Ályktun SUS

Stjórn Sambands ungra Sjálfstæðismanna ályktaði eftirfarandi og ég tek heils hugar undir með þeim:

SUS harmar tilgangslaus stjórnarslit

Samband ungra sjálfstæðismanna harmar þá ömurlegu atburðarás sem orðið hefur til þess að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar mun fara frá völdum. Ljóst er að málefnalegur ágreiningur varð ekki til þess að fella samstarfið. Ótrúlega óskammfeilin kröfugerð Samfylkingarinnar á hendur Sjálfstæðisflokknum á síðustu dögum er augljós fyrirsláttur.

Hið raunverulega markmið Samfylkingarinnar var að knýja fram stjórnarslit. Þetta gerist jafnvel þótt formaður Sjálfstæðisflokksins hafi fallist á að boðað yrði til kosninga 9. maí.Það er forystu Geirs H. Haarde að þakka að tjónið af kerfishruni bankanna varð ekki meira en raunin hefur orðið. Með aðgerðum í kringum hrun bankanna var tryggt að eðlileg viðskipti gætu áfram átt sér stað í landinu og rask af völdum þessara hamfara var lágmarkað. Þetta skipti höfuðmáli fyrstu dagana eftir hrunið. Síðan hefur markvisst verið unnið að áætlunum um endurreisn fjármálakerfisins í samstarfi við alþjóðlega sérfræðinga og stofnanir.

Traust tök Geirs H. Haarde á þeim stóru málum sem þurfti að bregðast við hafa verið þjóðinni til happs, en hafa verður í huga að umfang vandans er líklega án fordæmis í heiminum á friðartíma. Í þessu ljósi munu aðgerðir Geirs H. Haarde verða metnar þegar fram líða stundir.Sú taugaveiklun og ístöðuleysi sem Samfylkingin hefur sýnt á síðustu vikum er uggvekjandi fyrir íslenskt samfélag. Ástand þjóðmála er grafalvarlegt og heimurinn allur stefnir í alvarlega efnahagslægð. Við þær aðstæður verður mörgum órótt og stoðir samfélagsins svigna undan því álagi sem hvílir á einstaklingum, fjölskyldum og fyrirtækjum í landinu. Undir þessu álagi hafa forystumenn Sjálfstæðisflokksins staðið.

 Geir H. Haarde hefur sýnt að aldrei myndi hann skorast undan þeirri skyldu sem hann tók að sér sem forsætisráðherra og um heilindi hans hefur aldrei nokkur þurft að efast. Samfylkingin reyndist hins vegar vera sú kvísl sem fyrst brotnaði undan storminum þrátt fyrir að standa í miklu skjóli af forsætisráðherra. Á meðan forystumenn Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn hafa unnið að uppbyggingu þá hefur stór hluti Samfylkingarinnar beint kröftum sínum í innbyrðis sundrungu og taugaveiklun. Því miður hefur Samfylkingin brugðist þjóðinni og sjálfri sér með þeirri tækifærismennsku og klækjum sem nú hafa hrakið þjóðina út í tilgangslaus stjórnarskipti og pólitíska óvissu. 

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú ráðrúm til að hefjast handa við að vekja enn á ný traust á að frelsi einstaklingsins til orðs og æðis sé hornsteinn mannvænlegs samfélags og að Ísland eigi að vera bæði frjálst og opið.

f.h. stjórnar SUS  Þórlindur Kjartansson
mbl.is „Ótrúlega ómerkilegt“ af Samfylkingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Áttu æludall..?

Mér varð nefnilega flökurt við lesturinn.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 28.1.2009 kl. 23:13

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Svona svona, Helga mín.

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.1.2009 kl. 23:25

3 Smámynd: hilmar  jónsson

Tilgangslaus ? SUS SUS SUS

hilmar jónsson, 28.1.2009 kl. 23:26

4 Smámynd: Sigurður Rúnar Sæmundsson

Ég er alveg sammála um óheilindi Samfylkingarinnar. Þessir flokkar báðir, Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkur eru báðir óhæfir í ríkisstjórn, við þessar aðstæður. Þessir flokkar báðir bera ábyrgð á ástandi efnahagsmála þjóðarinnar í dag. Ég nefni ekki sök, ekki er sannað ennþá að afglöp stjórnvalda undanfarin ár, hafi verið glæpsamleg. Framsóknarflokkurinn á heima í þessum hópi. Þegar sannað þykir að þingmenn þessara flokka hafi haft hagsmuni íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi við myndun efnahagsstefnu undangenginna ára, má afskrifa glæpinn, en þá stendur aulagangurinn eftir. Og niðurlæging þjóðarinnar.

Sigurður Rúnar Sæmundsson, 28.1.2009 kl. 23:28

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég get tekið undir þetta hjá þér Sigurður.

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.1.2009 kl. 23:30

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

En ég er skíthræddur við kosningavíxla vinstriflokkanna. Það er ekki ábætandi fleiri og hærri afborganir fyrir þjóðina.

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.1.2009 kl. 23:33

7 Smámynd: Sigurður Rúnar Sæmundsson

Það segirðu svo sannarlega satt. Nú verður væntanlega einhverju eitt í atkvæðakaup. Tveir mánuðir í kosningar, nú verður fjör, og svo enn meiri timburmenn í vor.

Sigurður Rúnar Sæmundsson, 28.1.2009 kl. 23:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband