Hugmynd fyrir vestfirðinga

Minkur er eitt örfárra dýra sem mér er ekki vel við. Þessi hömlulausa drápsfísn þessarar dýrategundar í tilgangsleysi minnir helst á mannskepnuna. Ef minkur kemst í hænsnabú reynir hann að drepa hverja einustu hænu og þær örfáu sem lifa af eru svo gott sem dauðar úr taugaáfalli og verpa aldrei meir. Svo lætur minkurinn sig hverfa og vitjar aldrei matarins, ólíkt refnum. Refurinn nýtir allt sem hann drepur. Það sem hann fær ekki torgað það grefur hann í jörð og vitjar síðar, gjarnan að vetri þegar aðdrættir eru af skornum skamti. minkur2

Minkur hefur verið landlægur hér síðan skömmu fyrir miðja síðustu öld þegar dýr sluppu úr búrum sínum. Einhversstaðar las ég að á þessum örfáu áratugum hefði íslenski villiminnkurinn þegar öðlast sér íslensk einkenni, líkt og hreindýrin ku einnig hafa fengið. Svona er aðlögunarhæfnin mikil. hreindýr

Eitt sinn var ég í laxveiði í Andakílsá í Borgarfirði og stóð út í miðri ánni þegar ég sá mink koma tríttlandi eftir öðrum bakkanum í áttina til mín. Ég hætti að kasta og fylgdist með minknum nálgast mig. Hann tók ekkert eftir mér þar sem ég stóð grafkyrr í ánni. Hann snuðraði mikið en stoppaði ekkert, yfirferðin var mikil og hröð. Hann var ekkert að dást að umhvefinu eða veðrinu, enda eru þeir hálfblindir skilst mér, en þefskinið er því betra. Þegar hann var beint til móts við mig í ca 6-8 metra fjarlægð þá blístraði ég hvellt. Hann stoppaði augnablik, rak trýnið í áttina til mín og þefaði en sá mig ekki að því er virtist. Þá hrópaði ég til hans en var áfram hreyfingarlaus. Enn sá hann mig ekki og hélt afram iðju sinni. Það var ekki fyrr en ég veifaði hendinni að hann varð var við mig og þá var hann ekki lengi að stökkva frá árbakkanum og láta sig hverfa.

Ég stundaði minkaveiðar með Einari bróður mínum á árunum 1975-80. Við höfðum ávalt sérþjálfaða minkahunda sem við fengum lánaða hjá ýmsum aðilum auk þess sem Einar átti einn slíkan sjálfur. Hundarnir voru vistaðir hjá embætti Veiðistjóra sem þá var og hundabúið var í hlíðum Úlfarsfells, við veginn að Hafravatni. Þetta voru oft ævintýralegar ferðir, mikið labb oft á tíðum, vítt og breytt um suðvestanvert landið. Ef minkur var á svæðinu þá fundu hundarnir hann undantekningalaust, en stundum voru aðstæður erfiðar, sérstaklega í hrauni eins og víða er suður með sjó og á svæðinu í kringum Þingvallavatn. Erfitt gat reynst að grafa grenin upp, en oft hafðist að lokum að "svæla" minkin úr holunum. Hundurnar afgreiddu svo minkinn á augabragði þegar hann reyndi að komast undan. En það voru líka alltaf einhverjir sem við náðum ekki til.

Ég er nú frekar vantrúaður á að það sé raunhæft að útrýma mink. Ekki verður notast við eitur eða ófrjósemislyf vegna þeirrar áhættu sem slíku fylgir og hefðbundnar veiðiaðferðir eru einfaldlega ekki nógu árangursríkar. Svona slagorðamarkmið eru álíka trúverðug og "Eiturlyfjalaust Ísland árið 2000". En vissulega er hægt að halda mink niðri en það kostar töluvert fjármagn. Það verður að hækka verðlaunafé fyrir hvert skott og jafnvel ætti Veiðimálastofnun að halda úti hundum sem þeir gætu lánað til veiðimanna sem uppfylla ákveðin skilyrði. Svo er aldrei að vita nema breski aðallinn vilji koma hingað og borga fyrir að fá að veiða hér minkinn því búið er að banna honum að veiða refi á heimaslóðum. Þar gæti farið saman hesta og hundaleiga. Hugmynd handa Vestfirðingum í atvinnusköpun.... gratis.


mbl.is Athuga á hvort hægt sé að útrýma minki á landsvísu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: halkatla

fólk verður að sjá sóma sinn í því að hætta öllum viðskiptum sem styrkja loðdýrabændur. Ekkert sem minkurinn gerir í grimmdaræði jafnast á við það sem þarf til þess að lifa á þjáningu þessara dýra sem eru ræktuð til þess eins að lifa og deyja í litlum búrum. Þjáningar og angist minkanna sjást í augunum. Annars vildi ég helst losna við minka af landinu líka, en mér þykir vænt um þessi litlu grey í búrunum  

halkatla, 5.4.2007 kl. 20:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband