Systir mín sem búsett hefur verið í Svíþjóð um margra ára skeið er stödd hér á landi. Hún var á bíl dóttur sinnar og á leiðinni út úr bænum fyrir nokkrum dögum síðan og ákvað að fylla á bensíntankinn hjá ÓB Bensín, dótturfyrirtæki Olís. Hún notaði til þess debet kortið sitt en inni á því voru rúmlega 25 þús. kr., reiðufé sem hún þurfti að láta duga til mánaðarmóta. Hún fyllir á bílinn fyrir 3-4 þús. kr.
Þegar húm kemur til baka seint um kvöldið þá fer hún í matvörubúð til að kaupa einhverjar nauðsynjar en þá er debet korti hennar hafnað, engin heimild! Hún furðar sig að sjálfsögðu á þessu, fer inn á netbankann sinn og sér þá peningaúttekt hjá ÓB Bensín að upphæð kr. 25 þús. Hún verður alveg miður sín og hélt að hún hefði kannski gleymt að slökkva á dælunni eða eitthvað og einhverjir aðrir hefðu fyllt á tanka sína út á kortið hennar. Þá reynir hún að hringja í einhvern hjá Olís-ÓB Bensín en ekkert neyðarnúmer er hjá þeim en símsvari segir henni að skiptiborð opni kl. 8 að morgni.
Hún hringir á slaginu 8 morguninn eftir og fær samband við einhvern sem svarar fyrir kvartanir. Sá segir eðlilegar skýringar á þessu, því Olís taki þetta gjald af öllum sem nota debetkort ef þeir velji að fylla. Hins vegar finnist honum sjálfum þetta vera einkennileg vinnubrögð og í raun orðinn leiður á að þurfa að svara fyrir þetta, það rigni yfir hann kvörtunum, sérstaklega frá útlendingum sem eru komnir heim úr ferðalaginu frá Íslandi. Hann vísaði því máli systur minnar til yfirmanns síns, Jóns Guðmundar Ottóssonar, forstöðumanns Olís og ÓB stöðva. Hún fékk þau skilaboð frá honum að hann myndi hringja í hana. Það gerðist ekki fyrr en eftir hádegi þennan sama dag.
Sá ágæti maður, sem vel að merkja var kurteisin uppmáluð, sagði að þetta væri ekki Olís að kenna, heldur kortafyrirtækjunum, sem krefðust þessa. Þau tækju til sín 25 þús kr. sem tryggingagjald ef debetkort væri notað til áfyllingar. Útlendingar fengju endurgreitt að 3-4 vikum liðnum en Íslendingar fengju endurgreitt að 9 dögum liðnum! Við þetta fauk í mína manneskju og hún hótaði að fara með málið til lögfræðings en það vildi Jón Guðmundur fyrir alla muni að hún gerði ekki.
Þá hringdi systir mín í Visa og þar komu menn af fjöllum og sögðust aldrei hafa heyrt annað eins og að þetta væri fjarri sanni. Eftir nánari athugun kom í ljós að þetta var gert að beiðni Olís. Þarna varð sem sagt ljóst að hinn kurteisi forstöðumaður Olís og ÓB stöðva laug að systur minni blákalt. Systir mín hefur notað kortið sitt til áfyllingar á bensínstöðvum bæði í Svíþjóð og Bandaríkjunum og aldrei lent í svona vitleysismáli áður.
Nú var systur minni nóg boðið og hafði samband við lögfræðing sem gekk hratt í málið og sendi forstöðumanninum tölvupóst. Eftirfarandi svar barst til baka:
Vísa Ísland er komið með mál vinkonu þinnar xxxxx xxxxx, gsm 857-xxxx til meðferðar, bakfærslan er föst í Reiknistofubankana en Vísa hafa umboð til að leysa þann hnút og hafa þeir sent beiðni til hennar banka í Svíþjóð til að lagfæra þetta.
Okkur þykir þetta mál mjög leiðinlegt og að bankakerfið skuli virka svona á Íslandi vinnur klárlega ekki með okkur.
Enn er forstöðumaðurinn að kenna öðrum um en Olís-ÓB Bensín, sem sagt; "Það er allt í lagi hjá okkur en aðrir eru ekki að standa sig".
Eins og áður sagði þá var starfsmaður Olís sem tók á móti kvörtunum orðinn hundleiður á að þurfa að svara fyrir réttmætri óánægju viðskiptavina Olís-ÓB Bensín og fyrir fólk sem er farið af landi brott, að þurfa að standi í svona nokkru er auðvitað fyrir neðan allar hellur.. Ef tekið er af hverju debetkorti aukalega um 20 þús kr. þá hljóta þetta að vera umtalsverðar vaxtatekjur sem fyrirtækið "stelur" af fólki og ekki nóg með það heldur er þetta gert án þess að viðskiptavinurinn sé varaður við. Þessu er stolið í skjóli myrkurs.
Þegar systir mín nefndi við lögfræðing sinn hvort ekki væri hægt að kæra Olís fyrir þjófnað, þá sagði lögfræðingurinn að vissulega væri það hægt, en það kostaði mikla peninga og satt að segja dró lögfræðingurinn úr systur minni að standa í því.
Eftir mikla fyrirhöfn, símtöl og ferðalög á milli staða í borginni og í raun fullan vinnudag við að reyna að fá þetta leiðrétt, auk óþægindanna vegna þess að kortinu var hafnað af því innistæða reikningsins var tekin út í heimildarleysi, þá finndist mér rétt að Olís greiddi skaðabætur vegna þessa siðlausa og ólöglega athæfis. Hvað finnst ykkur?
Bloggar | 29.6.2007 (breytt kl. 17:58) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Ég lenti í frekar skondnu atviki um síðustu helgi. Þýsk stúlka pantaði leigubíl í Bechtelbúðirnar við Reyðarfjörð og þegar ég mæti þá eru stúlkurnar tvær og með þeim í för er ástralskur karlmaður. Förinni er heitið á Norðfjörð, á ball með Jet Black Joe
Á leiðinni eru þremenningarnir á spjalli eins og gengur, hress og skemmtileg og eru að spyrja mig út í eitt og annað á leiðinni. Þýska stúlkan situr frammí hjá mér og hún talaði enskuna með dæmigerðum þýskum hreim, Ástralinn auðvitað með sínum ástralska hreim en hin stúlkan talar enskuna með ekta íslenskum framburði, en jafnframt talaði hún þýsku alveg gallalaust að mér heyrðist.
Sú sem talaði enskuna með íslenska hreimnum spurði hin hvort þau vissu að á Reyðarfirði sæist sólin ekki frá nóvember og fram í febrúar og daginn sem hún sæist aftur væru allsstaðar kaffi og pönnukökur og þessi partý væru kölluð sól-kaffi. Ég leiðrétti hana og sagði "sólar kaffi" og spurði hana svo á íslensku:, "þú ert íslensk, er það ekki?". "Nei", svaraði hún mér á ensku, "ég er þýsk". Ég varð steinhissa og spurði þá á ensku, "En talarðu íslensku"? Hún svaraði því til að hún kynni nokkur orð á íslensku, t.d. "góðan daginn, takk fyrir, já og nei" og þessi orð sagði hún með áberandi þýskum hreim.
Þá sagði ég henni að ég hefði næstum þorað að hengja mig upp á að hún væri íslensk, því hún talaði enskuna nákvæmlega eins og íslendingur myndi tala hana með sömu áherslum, framburði og hrynjandi. Þá hló hún við og sagðist hafa verið á Íslandi í 10 mánuði að vinna á hestabúi og þegar hún kom, talaði hún mjög litla ensku en hafði lært hana af Íslendingunum á hestabúgarðinum. Þetta þótti mér alveg stórmerkilegt, því hinn dæmigerði þýski framburður á enskri tungu er ekki sá hljómfegursti sem heyrist. Enskunámið í íslenskri sveit hafði alveg eytt þýska hljómfallinu og nú talaði hún enskuna eins og sönn íslensk heimasæta.
Bloggar | 29.6.2007 (breytt kl. 04:39) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Alcoa Fjarðaál styrkir Jasshátíð Egilsstaða á Austurlandi næstu þrjú árin. Samningur þess efnis var undirritaður á Egilsstöðum í gær við hátíðlega athöfn. Jasshátíðin fagnar 20 ára afmæli sínu í ár og hefur dagskráin aldrei verið glæsilegri
Enn og aftur sýnir Alcoa Fjarðaál hug sinn í verki gagnvart samfélaginu á Austurlandi og sannar hvílíkur hvalreki fyrirtækið er á mörgum sviðum atvinnu og mannlífs hér eystra. Skemmst er að minnast samningsins sem Alcoa gerði um fyrsta atvinnuslökkvilið á Austurlandi, í Fjarðabyggð. Eflaust túlka þetta einhverjir á þann veg að með þessu sé Alcoa að reyna að kaupa fólk, sér til stuðnings en þeir hafa ekki þurft þess hingað til, hér hafa þeir verið velkomnir frá upphafi.
Samningurinn var undirritaður af þeim Jóni Hilmari Kárasyni, framkvæmdastjóra Jasshátíðar Egilsstaða á Austurlandi og Ruth Elfarsdóttur, framkvæmdastjóra fjármála hjá Alcoa Fjarðaáli, í kaffihúsi KHB á Egilsstöðum. Jón Hilmar sagði að samningur sem þessi væri hátíðinni mikill styrkur og lýsti mikilli ánægju með hann.
Bloggar | 28.6.2007 (breytt kl. 18:29) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Úti ljósmyndasýningin "Eskifjörður þá og nú" sýnir staði, hús og mannlífið á Eskifirði í kringum aldamótin 1900. Ljósmyndirnar sem eru eftir ýmsa ljósmyndara eru allar í eigu ljósmyndasafns Eskifjarðar. Myndirnar eru settar upp og sýndar nálægt þeim stöðum þar sem þær voru upphaflega teknar og því eru myndirnar út um allan bæ.
Sýningunni er ætlað að gefa gestum tækifæri á að ferðast aftur í tímann og bera saman þær miklu breytingar sem orðið hafa á Eskifirði. Sýningin hefst í lok júní og stendur fram á haust.
Bloggar | 28.6.2007 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17. júní
Nú var kominn tími til að kveðja Krakow. Lestin okkar til Varsjár átti að fara á hádegi en við vildum vera tímanlega í því og leigubílarnir voru mættir á hótelið okkar 10.45. Raða þurfti vel í bílana svo allt kæmist með. Hildur gætti töskunnar með pólska kristalnum sem sjáaldurs augna sinna. Ekki einu sinni Þóroddur fékk að halda á henni
Beðið eftir lestinni umkringd töskum. Skilaboð í símanum?
Þægilegur 6 manna reyklaus.... og áfengislaus klefi! Mér skilst að áfengisneysla sé bönnuð í pólskum lestum, a.m.k. í þessari. Leiðin er 292 km. og ferðin tók 2 klt. 45 mín. Gant í Viðari, eins og einn félagi minn til sjós í gamla daga hefði orðað það ef einhver var að gantast. Sá var nýyrðasmiður, svona óvart
Komin til Varsjár. Þóroddur virðir fyrir sér turnana tvo. Gamli og nýi tíminn kallast á.
Leigubíllinn sem við tókum á aðaljárnbrautarstöðinni í Varsjá til Chopin flugvallar var vel tækjum búinn. Grái kassinn fremst er vifta, loftkælingin í bílnum
Komið til Chopin flugvallar.
Við fengum samskonar 82ja sæta hraðskreiða sportþotu til Kaupmannahafnar og við fengum frá Varsjá til Krakow. Frábært að ferðast í svoleiðis fararskjóta, rúmt um fætur og hægt að halla sætum mikið aftur, og flugið tók ekki nema um klukkutíma. Það kom okkur á óvart að við fengum mat og drykk um borð, á ekki lengri flugleið og allt í boði "hússins".
Í Kaupmannahöfn létum við fara vel um okkur í tvo daga. Reyndar byrjaði það ekki vel því vopnað rán var framið í lobbíinu á hótelinu okkar rétt eftir að fórum á kvöldgöngu, eftir að við tékkuðum okkur inn. Þegar við komum til baka 2-3 tímum síðar var gulur lögregluborði vafin um afgreiðsluborðið og lögreglumenn að yfirheyra afgreiðslustúlkuna sem tók okkur með brosi á vör stuttu áður. Nú var hún ein taugahrúga með tárin í augunum.
Vettvangur glæpsins daginn eftir. Ég spurði afgreiðslukonuna (ekki sú sama og kvöldið áður) um atburði gærkvöldsins, en hún vildi sem minnst úr þeim gera, sagði að þetta hefði ekki verið neitt, engin slasast og engu rænt. Þegar ég tók þessa mynd seinna um daginn þá spurði konan mig með rannsakandi augnaráði hvers vegna ég væri að taka mynd. Ég yppti öxlum og sagðist vera að fara daginn eftir, þetta væri bara svona að gamni. "Ok", sagði hún og hélt áfram að grúska í pappírum, en gjóaði á mig auga öðru hvoru
Aðalheiður hafði ekki verið í Köben áður og hún fór að sjálfsögðu í Tívolí með manni sínum og Hildi og Þóroddi og fleiri lögboðna heimsóknarstaði en við Ásta lágum að mestu í leti en löbbuðum þó nokkrum sinnum um Strikið. Þar fundum við stóra sérverslun með geisladiska og DvD myndir, FONA.
Í tölvuleikjadeildinni í FONA. Stórútsala var í versluninni og gríðarlegt úrval. Þarna voru t.d. fleiri hundruð titlar af DvD myndum, margar tiltölulega nýjar, á 49.90 dkr. eða um 550 ísl. kr. Af hverju er þetta svona dýrt á Íslandi? Nýjar myndir í Póllandi voru á um 1.500 ísl.kr. Fann þar m.a.s. myndir með ísl. texta.
19. júní
Lent á Egilsstaðir Lufthavn. Frábærri ferð lokið og alltaf er yndislegt að koma aftur á klakann.
Þá er þessari ferðasögu lokið. Ég vona að þið hafið haft gaman að þessu bloggi, ég hafði það a.m.k. Nú get ég tekið aftur til við að blogga um dægurþrasið hérna heima
Bloggar | 27.6.2007 (breytt 28.6.2007 kl. 15:39) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16. júní
Við Ásta sváfum svolítið lengur þennan morgunn, við höfðum gott af því. Svo eftir morgunnverðinn þá löbbuðum við niður í bæ frá hótelinu okkar í fyrsta skiptið því við höfðum alltaf tekið leigubíl fram að þessu. Rúmlega hálftíma gangur var niður á gamla markaðstorgið, þar sem allt var að gerast.
Við þvergötuna fyrir framan hótelið okkar. Hver segir að veggjakrot getir ekki verið til prýði?
Mikið var um dýrðir í gamla bænum þennan laugardag. Risatónleikar með frægum pólskum listamönnum til styrktar langveikum börnum. Lincoln limmósína með brúðhjón úr kirkjunni stóru við eitt horn gamla markaðstorgsins. Margar hjónavígslur fóru fram þarna þennan dag. Við hittum Íslendinga daginn áður í miðbænum sem voru að fara í brúðkaup í bænum. Kannski eru íslensk brúðhjón þarna á ferð.
Í tíu mínútna göngufæri frá gamla bænum er þessi risa verslunarmiðstöð, Galleria Krakowska, sú stærsta sem ég hef komið í á ævinni. Ef ég man rétt eru þarna um 200 verslanir og þjónustufyrirtæki. Kannski eru það fordómar í mér en ég átti ekki von á öllu svona flottu, nýtískulegu og snyrtilegu í Póllandi. Gríðarlegt vöruúrval af öllu því nýjasta og verðið í flestum tilfellum hlægilegt. Á myndunum sést um helmingur verslunarmiðstöðvarinnar. P.s. Ég fékk ábendingu frá ferðafélaga að verslanirnar í þessu molli eru um 270!
Innandyra. Loftkælingin var mjög góða þarna svo ég lét til leiðast að vera þarna lengur en í hálftíma . Við kallarnir vorum ítrekað gerðir að "plastpokamönnum" í leiðöngrunum í þessi musteri. "Við eltum þær á röndum, með poka í höndum, langt útí löndum"
Inni í nýja tímanum, gamli tíminn fyrir utan.
Um kvöldið hittumst við öll og fórum á ítalskan veitingastað sem stelpurnar höfðu "spottað" kvöldið áður við gamla markaðstorgið og því pöntuðum við okkur borð þar innandyra fyrir laugardagskvöldið. Mjög flottur staður og hvað er betra en pítsa á ekta ítölskum? Heppilegt að við pöntuðum borð innandyra því þetta var kaldasti dagurinn í ferðinni, ekki nema 22 gráður um daginn og fór niður í 16 um kvöldið. Daginn áður var langhlýjasti dagurinn, 37 stig!
Ásta og Aðalheiður alsælar með eftirréttinn.
Bloggar | 26.6.2007 (breytt 28.6.2007 kl. 15:14) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15. júní
Fyrsti dagurinn án hinna, var sá heitasti í Póllandi til þessa. Hitinn fór í 37 gráður og þetta var dagurinn sem við löbbuðum mest! Það var þó bót í máli að að svolítil gola gerði lífið bærilegra auk þess sem við reyndum að ganga skuggamegin í strætunum. Okkur langaði að skoða Gyðingagettóið í Krakow en lentum í smá misskilningi en við fundum þó allt að lokum með korti og smá leiðsögn. Kazimierz hverfið er heimsfrægt og eldgamalt Gyðingahverfi. " Płaszów concentration camp" er hinu megin við ánna Vislu þó ekki sé nema fárra mínútna gangur á milli og þar er einnig Verksmiðja Schindlers (Schindlers list).
Mörg húsanna í hinu fræga Kazimierz hverfi eru í niðurníðslu en öðrum haldið við en þetta Gyðingahverfi er eitt það elsta sinnar tegundar í heiminum. "The key to the understanding of the popularity that Kazimierz enjoys today is its unbelievable and lasting tolerance: two nations and two great religions existed here for centuries in harmony" eins og segir á einum stað á netinu, sem ég gúgglaði upp.
Sjaldan hafa íslenskir karlmenn verið jafn áfjáðir í að setjast við saumavélarnar Singer og Pfaff . Sniðug borð á veitingastað og okkur fannst við ekki geta gengið framhjá þessu án þess að fá okkur kaldann þó kl. væri ekki nema hádegi
. Viðar er eins og boxari að koma úr 12 lotu bardaga. Hitinn var mikill og þetta var svooooo svalandi.
Hvar er verksmiðja Schindlers eiginlega? Hildur og Alla rýna í kortið við ánna Vislu
Oskar Schindler fundinn! Safnið er hvorki fugl né fiskur, en gaman að hafa komið þarna. Ýmsar upplýsingar var þó að finna þarna um Schindler, verk hans og Gyðingasamfélagið í Krakow. Margir hafa séð hina rómuðu Óskarsverðlaunamynd "Schindlers List" með Liam Neeson í aðalhlutverki.
Um 60 þús. Gyðingar voru í Krakow í upphafi seinna stríðs og voru þeir um fjórðungur íbúa borgarinnar. (Í dag eru íbúar Krakow um 800 þús) Aðeins 5% Gyðinganna lifðu stríðið af eða um 3.000 manns. Oskar Schindler bjargaði um 1.100 þeirra en hann var Mótmælandatrúar, Þjóðverji og meðlimur í Nasistaflokknum. Schindler lifði léttu og munúðarfullu lífi og efnaðist hratt á verksmiðjunni því hann réði eingöngu Gyðinga til starfa hjá sér vegna þess að þeir voru ódýrasta vinnuaflið. Enginn veit með vissu hvers vegna Schindler fór að bjarga starfsmönnum sínum en sögusagnir eru um að þegar hann gerði sér grein fyrir því að útrýma ætti öllum Gyðingum, þá hafi hann breyst. Í október 1944 fékk hann í gegnum sambönd sín og mútugreiðslur, leifi til þess að flytja verksmiðjuna ásamt starfsmönnum sínum til Brunnlitz í Moravíu (Tékkóslóvakíu). Einn hópur kvenna úr verksmiðju hans var sendur fyrir mistök til Auschwitz en honum tókst með harðfylgi að endurheimta þær úr dauðabúðunum. Talið er að það hafi kostað hann umtalsverða peninga.
Eftir stríð, reyndi Oskar Schindler fyrir sér í ýmsum viðskiptum, en allt misheppnaðist hjá honum. Gyðingarnir sem hann bjargaði stofnuðu þá sjóð honum til handa og í raun sáu þeir fyrir honum til dauðadags. Hann ferðaðist oft til Ísraels og þar var hann jarðsettur árið 1974. Tíu árum áður var hann heiðraður orðu "For the Righteous Among the Nations" og á orðuna var letrað "Sá sem bjargar einu mannslífi, bjargar veröldinni".
Safnið er í raun bara einn salur með myndum og upplýsingum um sögu Oskars Schindlers. Við skrifuðum öll í gestabók safnsins.
Þegar við höfðum skoðað Schindlers safnið voru allir orðnir svangir, þreyttir og þyrstir. Stefnan var tekin til baka yfir Vislu í átt að stórri verslunarmiðstöð þar sem við fengum okkur að borða á útiveitingahúsi. Maturinn olli ekki vonbrigðum frekar en fyrri daginn og þar sem ég er sérlegur áhugamaður um mat og matargerðalist, þá tek ég gjarnan myndir af matnum sem ég borða þegar ég er í útlöndum. Það er ágætis regla því þá halda þjónarnir að maður sé blaðamaður á einhverju "Gourme" tímariti og vanda sig sérlega við þjónustuna við mann hehe.
Djúpsteiktur Camenbert m/saladi og glóðarsteiktar kjúklingabringur vafðar beikoni og sólþurrkuðum tómötum, mmmm
Bloggar | 25.6.2007 (breytt kl. 15:04) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14. júní
Upp var runninn síðasti dagurinn í Krakow 23ja af 29 manna hópnum okkar. Hópurinn sem var að fara þurfti að vera mættur á brautarstöðina í síðasta lagi kl. 11.30 svo dagurinn var tekinn snemma að venju og rútan var mætt hjá okkur kl. 8.00. Nú skyldi skoða Wawel kastala. Á myndinni eru Þóroddur, Valli og Hildur fyrir utan hótelið okkar að bíða eftir rútunni.
Hér eru uppl. um kastalann af netinu.
During the reign of Casimir the Restorer (1034-1058) Wawel became a significant political and administrative centre for the Polish State. Casimirs son, Boleslas the Bold (1058-1079) began the construction of a second Romanesque cathedral, which was finished by Boleslas the Wrymouth (1102-1138). In his last will of 1138, this prince divided Poland into districts, and provided that Cracow was to be the residence of the senior prince. In 1291 the city of Cracow along with Wawel Hill temporarily fell under the Czech rule, and Wenceslas II from the Premysl dynasty was crowned King of Poland in Wawel cathedral.
Ekki mátti taka myndir inni í kirkjunni í kastalanum. Jóhannes Páll Páfi var biskup í Krakow og þjónaði í kirkju Wawel kastala áður en hann fór til Rómar. Svawek kunni öllu þarna góð skil og einhverjir túristar fylgdu okkur eftir og fengu frían leiðsögumann .
Nú var komið að kveðjustund við hina 23 heimferðinga, ásamt Swavek og syni hans Carol. Við hin 6 sem framlengdum ferðina um 5 daga fylgdum hópnum á brautarstöðina rétt fyrir hádegi. Það var skrítin tilfining að kveðja þau þarna því hópurinn var samheldinn og skemmtilegur. Það sem eftir var dagsins fannst manni eitthvað vanta en svo áttuðum við okkur auðvitað á því að það var bara mjög gott að vera laus við helv. pakkið
6 eftir. Alla, Viðar Júlí, Hildur, Þóroddur og Ásta. Ferðin hafði fram að þessu verið þaulskipulögð, mikið skoðað og þvælst frá morgni til kvölds, en nú tók við öðruvísi ferðalag. Meira frjálsræði og afslöppun. Meira búðarráp og veitingahúsarölt.
Gamli bærin, "The Old Market Place". Þarna vorum við öll kvöld þessa 3 aukadaga í Krakow. Inni í þessu húsi var markaður eins og margir kannast við frá Spáni. Óteljandi básar með allskonar dóti, skartgripir, kristalvörur og mynjagripir. Húsið stendur í miðju risastórs torgs og magnað úrval veitingahúsa allan hringinn.
Þóroddur að æfa sig í kvöldmyndatöku. Hildur horfir spennt á eiginmanninn.
Bloggar | 24.6.2007 (breytt kl. 21:15) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég má til með að skjóta þessu inn á milli í ferðasöguna. Ótrúlegur "amatör" söngvari. Takið eftir svipnum á kvendómaranum. Hún hlýtur að sitja í polli, heppin að renna ekki af stólnum
Connie litla er yndisleg
Bloggar | 23.6.2007 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13. júní
Eftir heimsóknina til Auschwitz var kominn tími til að fá sér að borða áður en við færum í hinar heimsfrægu saltnámur í Krakow. Svawek vildi vera þjóðlegur og vísa okkur á ekta pólskt hlaðborð á skemmtilegum veitingastað og sú heimsókn olli okkur ekki vonbrigðum (með einni eða tveimur undantekningum ) Tvær fallegar og glaðlegar stúlkur tóku á móti okkur í þjóðbúningum þegar við gengum inn.
Hér er Þóroddur skólastjóri að fara yfir borðsiðina með hópnum. Innréttingin er í bjálkakofastíl með risastórum veggteppum á einum veggnum.
Spurning hvor er svínslegri, Siggi eða villigölturinn
Forrétturinn var brauð með svínakæfu og svínarúllupilsum, mjög gott.
Svínahnakki, glóðarsteikt svínarifjasteik, svínapulsur, andabringur,lamb á spjóti með grænmeti, tvennskonar bakaðar kartöflur, sallad og 3 tegundir af berjasafa.
Eftir matinn var varið í stuttan kynningartúr í gamla miðbæ og markaðstorg Krakow. Við áttum ekki stefnumót við leiðsögukonu okkar í saltnámunum fyrr en kl. 4. Í miðbænum áttum við eftir að spóka okkur mikið innum um óteljandi eðal matsölustaði og verslanir. Frábær staður og mikið mannlíf, ekki síst á kvöldin. Á hægri myndinni var KR-ingi númer eitt á Reyðarfirði afhentur þessi bolur. Maggi rakst á bolinn þarna í miðbænum og stóðst ekki mátið að kaupa hann handa Sigga. Það sem raunverulega stendur á bolnum er: KRakow
Eftir að leiðsögukona okkar hafði tekið á móti okkur í anddyri saltnámanna, var labbað niður þröngan tréstiga, 7 þrep á milli palla, tæplega 100 metra ofan í jörðina. Þá tóku þröngir viðarklæddir rangalar við, sennilega ekki þægilegt fyrir fólk með innilokunarkennd. Þessir manngerðu hellar og gangar eru samtals um 300 km langir, já KÍLÓMETRA! Ferðamenn eru leiddir um ca 1% af þeim. Byrjað var að grafa þarna eftir salti á 13. öld. Salt var í Mið-Evrópu afar verðmætt á þessum tíma. Tilkoma saltsins á svæðinu er að þarna var eitt sinn sjór sem hafði orðið innlyksa , þornað upp og eftir varð saltið.
Starf námumannanna þótti afar hættulegt en trúin styrkti menn í veru sinni þarna og því voru gerðar margar kapellur í námunum. Einnig eru þarna mörg listaverk hoggin í saltstein. Þarna er höggmynd tileinkuð Kópernikusi, stjarnfræðingnum pólska. Á myndinni eru Ásta, Valli og Alla.
Eins og áður sagði var mjög hættulegt að vinna í námunum, einkum vegna hruns, en ýmislegt var gert til að tryggja öryggi námumannanna. Hér má sjá aðgerðir í þá átt en virka ekki sérlega traustvekjandi því staurarnir líta út fyrir að vera alveg að bresta. Einnig var eitthvað um það að menn villtust í námunum og fundust e.t.v. mörgum mánuðum eða árum seinna.
Hestar voru notaðir í námunum en hestur sem einu sinni fór þangað niður sá dagsljósið aldrei meir.
Gengið á milli hella. Leiðsögukonan okkar fremst og Alla og Hildur fylgja í humátt á eftir.
Stærsta kapellan í námunum og hefur mikla sögu að geyma. Gólfið eru slípaðar saltflísar og öll listaverk eru úr saltsteini. Meira að segja ljósakrónurnar eru úr saltsteinum, 700 stykki í hverri. Þarna erum við á yfir 100m dýpi og hitastigið þarna er stöðugt allan ársins hring, um 12 gráðu hiti.
Salt-ljósakróna
Leiðsögukonan okkar ásamt Svönu fyrir framan veggmynd af síðustu kvöldmáltíðinni (að sjálfsögðu úr saltsteini). Í fjarlægð sýnist vera mikil dýpt í myndinni en í raun er hún ekki nema 15 cm djúp.
Sumstaðar voru gríðarlegir styrktarbitar í hellunum. Vegna saltmettaðs loftsins í námunum eru mörg hundruð ára trévirki sem ný. Fúi er enginn í viðnum. Einnig er talið að loftið í námunum sé afar heilnæmt, sérstaklega fyrir asma og lungnasjúklinga. Leiðsögukonan okkar sem var virkilega skemmtileg sagði okkur t.d. að hún væri 900 ára gömul og væri lifandi sönnun þessarar fullyrðingar. Á myndinni með leiðsögukonunni eru Lotta og Svawek að athuga hvort ekki sé allt í lagi með styrktarbitana.
Magnaður dagur var að kveldi kominn og allir fóru þreyttir heim á hótel. Ákveðið var að borða á hótelinu þetta kvöld enda allir orðnir úrvinda. Morguninn eftir ætluðum við að skoða merkilegan kastala og kirkju sem Jóhannes Páll þjónaði áður en hann varð Páfi. Kl. 12 á hádegi færi svo allur hópurinn fyrir utan okkur Ástu, Hildi og Þórodd og Öllu og Viðar áleiðis til Varsjár með lest og þaðan með flugi til Köben og svo til Egilsstaða þaðan daginn þar á eftir.
Bloggar | 23.6.2007 (breytt kl. 21:26) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.8.): 4
- Sl. sólarhring: 16
- Sl. viku: 133
- Frá upphafi: 947465
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 131
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Heilbrigðismál
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Sakamál
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Skoðanakannanir
- Spaugilegt
- Stjórnmál og samfélag
- stóriðja og virkjanir
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Tónlistarspilari
Nýjustu færslurnar
- Duty free okurverð.
- 60 en líður sem 50
- Bara Evrópa hata frið
- Innri sundrung ógnar lýðræði
- ,,Sjálfan sig selur enginn nema með tapi"
- Hið góða samtal stjórnar og stjórnarandstöðu
- Sálarsundruð sturlun á firringu ofan
- Silja Bára styður menntamorð
- ÞAÐ VÆRI SVO SEM Í LAGI MEÐ VERÐTRYGGINGUNA EF HÚN VÆRI RÉTT ÚT REIKNUÐ....
- Bæn dagsins...