Nokkur mikilvæg atriði um stjórnlagaþing

Ég afritað texta úr skjali sem ég var að lesa. Er hægt að vera ósammála þessu? 

Jóhanna Sigurðardóttir Dýrafjarðarfari og hyski hennar kasta þessa dagana á milli sín og í fjölmiðlana nokkrum fráleitum forsendum og fullyrðingum um hið ógæfulega stjórnlagaþing sitt. Ein er, að bankahrunið megi að einhverju leyti rekja til stjórnarskrárinnar. Orsakir bankahrunsins eru alkunnar: Fámenn klíka fjárglæframanna undir forystu Baugsmanna, sem starfaði eftirlitslaust vegna yfirráða yfir fjölmiðlum og hagsmunatengsla við stjórnmálamenn, tæmdi bankana, svo að þeir voru óviðbúnir hinni alþjóðlegu fjármálakreppu, jafnframt því sem grannþjóðir okkar gerðu illt verra.

Önnur fráleit fullyrðing er, að þjóðin verði á einhvern hátt svipt valdi sínu til að breyta stjórnarskránni, sé horfið frá hinu vanhugsaða stjórnlagaþingi Jóhönnu. Í fyrsta lagi hefði slíkt þing aðeins samþykkt tillögur til Alþingis, en ekki getað breytt stjórnarskránni upp í sitt einsdæmi. Það er Alþingis að breyta stjórnarskránni, síðan er það rofið, og nýtt Alþingi samþykkir síðan breytingarnar, og þá öðlast þær gildi. Í öðru lagi leiðir einmitt beint af þessu, að stjórnarskrárbreytingar eru ætíð bornar undir þjóðina, og þarf ekki stjórnlagaþing til.

Þriðja fráleita fullyrðingin er, að þjóðin vilji stjórnlagaþingið, sem Hæstiréttur ógilti kosninguna til í gær, 25. janúar. Í skoðanakönnunum kemur í ljós, að mjög fáir vilja þetta þing eða hafa á því áhuga. Órækasti vitnisburður er samt, að aðeins um 30% landsmanna tóku þátt í kosningunum til þess. Á bak við þann frambjóðanda, sem fékk flest atkvæði, var því aðeins brot landsmanna. Á bak við þá 25 menn, sem náðu kjöri, er vitanlega aðeins nokkur hluti þeirra 30%, sem þátt tóku í kosningunum. Þetta fólk var umboðslítið, áður en Hæstiréttur ógilti kosningu þess. Nú er það umboðslaust.

Morgunblaðið gerði fyrir röskri hálfri öld iðulega gys að „Þjóðinni á Þórsgötu eitt“, þar sem skrifstofa Sósíalistaflokksins var, en hann talaði jafnan í nafni þjóðarinnar og gaf raunar út blað, sem hét Þjóðviljinn. Naut flokkurinn samt ekki nema stuðnings fimmtungs landsmanna, þegar best lét. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir benti á það í Háskólabíói í upphafi bankahruns, að þeir, sem þar væru staddir, væru ekki þjóðin, en fyrir þá réttmætu ábendingu voru gerð hróp að henni.

Þjóðin er vitanlega ekki einhver minni hluti, hvort sem hann er hinn örsmái minni hluti, sem kaus 25-menningana á stjórnlagaþing, eða þau 30%, sem tóku þátt í kosningunni til þingsins. Raunar er þjóðin ekki heldur meiri hluti þeirra Íslendinga, sem hafa kosningarrétt hér og nú. Þjóðin er ekki aðeins einhver minni hluti og meiri hluti hér og nú, heldur hlýtur þetta að vera samheiti yfir Íslendinga fyrr og síðar, liðnar, lifandi og komandi kynslóðir. Þetta er sú heild, sem Egill Skallagrímsson, Halldór Kiljan Laxness. við, sem nú erum uppi, og komandi kynslóðir geta talið sig til.

Þjóðarhugtakið hlýtur því að vísa til almennra og varanlegra hagsmuna Íslendinga á framfarabraut þeirra. Það felur í sér virðingu fyrir fortíðinni og von um framtíð. Þjóðarhugtakið skírskotar til almennrar sáttar um þau lögmál, sem best hafa reynt til að ryðja framfarabraut okkar og gera hana að öðru leyti greiðfærari. Þessi lögmál eru aðallega tvö, og hafa vestrænar þjóðir lært þær á langri og erfiðri göngu sinni.

  1. Takmarka verður valdið, svo að það verði ekki misnotað.
  2.  Veita verður einstaklingum svigrúm til að leita hamingjunnar og þroskast hverjum eftir sínu eðli.

Í aðalatriðum gegnir íslenska stjórnarskráin því hlutverki sínu prýðilega að takmarka valdið og veita einstaklingum svigrúm til þroska. Ég tel hins vegar, að einhvern tíma þurfi að breyta nokkrum ákvæðum hennar, þótt ekkert liggi sérstaklega á nú: skilja að ríki og kirkju, leggja niður forsetaembættið með öllu þess tildri og prjáli og takmarka betur skattlagningar- og seðlaprentunarvald ríkisins. Vel er hins vegar í stjórnarskránni séð fyrir málfrelsi, félagafrelsi og atvinnufrelsi, sem allt eru mjög mikilvægar tegundir frelsis, þótt okkur hætti til að taka þeim sem sjálfsögðum.

Enginn maður hefur skrifað af betri og dýpri skilningi um stjórnarskrármál á okkar dögum en James M. Buchanan, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði 1986, og mættu hugmyndir hans verða okkur leiðarljós um hugsanlegar stjórnarskrárbreytingar.

 


mbl.is Útsend kjörbréf teljast ógild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Finnst þér við hæfi að afrita heila færslu eftir höfund hrunsins á þína bloggsíðu?
Hannes Hólmsteinn er persona non grata

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 28.1.2011 kl. 01:38

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ertu óssammála því sem stendur í textanum?

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.1.2011 kl. 01:50

3 Smámynd: Björn Birgisson

Þetta ræðið þið bara í Tælandi vinirnir! Utan allra gæsalappa!

Björn Birgisson, 28.1.2011 kl. 02:59

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ææ.. gleymdi ég gæsalöppunum

En ég vísaði í heimildina!

Ertu ekki sammála textanum, Björn?

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.1.2011 kl. 03:04

5 Smámynd: Björn Birgisson

Aldrei mundi ég segja þennan texta alslæman, það er hann alls ekki. Mér líkar hins vegar afar illa við höfund þessa texta. Hér líður verkið fyrir höfund sinn, eins og stundum áður, þegar pólitískt blint fólk skrifar með lofgjörð í hægri hendi, en þá vinstri fulla af hatri og fyrirlitningu. Það er ekkert fyrir mig.

Björn Birgisson, 28.1.2011 kl. 03:16

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þetta er ´satæðan fyrir því að ég nefndi ekki nafn höfundarins í pistlinum. Fólk virðist ekki geta tekið afstöðu til málefna, heldur aðeins manna. Þetta er mikill löstur í fari Íslendinga.

-

Fólk segir: "Jú,jú, þetta er alveg hárrétt hjá honum, en ég tek samt ekkert mark á því, af því Hannes segir það".

-

Davíð Oddsson lenti ítrekað í þessu, sérstaklega eftir að hann varð Seðlabankastjóri. Aðvörunarorð hans voru hunsuð, "af því hann sagði þau". Ef fólk andar rólega, þá hlýtur það að sjá hversu heimskulegt þetta er.

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.1.2011 kl. 14:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband