Einkaþotuflugmenn

Ég sótti tvo bandaríska einkaþotuflugmen Bechtel verktakans á Reyðarfirði í gær til Egilsstaða. Bechtel ákvað að bjóða þeim í kynnisferð á framkvæmdasvæði Alcoa. Þetta voru hinir alúðlegustu menn og fróðleiksfúsir um land og þjóð. Þeir vissu reyndar lítið sem ekkert um okkur eða framkvæmdirnar. Héldu t.d. að Bechtel væri að reysa þessa verksmiðju fyrir sjálfa sig. Þegar við keyrðum yfir Fagradal sem var heimskautalegur á að lýta í vorbyrtunni, spurði annar þeirra hvort að hér væru birnir. Ég sagði þeim frá hinum fimm viltu tegundum landspendýra sem prýða landið okkar og að þar af væru tvær teg. sem fluttar hefðu verið inn sérstaklega. Ég minntist reyndar ekkert á kanínur sem virðast vera að festa sig í sessi víða um land.

Þessir menn virðast lifa nokkuð æfintýralegu lífi. Ferðast um allan heima með hátt setta yfirmenn fyrirtækisins og gesti þeirra. Bechtel á og rekur 4 svona þotur sem eru ca. 50 sæta, flottar og rennilegar. Þær eru í stöðugri notkunn og á þeim starfa 18 fastráðnir flugmenn. Á styttri ferðum eru þeir bara tveir saman en stundum er flugleiðin það löng að þeir þurfa að vera fjórir.

Bechtel er stærsta verktakafyrirtæki í heimi, með verkefni bókstaflega út um allt. Ég spurði þá hvort einhverjir staðir væru í uppáhaldi hjá þeim. Ekki vildu þeir meina það en nefndu tvo staði sem vildu síður koma á. Það voru Indland og Sádi-Arabía. Indland vegna þeirrar gífurlegu fátæktar sem þeir urðu vitni að, sögðu að það væri " really depressing", og Sádi-Arabíu vegna þess hversu strangir Arabarnir eru t.d. varðandi áfengi (nema þú sért prins, þá er það ekki vandamál) og varðandi kvenfólk sem oft er með þeim í för, ýmist sem flugmenn eða starfsmenn Bechtel. Þeir nefndu sem dæmi að á hóteli einu sem þau gistu á var tennisvöllur í garðinum. Þau fóru að spila í steikjandi hitanum og allir voru að sjálfsögðu í tennisbúningnum sínum, hvítum stuttbuxum og bol. Þá kom öryggisvörður og skipaði konunum að klæða sig sómasamlega. Konur í Stuttbuxum voru ekki leifðar þarna. Engu skipti þó á hótelinu væru engöngu vestrænir ferðamenn og garðurinn væri lokaður almenningi.

Ég sagði þá flugmönnunum frá reynslu okkar bekkjarfélagana úr Garðyrkjuskóla Ríkisisns í útskriftarferðalagi á ítalíu vorið 1988. Þetta var um miðjan apríl og veðrið líka svona dásamlegt. Við höfðum verið að skoða frægan bótanískan garð í Flórens og ákváðum að flatmaga á grasbala umkringd vorblómanum. Allir fóru úr að ofan en stelpurnar að sjálfsögðu í brjóstahöldum sínum. (ekki það að ég hefði misst vatnið þó þær hefðu svipt þeim af sér líka) Þá kom einkennisklæddur garðvörður með kaskeiti og talstöð hangandi við beltisstað og skipaði stúlkunum að klæða sig í peysurnar hið bráðasta. Eitthvað reyndum við að malda í móinn í byrjun en lúffuðum svo fyrir honum þegar við heyrðum orðið pólisía í gegnum ítalskan orðaflauminn.

Þegar flugmennirnir heyrðu þessa sögu þá hló annar þeirra en hinn sagði að hann væri nú eiginlega sammála þessu. Hann ætti nefnilega tvær unglings dætur og hann vildi ekki að " The sharks would come around". Þá sagði ég honum að ef hákarlarnir fengju að venjast  þessu í rólegheitum þá yrðu þeir bara vinalegir og kurteisir. Ég ætti sjálfur unglings dóttur og að ég samþykkti alveg hvað hún gerði í þessum efnum, svo framarlega sem hún væri sátt við það sjálf.

Þá sagði frjálslyndi flugmaðurinn með glettnissvip að það væri ekki að marka þetta  með hinn, hann væri alinn upp í þannig umhverfi og að sum svæði í Bandaríkjunum væru afar ströng í siðferðilegu tilliti.

Æ, já.... heima er best


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband