytt um  10% af mánaðarlaununum í leigubíl og nokkur bjórglös. Hann borgaði í dollurum, kvaddi mig og þakkaði mér fyrir. Þegar ég horfði á eftir honum labba upp landganginn þá hugsaði ég með mér, ef hann er ríki maðurinn í hópnum með tvö þúsund dollara í mánaðarlaun, hvað skyldu þá Indónesarnir hafa í laun?

Skipið verðu fram yfir helgi að losa. Ísland er ekki rétti staðurinn fyrir þessa menn til að lyfta sér upp. Ætli þeir bíði ekki aðra 40 daga með það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Og við Íslendingar tökum þátt í þessum súra harmleik glæpafyrirtækja með því að gef þeim raforku...

Gott að það sé nóg að gera í akstinum núna...

Kv Stefán St.

Stefán St. (IP-tala skráð) 2.4.2007 kl. 17:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband